Íslensk menningarhátíð hófst í París í fyrradag, 23. júní og lýkur henni á morgun. Er það umfangsmesta hátíð helguð íslenskri menningu sem haldin hefur verið í Frakklandi allt frá árinu 2004, að því er fram kemur í tilkynningu.

Íslensk menningarhátíð hófst í París í fyrradag, 23. júní og lýkur henni á morgun. Er það umfangsmesta hátíð helguð íslenskri menningu sem haldin hefur verið í Frakklandi allt frá árinu 2004, að því er fram kemur í tilkynningu.

Megináhersla er lögð á íslenskar kvikmyndir, þáttagerð auk tónlistar og bókmennta og listræn stjórn hátíðarinnar er í höndum Frédéric Boyer sem hefur m.a. verið listrænn stjórnandi Les Arcs-hátíðarinnar í Frakklandi og einnig hjá Tribeca í New York. Hátíðin hófst með forsýningu á nýjustu kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land , sem var sýnd í Cannes í vor og einnig verður sýnd kvikmynd Guðmundar Arnar Guðmundssonar, Berdreymi , og tveir þættir úr Verbúðinni .

Heiðursgestur hátíðarinnar er Benedikt Erlingsson og verða kvikmyndir hans, Hross í oss og Kona fer í stríð sýndar sem og stuttmyndin Takk fyrir hjálpið . Einnig er sérstök áhersla lögð á höfundarverk Sólveigar Anspach.

Allir viðburðir hátíðarinnar fara fram í menningarmiðstöðinni L‘Entrepot í 14. hverfi Parísa. Íslensk matargerðarlist og íslenskt hráefni eru einnig hluti af hátíðinni og tvennir tónleikar haldnir með tónlistarmönnunum Ásgeiri og Árnýju Margréti.

Í dag, laugardag, verður boðið upp á samtal við Auði Övu Ólafsdóttur rithöfund sem hlaut hin virtu frönsku Médicis étranger verðlaun fyrir bók sína Ungfrú Ísland fyrir þremur árum.

Hátíðin er samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í París, Íslandsstofu, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Les Arcs- hátíðarinnar í Frakklandi og unnin innan ramma markaðsverkefnisins Skapandi Ísland sem rekið er af Íslandsstofu í samstarfi við utanríkisráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið og miðstöðvar lista og skapandi greina.