Fjölgun ferðamanna á Íslandi fylgir óhjákvæmilega að sumir þeirra slasast eða veikjast og þá leita þeir gjarnan á bráðamóttöku Landspítalans. Komur þeirra á spítalann eru í réttu hlutfalli við ferðamannastrauminn.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir ferðamennina hreina viðbót við það fólk sem fyrir er í landinu. Um leið og ferðamönnum hafi fjölgað hér hafi fleiri Íslendingar farið í ferðir til útlanda. En hvernig er staðan á bráðadeildinni?
„Staðan á deildinni er óbreytt, en við höfum vonir um að nýr heilbrigðisráðherra og forstjóri spítalans vinni af fullum krafti að því að leysa málið,“ segir Hjalti. „Við höfum raunhæfar væntingar um að þessari stöðu verði snúið við þegar líður á sumarið og haustið.“
Ekki hefur enn ræst úr mönnunarvanda bráðamóttökunnar og deildin er enn undirmönnuð, eins og margir aðrir póstar í heilbrigðiskerfinu í landinu. „Við vonumst til að það horfi eitthvað til bóta með haustinu,“ segir Hjalti Már. gudni@mbl.is