— Morgunblaðið/Eggert
Hvað er fram undan? Fram undan hjá okkur í leikhópnum Spindrift eru sýningar á verkinu Við dönsum undir öskufalli endalokanna á sunnudaginn og mánudaginn í Iðnó, sem er hluti af hátíðinni Reykjavík Fringe Festival.
Hvað er fram undan?

Fram undan hjá okkur í leikhópnum Spindrift eru sýningar á verkinu Við dönsum undir öskufalli endalokanna á sunnudaginn og mánudaginn í Iðnó, sem er hluti af hátíðinni Reykjavík Fringe Festival.

Er verkið jafn dramatískt og titillinn gefur til kynna?

Verkið er dramatískt en í því er einnig mikill húmor, léttleiki og von. Verkið er rosalega fallegt en ungt par tekst á við kvíða þegar í ljós kemur að þau eiga von á barni. Höfundurinn, Melissa Kelly Franklin, er áströlsk en þýðingin var í höndum Urðar Norðdahl.

Hvað er Spindrift?

Norrænn leikhópur sem samanstendur af konum frá Íslandi, Finnlandi og einni frá Noregi. Við Sólveig Eva Magnúsdóttir tókum þátt í að stofna hann árið 2013. Við vorum fjórar saman, sem lærðum í Rose Bruford College í Bretlandi. Segja má að við höfum verið metnaðarfullir Norðurlandabúar í útjaðri London, því við stofnuðum hóp til að æfa enn meira utan skóla á laugardögum. Við vorum pínu nördar. Í skiptinámi veturinn eftir, lentum við allar saman í Tallinn í Eistlandi. Við fundum að við höfðum svipaða sýn á list og sköpun þótt við séum mjög ólíkar.

Er fleira á teikniborðinu?

Við sýndum í vikunni verk sem heitir THEM í Tjarnarbíó og munum sýna það aftur 2. júlí. Við förum einnig til Gautaborgar í haust.