Dómur Ekki deildu allir gleði S&W.
Dómur Ekki deildu allir gleði S&W. — AFP/Angela Weiss
Verð hlutabréfa skotvopnaframleiðandans Smith & Wesson Brands Inc.

Verð hlutabréfa skotvopnaframleiðandans Smith & Wesson Brands Inc. tók sveiflu upp á við í gær í kjölfar dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna í fyrradag, þar sem því var slegið föstu að hver maður nyti stjórnarskrárvarins réttar til að bera skotvopn á almannafæri til að verja hendur sínar.

Þurfi ekki að biðja um leyfi

Hækkuðu bréfin um 14,6 prósent í síðdegisviðskiptum í gær eftir 9,6 prósenta hækkun strax í kjölfar dómsins á fimmtudag. Skjótt skipast veður í lofti því við lokun markaða á miðvikudag enduðu bréfin í lægsta verði sínu síðan í júní 2020.

Svipaða sögu er að segja af skotvopnaframleiðandanum Sturm, Ruger & Co sem hækkaði samtals um 7,5 prósent í gær og fyrradag eftir að hafa endað miðvikudaginn í lægsta verði síðustu 18 mánaða.

„Þessi dómur snýst í stuttu máli um að ábyrgir og löghlýðnir borgarar þurfa ekki að biðja stjórnvöld um leyfi til að nýta sér réttindi sem þeim eru tryggð í stjórnarskrá landsins,“ sagði Mark Smith, stjórnarformaður Smith & Wesson, á fundi eftir lokun markaða í gær og bætti því við að enn væri of snemmt að segja til um hver áhrif dómsins á afkomu skotvopnaframleiðenda yrðu til lengri tíma litið.

Löghlýðnir borgarar

„Þar sem dómurinn snýst um réttin til að bera hulið vopn (e. concealed carry), og vopn sem henta til slíks burðar eru stór hluti framleiðslu okkar, má ætla að bætt aðgengi löghlýðinna borgara að framleiðslunni hafi jákvæð áhrif á okkur,“ sagði stjórnarformaðurinn enn fremur.