Pétur Hafþór Jónsson
Pétur Hafþór Jónsson
Eftir Pétur Hafþór Jónsson: "Skólamunastofa Austurbæjarskóla ætti að verða grunnur að Skólamunasafni Reykjavíkur, sem hluti af Borgarsögusafni í húsakynnum með aðgengi fyrir alla."

Skólamunastofa Austurbæjarskóla byggist á miklu safni muna uppi á háalofti skólans, sem lengi hefur nýst sem góð geymsla, en er óboðlegt kennsluhúsnæði nema stund og stund. Fyrst og fremst er hún þó byggð á ræktarsemi og árvekni ótal stjórnenda, kennara og starfsmanna og væntumþykju gamalla nemenda. Þetta eru í fyrsta lagi munir úr langri sögu skólans, en í öðru lagi gjafir til Hollvinafélags Austurbæjarskóla frá nemendum og erfingjum látinna kennara. Þar má nefna hluti úr fórum rithöfundarins Stefáns Jónssonar, einnig sýnishorn frá upphafi vinnubókargerðar á Íslandi, en vagga hennar var í Austurbæjarskólanum. Þeir gripir eru þjóðargersemi. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, hefur engan rétt til að ráðstafa þeim gjöfum eitt eða neitt. Þeir eru eign Hollvinafélags Austurbæjarskóla.

Skólamunastofan raungerir menntastefnu Reykjavíkurborgar með afar skýrum hætti. Þar segir: „Aðgengi að menningararfi eru lífsgæði og grundvöllur þekkingar, virðingar og aukins skilnings á fortíð og samtíð. Reykjavíkurborg leggur rækt við verndun menningararfs.“ Enn fremur: Reykjavík „vill skapa rými fyrir hið óvænta og ótamda“. Skólamunastofan er einmitt sjálfsprottin, óvænt og ótamin. Svo vitnað sé í lýðræðisstefnu Reykjavíkur segir þar, að miðað sé að því „að efla lýðræðislega þátttöku borgarbúa og formgera enn frekar möguleika íbúa til þess að hafa áhrif á málefni sem þá varða. Forsenda fyrir farsælli ákvarðanatöku um borgarmálefni eru vandaðar upplýsingar, víðtæk þátttaka og samtal fulltrúa mismunandi sjónarmiða.“ Það er einhver grundvallarmisskilningur hjá Helga Grímssyni að hann geti ráðið örlögum Skólamunastofunnar með samtölum við aðra embættismenn. Það gera kjörnir fulltrúar í samstarfi við stjórn Hollvinafélagsins og fleiri aðila í anda lýðræðisstefnunnar. Sú aðferð er „forsenda fyrir farsælli ákvarðanatöku“. Helga ber einungis að hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem kjörnir fulltrúar taka að lokum. Ekki stjórnar hann borginni. Hvað aðkomu skólastjóra varðar er rétt að minna á auglýsingu um stöðu hans frá 2014, en þar er m.a. leitað „að einstaklingi sem getur veitt skólasamfélaginu faglega forystu á lýðræðislegan hátt og leitt skólann inn í framtíðina með virðingu fyrir ríkri menningarlegri arfleifð“. Enn fremur „að starfið byggist á sterkum hefðum“. Mér sýnist skólastjórinn hafa dæmt sig úr leik með því að hirða ekki um hefðirnar og annað sem minnir á sögu skólans. Þar vottar ekki fyrir virðingu.

Eitt af meginhlutverkum Hollvinafélagsins er að halda utan um þessa sögu. Austurbæjarskólinn er fyrsta húsið í Reykjavík sem kynt er með heitu vatni úr iðrum jarðar. Fyrsti græni skólinn? Sjálfbærni er lykilorð í allri stefnu stjórnvalda. Varla eru plastblómin á göngum skólans hluti af grænum skrefum Reykjavíkurborgar, eða hvað? Hvað varðar orð Helga Grímssonar í Morgunblaðinu 21. júní sl. um að Austurbæjarskólann sárvanti pláss fyrir tölvur og þvíumlíkt er vert að rifja það upp, að eftir ár flytur unglingadeild skólans yfir í Vörðuskólann. Þá losnar öll norðurálman. Skólann vantar ekkert pláss nema kannski um stundarsakir. Reyndar er heilli kennslustofu splæst á námsráðgjafann, önnur er einungis notuð sem fundaherbergi. Spennistöðin sem skólinn hefur afnot af á skólatíma stendur ónotuð. Það mætti nýta það húsnæði til einhvers. Fundi mætti halda uppi á lofti í Skólamunastofunni. Allir hefðu gott af hreyfingunni, sem myndi bæta „heilsu og vellíðan á öllum æviskeiðum“, eins og segir í lýðheilsustefnu borgarinnar. Helgi Grímsson virðist hins vegar alltaf hafa haft horn í síðu Skólamunastofunnar, sem er einkennilegt, þar sem hann er gamall skáti eins og Arnfinnur Jónsson, fyrsti formaður Hollvinafélagsins, en einnig gamall nemandi Guðmundar Sighvatssonar, annars formanns félagsins. Hvað gengur honum til?

Hvað framtíðina varðar ætti Skólamunastofan tvímælalaust að verða grunnur að Skólamunasafni Reykjavíkur, sem aftur yrði hluti af Borgarsögusafni. Þá þyrfti gott húsnæði með aðgengi fyrir alla, starfsfólki sem hugsar á skapandi hátt og virkri safnakennslu þar sem börn geta handleikið gamla muni og kennslutæki. Með því að fara höndum um hlutina öðlast skilningur á eðli þeirra. Þess vegna þarf að vera nóg til af munum og bókum. Einnig gætu eldri borgarar átt þarna unaðsstundir, alzheimersjúklingar kveikt á perunni í kunnuglegu umhverfi, kynslóðirnar unað sér saman. En Austurbæjarskólinn sjálfur er líka ígildi safns. Svo merkileg er þessi bygging, að saga hans þarf alltaf að vera sýnileg og nemendur meðvitaðir um hana. Annað er ekki í boði.

Boltinn er hjá Framsóknarflokknum. Þaðan koma um þessar mundir menningarmálaráðherra, barnamálaráðherra, formaður skóla- og frístundaráðs og verðandi borgarstjóri. Dugnaðarforkurinn Sigrún Magnúsdóttir hefði rúllað þessu verkefni upp ein. Varla vilja hin fjögur verða eftirbátar hennar. En í millitíðinni: Ekki setja munina ofan í kassa, sem settir verða í geymslu úti í bæ. Látið Skólamunastofuna í friði þangað til verðugt húsnæði finnst. Annars gerist ekkert og munirnir gleymast.

Höfundur situr í stjórnum Hollvinafélags Austurbæjarskóla og Íbúasamtaka miðborgarinnar. peturhafthor@icloud.com

Höf.: Pétur Hafþór Jónsson