Í Lystigarðinum Sigurgeir Skafti Flosason og Unnur Birna Bassadóttir með dóttur sína, Náttsól Viktoríu Sigurgeirsdóttur.
Í Lystigarðinum Sigurgeir Skafti Flosason og Unnur Birna Bassadóttir með dóttur sína, Náttsól Viktoríu Sigurgeirsdóttur. — Ljósmynd/Dagný Dögg Steinþórsdóttir.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fjölskyldu-, skemmti- og tónlistarhátíðin Allt í blóma í Hveragerði var fyrst haldin í Lystigarðinum í bænum í fyrrasumar, heppnaðist vel og leikurinn verður endurtekinn um næstu helgi. „Lystigarðurinn er sérstaklega flottur, en óþekktur hjá mörgum. Svæðið er lítið notað og því tilvalið að vekja athygli á því með svona skemmtun,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri og skipuleggjandi hátíðarinnar.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fjölskyldu-, skemmti- og tónlistarhátíðin Allt í blóma í Hveragerði var fyrst haldin í Lystigarðinum í bænum í fyrrasumar, heppnaðist vel og leikurinn verður endurtekinn um næstu helgi. „Lystigarðurinn er sérstaklega flottur, en óþekktur hjá mörgum. Svæðið er lítið notað og því tilvalið að vekja athygli á því með svona skemmtun,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri og skipuleggjandi hátíðarinnar.

Hjónin og tónlistarfólkið Sigurgeir og Unnur Birna Bassadóttir hafa búið í Hveragerði í fimm ár. Hann hefur spilað á bassa í ýmsum hljómsveitum, rekur hljóðkerfaleigu og skipuleggur viðburði á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og víðar. „Því var ekkert eðlilegra en að kýla á skemmtun í fyrra, enda allt til alls í Lystigarðinum og þetta er eðlileg þróun á starfi mínu,“ segir hann. „Svæðið er í skjóli, skammt frá Varmá, og ég sá fyrir mér að þarna væri gaman að halda skemmtun á góðu sumarkvöldi.“

Fjölbreytt dagskrá

Hátíðin verður frá fimmtudegi til sunnudags. Haldnir verða viðburðir víðs vegar í Hveragerði með áherslu á dagskrá í Lystigarðinum. „Langtímaspáin er einstaklega góð í Árnessýslu, en við setjum upp tjald fyrir ákveðna viðburði,“ segir Sigurgeir og bætir við að mikilvægt sé að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá svo allir finni eitthvað við sitt hæfi:

„Á föstudaginn verða fjölskyldutónleikar með Reykjavíkurdætrum klukkan fimm og stórtónleikar með Magnúsi og Jóhanni hefjast í tjaldinu klukkan átta um kvöldið.

„Á laugardaginn byrjum við með barnaskemmtun í hádeginu, verðum með Suðurlandsdjass með Kristni Svavarssyni klukkan þrjú og fría stórtónleika um kvöldið, þar sem fram koma Jón Jónsson, Jógvan Hansen, Unnur Birna, Guðrún Árný og Stebbi Jak. Að þeim loknum verður stórdansleikur í tjaldinu. Hljómsveitin Góss slær síðan botninn í hátíðina í Reykjadalsskálanum á sunnudaginn.“ Hann leggur áherslu á að allir dagskrárliðir hátíðarinnar séu ókeypis nema viðburðirnir í tjaldinu. „Fyrirtæki í bænum hafa gert okkur kleift að hafa ókeypis aðgang að dagskránni í garðinum en selt verður á viðburði í tjaldinu.“

Þrennt vekur sérstaka athygli í Hveragerði í sumar. Utanvegahlaupið Hengill Ultra var fyrstu helgina í júní, síðan er það Allt í blóma um komandi mánaðamót og svo Blómstrandi dagar í ágúst.

„Tilgangurinn með hátíðinni er að vekja athygli á möguleikunum sem Hveragerði hefur upp á að bjóða og bæta við annars öflugt mannlíf í bænum,“ segir Sigurgeir. „Hér býr margt tónlistarfólk og annað listhneigt fólk, menning er í hávegum höfð og fjölbreytt flóra.“