En ég virðist af einhverjum ástæðum búa yfir þeim eiginleika að muna alls konar hluti sem skipta engu máli.

Þar sem ég sat við iðju mína, að skrá fléttusafn Náttúrufræðistofnunar Norðurlands, í húsakynnum stofnunarinnar í sunnanverðu Hafnarstrætinu á Akureyri einn góðviðrisdag í júní 1992 (í minningunni var alltaf gott veður á Akureyri í gamla daga), kom frétt þess efnis í útvarpinu, sem annaðhvort Halldór Pétursson jarðfræðingur eða Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur, vinnufélagar mínir, kveiktu stundum á fyrir hádegið, að Bítillinn Paul McCartney ætti fimmtíu ára afmæli.

Ég hef þessa setningu viljandi svona langa og með svona mörgum útúrdúrum í minningu annars vinnufélaga, sem ég kynntist síðar, Ríkarðar Arnar Pálssonar tónlistargagnrýnanda, sem blés alla tíð á þá speki Pólóníusar að hóflegt mál sé vitsins sál. Mér verður stundum hugsað til Rikka þegar tónlist ber á góma. Klassík sem dryngirta ballöðusjarmöra. Ógleymanleg týpa, öllum sem honum kynntust.

Aumingja maðurinn, hugsaði ég með mér. Og þá erum við að tala um Paul en ekki Ríkarð. Hann hlýtur að fara að rifa seglin í tónlistinni, ef ekki hreinlega ljúka ferðalagi sínu um þessa vitleysu sem við köllum líf. Ég meina, fimmtugur Bítill. Það er einhver þversögn í því. „Eldgamall karlandskoti,“ eins og Bjarni Ármann Héðinsson, vinnufélagi af Þórsvellinum í denn, sagði svo eftirminnilega þegar hann sá David Coverdale lauma kossi á varir Tawny Kitaen í einhverju Whitesnake-myndbandinu. Vantaði Coverdale þó allmörg ár upp á fimmtugt á þeim tíma.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna almættið hefur plantað þessari ljóslifandi minningu inn á harða diskinn hjá mér. Og þá erum við að tala um Paul en hvorki Bjarna Ármann né Coverdale. En ég virðist af einhverjum ástæðum búa yfir þeim eiginleika að muna alls konar hluti sem skipta engu máli. Gengur heldur verr með hitt, það er að muna hluti sem í raun og veru skipta máli. En það er auðvitað allt önnur saga.

En í öllu falli þá rifjaðist þetta upp fyrir mér um liðna helgi þegar heimsbyggðin var upplýst um þá staðreynd að Paul McCartney, sem nú heitir auðvitað sir Paul McCartney, væri orðinn áttræður. Og enn í fullu fjöri, bókaður sem aðalgaurinn á Glastonbury-hátíðinni í byrjun næsta mánaðar, þar sem Blackbird, Yesterday og allar þessar perlur fá ábyggilega að hljóma.

En svona er tíminn afstæður, eftir því hvaðan er horft. Ég stóð á tvítugu þegar Paul varð fimmtugur. Nú er ég sjálfur orðinn fimmtugur og finnst áttræðir menn hreint ekkert svo gamlir, að ekki sé talað um jafnaldra mína; þeir eru upp til hópa rennblautir á bak við eyrun og rétt að hefja sína vegferð í þessum heimi. Minnið mig endilega á að rifja þetta aftur upp þegar sir Paul verður 100 ára. Og enn syngjandi með bassann á brjóstinu á Glasto!