Úkraínuher tilkynnti í gær að hann hygðist hörfa með herlið sitt frá borginni Severodonetsk í Lúhansk-héraði, en harðir götubardagar hafa verið í borginni síðustu daga og vikur.

Úkraínuher tilkynnti í gær að hann hygðist hörfa með herlið sitt frá borginni Severodonetsk í Lúhansk-héraði, en harðir götubardagar hafa verið í borginni síðustu daga og vikur. Enn var barist þar í gær, en það mun taka nokkra daga fyrir Úkraínumenn að ljúka brottför sinni þaðan.

Serhí Haídaí, héraðsstjóri Lúhansk, sagði að það þjónaði engum tilgangi að verja áfram stöður sem hefðu fengið að kenna á stórskotahríð Rússa svo mánuðum skipti, en hann áætlaði að um 90% borgarinnar hefðu skemmst í árásum Rússa.

Talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins gerðu lítið úr tíðindunum um flóttann, og lögðu áherslu á að Rússar hefðu þurft að gjalda þess dýru verði í bæði hergögnum og mannafla að ná Severodonetsk á sitt vald. Ekki væri von á að fall borgarinnar myndi leiða til stórsóknar Rússa í gegnum varnir Úkraínumanna.