Þjórsá Holta- og Urriðafossvirkjanir eru orkukostir í biðflokki.
Þjórsá Holta- og Urriðafossvirkjanir eru orkukostir í biðflokki. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Verkefnisstjórn rammaáætlunar er að skipuleggja vinnu sína eftir að óvissu var aflétt með samþykkt Alþingis á rammaáætlun 3. Hluti af því verki er að leggja mat á það hvort tillögur berist ráðherra í fleiri en einu lagi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Verkefnisstjórn rammaáætlunar er að skipuleggja vinnu sína eftir að óvissu var aflétt með samþykkt Alþingis á rammaáætlun 3. Hluti af því verki er að leggja mat á það hvort tillögur berist ráðherra í fleiri en einu lagi.

Verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar tók á síðasta ári við verkefnum verkefnisstjórnar 4. áfanga og hefur skipað fjóra faghópa. Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sem vinnur með verkefnisstjórninni, vekur athygli á því að rammaáætlun sé samhangandi ferli og sú verkefnisstjórn, sem nú er að störfum, taki við öllu sem liggi eftir fyrri verkefnisstjórnir.

Biðflokkurinn skoðaður

Núverandi verkefnisstjórn var skipuð í apríl á síðasta ári til fjögurra ára, eða til apríl 2025. Verkefnisstjórn 3. áfanga skilaði tillögum sínum til ráðherra áður en skipunartíma hennar lauk. Meðal annars vegna óvissu með afdrif þeirra tillagna fyrir Alþingi, vannst verkefnisstjórn 4. áfanga ekki tími til að skila fullunnum tillögum.

Herdís segir umræðu um næstu afgreiðslu virkjunarkosta skammt á veg komna og bendir meðal annars á að í umræðum í þinginu um afgreiðslu 3. áfanga hafi mikið verið rætt um að hugsanlega þurfi ekki endilega að skila tillögum í einum stórum bunka á fjögurra ára fresti. Spurð, hvort hugsanlegt sé að taka sérstaklega fyrir þá orkukosti, sem fluttir voru úr verndar- og orkunýtingarflokki við afgreiðslu Alþingis á ramma 3, og leggja fyrir þingið, telur Herdís að það hljóti að koma til greina.

Verkefnisstjórn kemur saman að loknum sumarleyfum um miðjan ágúst. Þá skýrist hver næstu skref verða í vinnu hennar.