Tíminn drepinn í fjölskylduherberginu, móðir frammi í samtali við sálfræðing, er með áfallastreitu eftir ferð þvert yfir Úkraínu frá Donbas.
Tíminn drepinn í fjölskylduherberginu, móðir frammi í samtali við sálfræðing, er með áfallastreitu eftir ferð þvert yfir Úkraínu frá Donbas.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekkert land hefur tekið á móti jafn mörgum flóttamönnum frá Úkraínu – miðað við höfðatölu – og Moldóva, fátækasta land Evrópu, og þeim er tekið opnum örmum.

Ekkert land hefur tekið á móti jafn mörgum flóttamönnum frá Úkraínu – miðað við höfðatölu – og Moldóva, fátækasta land Evrópu, og þeim er tekið opnum örmum. Í upphafi voru flóttamennirnir hræddir en nú eru þeir þreyttir og suma daga snúa fleiri heim en koma yfir landamærin. Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson

Áður en ég lagði af stað til Moldóvu, kíkti ég auðvitað á umfjallanir um landið. Ljótasta land í Evrópu. Leiðinlegasta höfuðborg í heimi. Jafnvel á heimasíðu ferðamálastofu Moldóvu var dregið úr væntingum ferðamanna sem álpuðust þangað. Þó var tekið fram að þeir gætu fengið góð vín í landinu. Eitt get ég þó sagt um þetta fátækasta land álfunnar, eftir heimsóknina. Moldóva er mjög forvitnileg og fagurgræn. Þegar vélin lenti í Kisínev, höfuðborginni, klöppuðu allir farþegarnir eins og hér forðum. Fyrir hverju var verið að klappa, fátæktinni, flóttamannastraumnum, fólksfækkuninni?

„Vissir þú að engri þjóð, fyrir utan auðvitað Sýrlendinga, hefur fækkað eins mikið á þessari öld og í Moldóvu?“ spurði Daniela Seuciuk, framkvæmdastjóri Rauða kross Moldóvu. „Frá árinu sem ég fæddist og við fengum sjálfstæði, 1991, hefur landsmönnum fækkað um þriðjung, úr þremur milljónum í tæpar tvær. Hér verður til dæmis aldrei reist 5G símamastur. Það yrði fellt á stundinni af einhverjum hræðslupúkum. Því miður erum við opin fyrir alls kyns vitleysu og falsfréttum. Moldóva fór mjög illa í gegnum heimsfaraldurinn. Einungis 31% þjóðarinnar er bólusett í dag gegn Covid-19. Það er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Hér voru og eru alls konar fréttir í gangi, eins og að bóluefnin séu hönnuð af CIA í njósnaskyni ætluð til að lesa hugsanir okkar. Það er mikið bull í gangi. Það var alveg sama hvað sóttvarnalæknir sagði, eða við hjá Rauða krossinum, fólk mætti ekki í bólusetningu. Fólk dó í hrönnum. Því miður. Flestir fá fréttir í gegnum netið, og þá ekki frá hefðbundnum fréttaveitum.“

Rússneski samskiptavefurinn Odnoklassniki er stærstur í Moldóvu, stærri en Facebook. Hann er mikið notaður til að hafa áhrif, dreifa fréttum og falsfréttum, því lítið sem ekkert er um dagblöð eða fréttastofur í landinu, fyrir utan ríkissjónvarpið. Það sveiflast mjög til og frá í fréttaflutningi sínum, eftir því hver er við völd.

„Ég er alls ekki hrifin af miðjunni hér í Moldóvu,“ segir Stefan Gorban, sem er fyrsti aðstoðarmaður Maiu Sandu, forseta landsins. Hann er hægri hönd hennar og starfið er ígildi varaforseta en forsetinn hefur svipuð völd og Frakklandsforseti. Í Moldóvu er sem sagt þingbundið forsetaræði. „Segja má að pólitíkin í Moldóvu sé mjög einföld. Þriðjungur þjóðarinnar vill sameiningu eða samvinnu við Rúmeníu og þá Evrópusambandið, þriðjungur eru kommúnistar af gamla skólanum og styðja Rússa með ráðum og dáð, og síðan er það Mið-Framsóknarflokkurinn með sinn þriðjung. Þeir eru alltaf við völd, því annað hvert kjörtímabil halla þeir sér til vinstri og síðan til hægri í átt að Evrópu. Nú eru hér við völd Evrópusinnuð ríkisstjórn og forseti.“

Daniela og Stefan þekkjast ekki en mér brá, eftir að hafa hitt og spjallað við þau bæði, vegna þess hve saga þeira var keimlík. Bæði voru dregin heim, rétt rúmlega þrítug, eftir 12 ára fjarveru við nám og störf í vesturhluta álfunnar. Hann kláraði meistaragráðu sína í Vínarborg, hún í Kaupmannahöfn. Bæði þvældust um álfuna, með rúmenskt vegabréf í farteskinu, í leit að bæði menntun og vinnu, því engin námslán eru í boði í Moldóvu. Hann heldur mest upp á Spán, hún Tékkland. Bæði fæddust um það bil þegar landið fékk sjálfstæði, og voru alls ekki á leiðinni heim, þegar tveir forsetar, forsetinn sjálfur, og forseti Rauða krossins, kölluðu á þau heim. Báðum fannst einstaklega erfitt að snúa aftur heim til Moldóvu, til þessa fátækasta lands Evrópu, þar sem lífskjörin eru nær Afríku en Evrópu. Bæði fengu vott af þunglyndi við heimkomuna. Flestir vinir og foreldrar búa ekki lengur í landinu. Bæði eru sannfærð um að þau geti látið gott af sér leiða, þokað landinu í rétta átt. Bæði eru sammála um að helsta vandamál landsins sé landlæg spilling.

95% flóttamannanna eru konur og börn

„Merkilegt,“ segir Daniela og horfir á tölvuskjáinn, „Á morgun, 17. júní, kemur 500 þúsundasti flóttamaðurinn frá Úkraínu yfir til okkar. Í dag vantar rétt rúmlega tvö hundruð einstaklinga upp á að ná hálfri milljón. Við eigum allavega eitt met, flestir flóttamenn komnir inn til landsins miðað við höfðatölu. Um 95% flóttamannanna sem hingað hafa komið eru konur og börn. Annað sem Moldóvar hafa gert vel, betur en flestar þjóðir: Það eru hvorki fleiri né færri en 40 þúsund fjölskyldur sem hafa opnað dyr sínar fyrir flóttamönnum og boðið þeim að búa hjá sér. Já, þjóðin hefur tekið Úkraínumönnum opnum örmum, enda liggja öll suður- og austurlandamæri Moldóvu að Úkraínu.“

Moldóva, sem er þriðjungur af stærð Íslands, liggur semsagt á milli Úkraínu og Rúmeníu. Landið var áður austasta hérað Rúmeníu. Landið var hertekið af Sovétríkjunum í síðari heimsstyrjöldinni og síðan innlimað. Sovétmenn fluttu fjölda fólks til landsins og í dag eru um 40% íbúa Moldóvu rússneskumælandi. Austasta hérað Moldóvu, Transnistria, er sérstakt land, lýðveldi með eigin gjaldmiðil, ríkisstjórn, lögreglu og her. Já, þú lest rétt. Land sem engin þjóð hefur viðurkennt, ekki einu sinni Rússar. Þeir hafa haft stóra herdeild í landinu síðan Transnistria lýsti yfir sjálfstæði frá Moldóvu 2. september 1990. Í landinu býr hálf milljón manna, í nokkurs konar stalínískri, norður-kóreskri nýlendu í austanverðri Moldóvu. Úkraínumenn hafa miklar áhyggjur, því 14. herdeildin getur auðvitað ráðist aftan að þeim, vestan megin. Þeir eru með mikinn mannafla bundinn við landamæri Moldóvu. Í tvígang reyndi ég að komast yfir landamærin til að mynda og sjá með eigin augum styttur af Lenín og jafnvel hitta Stalín lifandi. Það gekk ekki með vegabréf frá NATO-landinu Íslandi. Næst.

„Rússarnir koma, ekki spurning, ef þeir vinna stríðið,“ sagði Stefan varaforseti við mig. „Við teljum að Rússarnir ætli sér að taka alla Svartahafsströnd Úkraínu. Kænugarður er aukaatriði. Þá eru þeir komnir hingað, og auðvitað byrja þeir á því að innlima Transnistríu. Íbúarnir þar bíða. Þeir hafa beðið eftir sameiningu við móður Rússland allar götur síðan 1990. Það eina sem við getum gert sem þjóð, er að hætta að vera þjóð, verða hluti af Rúmeníu, og þá yrðum við sjálfkrafa meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Það er ekki meirihluti fyrir þessari leið, en stór hluti þjóðarinnar sér ekkert annað í stöðunni,“ segir Stefan.

Flóttamannamet á alþjóðadegi flóttamanna

„Það er óvenju rólegt í dag.“ segir Nurs frá Tadsíkistan, yfirmaður á stærstu móttökustöð flóttamanna í Moldóvu. Stöðin er við landamæri Úkraínu, í þorpinu Palanca sem er syðst í landinu, 175 km suður af Kisínev. Þaðan eru aðeins rúmir 40 km til Ódessu, þriðju stærstu og auðugustu borgar Úkraínu. „Það var straumur snemma í nótt, en nú er rólegt. Stríðið er búið að standa í yfir í rúmlega hundrað daga. Flestir sem vildu eða gátu farið frá Úkraínu eru komnir yfir. En þetta lítur ekki vel út. Þetta stríð virðist ætla að dragast á langinn. Það er enn mikill baráttuandi hjá Úkraínumönnum, þrátt fyrir linnulausar stórskotaárásir Rússa, sem virðast skjóta jafnt á hermenn sem og almenna borgara. Það er svo sorglegt að á morgun, 20. júní, sem er opinber alþjóðadagur flóttamanna, fer í fyrsta skipti í sögunni, á þessum degi, fjöldi þeirra yfir 100 milljónir í heiminum. Bara í þessu stríði, sem hefur staðið síðan 24. febrúar,“ segir Nurs og horfir yfir til Úkraínu, „hafa bæst við 15 milljónir flóttamanna. Þar af hafa tæplega átta milljónir Úkraínumanna flúið land. Hinir eru á flótta innanlands.“

Starfsfólkið í móttökustöð flóttamannanna hefur mikla reynslu af móttöku flóttafólks. Það kemur frá öllum heimshornum, meðal annars Jórdaníu (sem liggur að Sýrlandi), Keníu (sem liggur að Sómalíu) og Tadsíkistan (sem liggur að Afganistan). Túlkarnir eru svo auðvitað heimamenn. „Það er annar bragur á fólkinu sem er að koma núna, heldur en í byrjun“ segir Nour frá Jórdaníu. „Í byrjun var fólk hrætt. Nú er fólk þreytt, þreytt á þessum átökum, og friður er ekki í augsýn. Það er þó nokkuð um að fólk snúi nú til baka. Það hefur meira að segja gerst í örfá skipti upp á síðkastið að fleiri fari yfir til Úkraínu, en komi þaðan.“

„Ég er með nagandi samviskubit, að sitja hér í sólinni“

Í skugga, í stórum almenningsgarði undir stóru tré í miðborg Kisínev, hitti ég Zoryönu. Hún er flóttakona sem var tiltölulega nýkomin yfir til Moldóvu, að bíða eftir vinkonu sinni og hennar börnum. Þær komu saman yfir landamærin, frá bænum Molodisne í Kerson-héraði, austan við Ódessu, hérað sem er nú hernumið af Rússum. „Ég er með nagandi samviskubit, að sitja hér í sólinni, í örygginu hérna. Samtímis er fólk eins og maðurinn minn að leggja sitt af mörkum við að halda Úkraínu gangandi. Hann er ekki á vígvellinum. Hann var leikari, er nú orðinn flutningabílstjóri, og vinnur við að koma nauðsynjum, tækjum og tólum þangað sem þeirra er þörf, svo landið lamist ekki. Það sem hann er hræddastur við er eldsneytisskortur. Hann er yfirvofandi. Þá kemst hann ekki með jógúrt eða byssukúlur á áfangastað.“

„Moldóva er skrítið land. Land þar sem helsti útflutningurinn er fólk, og stærstu gjaldeyristekjur landsins eru þeir peningar sem fólkið sendir heim,“ segir Dmítró, ellilífeyrisþegi sem snúinn er heim aftur. Hann beið eftir strætó í miðborg Kisínev og stöðvaði mig, spurði; „Ertu ferðalangur? Þeir eru sjaldséðir hér.“ Svo hélt hann áfram: „Hér er svo miklu ódýrara að lifa, ellilaunin mín frá Slóveníu og Frakklandi endast mér hér mun betur. Nú dunda ég mér við að leiðrétta falsfréttir og falsanir á Wikipediu, á frönskum, rúmenskum, moldóvskum og rússneskum síðum. Rússarnir eru með heilan her að eitra með orðum á netinu. Þeir eru í stríði við mig en vinna mig ekki svo auðveldlega. Eftir áfangasigur í orrustu við Rússana, skála ég auðvitað í rauðvíni, því besta í heimi. Því vínið héðan mun ekki bara bjarga efnahagnum, heldur mun koma Moldóvu á kortið. Skál.“ Þannig kvaddi ég Dmítró og Moldóvu, með því að skála í ímynduðum glösum, fullum af moldóvsku eðalrauðvíni.