NATO Kjósendur Vinstri grænna eru sífellt jákvæðari í garð NATO. Þó stendur í stefnu flokksins að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga.
NATO Kjósendur Vinstri grænna eru sífellt jákvæðari í garð NATO. Þó stendur í stefnu flokksins að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Birna Ingvarsdóttir Veronika Steinunn Magnúsdóttir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að ekki standi til að breyta stefnu Vinstri grænna hvað varðar aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Þóra Birna Ingvarsdóttir

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að ekki standi til að breyta stefnu Vinstri grænna hvað varðar aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þar segir að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga. Nýlegar kannanir hafa bent til þess að um helmingur kjósenda Vinstri grænna sé hlynntur NATO. Þannig voru 53% kjósenda VG hlynnt verunni í NATO samkvæmt könnun Fréttablaðsins frá 21. júní en 71% jákvæð gagnvart þátttöku í bandalaginu samkvæmt könnun Maskínu frá 10. júní síðastliðnum.

„Vinstri græn eru enn friðarsinnaður flokkur,“ segir Katrín. Ekki sé óeðlilegt að stuðningur aukist við Atlantshafsbandalagið, nú þegar það hefur verið mikið í umræðunni vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þá bendir hún á að flokkurinn hafi ekki sett sig upp á móti þeirri varnarmálastefnu sem ríkisstjórn Íslands fylgir í dag.

Stefán Pálsson sagnfræðingur, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna og fyrrum formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segir ekkert nýtt að skoðanakannanir komi upp, þar sem stefna kjósenda flokka er ekki sú sama og flokkanna sjálfra. Sem dæmi hafi sama gerst í Sjálfstæðisflokki um afstöðu til Evrópusambandsins. „Það er ekki markmið stjórnmálaflokka að elta hverja könnun, heldur hljóta menn að bregðast við könnunum sem ákalli um að þeir þurfi að kynna sína stefnu betur og vinna henni framgang,“ segir hann. Tölurnar komi ekki á óvart nú, miðað við hvernig umræðan hafi verið. „Við höfum séð skiljanleg hræðsluviðbrögð við tíðindum um Úkraínustríðið. Mjög stífan stríðsáróður, sem kallað hefur fram aukinn stuðning við hernaðarbandalög víða um lönd,“ segir hann og telur að sveiflan sé tímabundin.

- Nú horfum við upp á ríki eins og Finnland sækja um inngöngu í NATO þegar ógn steðjar að. Heldurðu að það hafi ekki áhrif á þessa tilhneigingu fólks?

„Ég er alveg viss um að það skipti máli um afstöðu fólks að þarna séu fleiri Norðurlönd komin inn. Mér finnst það líka segja sitt að stjórnvöld í Finnlandi og Svíþjóð þorðu ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau höfnuðu kröfu um að almenningur fengi að kjósa um þetta, heldur var ákveðið að nýta þessa litlu glufu sem myndaðist í fyrsta sinn í marga áratugi,“ segir hann. „Við þekkjum alveg hvaða sárum það olli á Íslandi þegar gengið var inn í NATO á sínum tíma og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu var hunsuð. Það finnst mér segja sitt um lýðræðislegt eðli bandalagsins.“

Stefán telur að það komi á daginn að þótt fólk sýni stuðning við NATO sýni rannsóknir Silju Báru Ómarsdóttur, stjórnmálafræðings, að flest fólk telji engu að síður öryggi sínu best borgið innan borgaralegra stofnana og telji að Ísland aðhyllist hlutleysisstefnu í alþjóðamálum. „Sem er nokkuð kyndugt í ljósi þess að NATO gerir það alls ekki,“ segir hann.