[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðni Einarsson gudni@mbl.is Persónuvernd lauk 2.587 málum á árinu 2021. Það eru fleiri mál á einu ári en nokkru sinni áður í sögu stofnunarinnar.

Sviðsljós

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Persónuvernd lauk 2.587 málum á árinu 2021. Það eru fleiri mál á einu ári en nokkru sinni áður í sögu stofnunarinnar. Opin og óafgreidd mál við árslok 2021 voru 571 talsins, að því er fram kemur í formála Helgu Þórsdóttur, forstjóra Persónuverndar, í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2021. Það var fjórða árið frá því að ný persónuverndarlöggjöf gekk í gildi.

Helga segir í formálanum að við stöndum nú á barmi meiri samfélagslegra breytinga en hafa nokkru sinni orðið í iðnvæddum samfélögum. Svo skrifar hún (greinaskil eru Morgunblaðsins):

„Við búum í umhverfi, þar sem unnt er að rýna um 52.000 mismunandi mannlega eiginleika til þess að skipta fólki í flokka eftir áhugamálum, venjum eða persónuleika.

Við búum í umhverfi, þar sem blæbrigði raddarinnar eru nýtt til að finna út hvort um lærðan mann sé að ræða eða ekki – hvort viðkomandi beiti gagnrýnni hugsun eða hvort hann stundi virka hlustun.

Við búum í umhverfi þar sem innsláttur á lyklaborð tölvu getur gefið vísbendingar um sjálfsöryggi, kvíða, depurð og þreytu og við búum í umhverfi þar sem staðsetningarupplýsingar okkar í smáforritum eru sífellt uppfærðar – jafnvel nokkrum sinnum á mínútu.

Við búum í umhverfi þar sem fyrirtæki, og eftir atvikum aðrir, vilja mæla okkur og meta, bæði sem neytendur og starfsmenn, og vilja fylgjast með svefni okkar og vöku, andardrætti og hrotum. Og við búum í umhverfi þar sem leit á Netinu getur gert okkur að viðfangsefni vísindarannsóknar. Því er spurningin orðin knýjandi: Í hvernig heimi viljum við lifa?“ spyr Helga í formálanum og segir að allar þessar upplýsingar þurfi að umgangast af virðingu.

Mörg verkefni tengd faraldri

Mál tengd vinnslu heilbrigðisupplýsinga voru áberandi á árinu 2021, ekki síst mál tengd heimsfaraldri Covid-19. Persónuvernd veitti stjórnvöldum ýmiss konar ráðgjöf vegna viðbragða við faraldrinum. Þar má nefna útgáfu smáforritsins Rakningar C-19 og samkeyrslu gagna vegna bólusetningar barna. Þrjár ákvarðanir voru teknar í málum sem snertu starfsemi sóttvarnalæknis, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og vinnslu upplýsinga um faraldurinn.

Fjölmörg önnur mál, varðandi vinnslu heilbrigðisupplýsinga, voru einnig afgreidd á árinu. M.a. í tengslum við flutning lífsýna til Danmerkur vegna krabbameinsskimana og ráðstöfun lífsýnasafns Krabbameinsfélagsins vegna flutnings krabbameinsskimana frá félaginu til heilsugæslunnar.

Málefni barna voru áfram í forgrunni hjá Persónuvernd. Bæklingurinn „Spurðu áður en þú sendir“ fór í alla grunnskóla landsins. Sektað var vegna skorts á öryggi við vinnslu persónuupplýsinga í Mentor-kerfinu. Frumkvæðisathugun á notkun nemendakerfisins Seesaw í grunnskólum Reykjavíkur leiddi í ljós margvísleg brot á persónuverndarlöggjöfinni. Þá kom upp mál vegna rafrænnar vöktunar á börnum undir lögaldri, sem unnu í Ísbúð Huppu.

Helstu umsagnir 2021

Meðal helstu umsagna sem veittar voru árið 2021 voru:

Umsókn um breytingu á leyfi Íslenskrar erfðagreiningar til stofnunar og starfrækslu lífsýnasafns. Beiðni frá heilbrigðisráðuneyti um umsögn vegna safns heilbrigðisupplýsinga hjá Landspítala. Umsagnir veittar ráðuneyti og Alþingi vegna svokallaðra barnafrumvarpa barna- og félagsmálaráðherra. Umsögn vegna breytinga á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka. Umsögn um stefnu Íslands um gervigreind. Umsögn um stafrænt pósthólf og umsögn um rafræna vöktun á höfnum og á vegum Fiskistofu.