Alfreð í Íslandsheimsókninni á dögunum þar sem hann miðlaði af reynslunni á þjálfaranámskeiði.
Alfreð í Íslandsheimsókninni á dögunum þar sem hann miðlaði af reynslunni á þjálfaranámskeiði. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúm tvö ár eru síðan Akureyringurinn Alfreð Gíslason tók við stjórnartaumunum hjá karlalandsliði Þýskalands í handknattleik, eða í mars árið 2020. Fyrstu árin í starfi hafa litast af heimsfaraldrinum og kynslóðaskiptum í landsliðinu.

Rúm tvö ár eru síðan Akureyringurinn Alfreð Gíslason tók við stjórnartaumunum hjá karlalandsliði Þýskalands í handknattleik, eða í mars árið 2020. Fyrstu árin í starfi hafa litast af heimsfaraldrinum og kynslóðaskiptum í landsliðinu. Sorgin hefur knúið dyra hjá Alfreð og hans fjölskyldu auk þess sem landsliðsþjálfarinn fékk hótanir sem urðu að lögreglumáli. Kristján Jónsson kris@mbl.is

Alfreð var staddur hérlendis á dögunum og var á meðal fyrirlesara á þjálfaranámskeiði hjá Handknattleikssambandi Íslands. Sunnudagsblaðið nýtti tækifærið og settist niður með Alfreð í Háskólanum í Reykjavík. Alfreð segist stoppa stutt á Íslandi í þetta skipti og þykir verra að komast ekki á æskustöðvarnar en ætlar að bæta sér það upp síðar.

Samningur Alfreðs við þýska handknattleikssambandið gildir fram yfir Ólympíuleikana sumarið 2024 en hann samdi við sambandið á ný í árslok í fyrra. Alfreð segir þjálfarastarfið enn veita sér mikla ánægju og sér ekki fyrir sér að hægja ferðina við lok samningstímans.

„Ég lærði fyrir ekki svo löngu að vera ekki að plana neitt rosalega langt fram í tímann. Ég var í þeim pakka en þær áætlanir urðu að engu. Eftir það ákvað ég að taka mér tvö ár til að taka ákvörðun um hvað ég vil gera. Það eina sem ég veit er að ég ætla ekki að hætta í þjálfun enda nenni ég ekki að gera ekki neitt. Þetta er alltof gaman og ég er ekki einn þeirra sem hlakka til að fara á eftirlaun. Ég prófaði að taka mér frí í hálft ár,“ segir Alfreð og vísar til þess þegar hann ákvað að hætta þjálfun félagsliða sumarið 2019. Hann hætti þá að eigin ósk hjá þýska stórliðinu Kiel og ákvað að taka sér hálfs árs frí en hélt því opnu að taka við landsliðsþjálfarastarfi sem svo varð raunin.

Kara Guðrún Melstað, eiginkona Alfreðs, lést í maí í fyrra eftir baráttu við veikindi. Spurður um hvernig honum hafi vegnað lætur Alfreð ágætlega af sér.

„Nú er meira en ár liðið síðan þetta gerðist og var mjög erfitt en lífið heldur áfram. Synir okkar eru á Íslandi en dóttir okkar býr í Kiel. Að öðru leyti eru mínir hagir þannig að ég fór nýlega í fast samband við yndislega konu, Hrund Gunnsteinsdóttur.“

Alfreð segir það hafa verið viðbrigði að vera einn á heimilinu síðasta vetur en getur hann séð fyrir sér að flytja einhvern tíma aftur til Íslands?

„Já, en það góða við að vera landsliðsþjálfari er að maður getur verið mun meira hérna heima heldur en sem þjálfari hjá þýsku félagsliði. Ég þarf bara tölvuna mína og nettengingu til að sjá alla leiki sem ég vil sjá. Auðvitað þarf ég að vera á staðnum annað slagið en hef gert tiltöulega mikið af því að koma heim. Hér á ég fjögur barnabörn og stór hluti af minni fjölskyldu er á Íslandi. Ég hef hins vegar búið svo lengi erlendis að ég held að það yrði erfitt fyrir mig að vera bara á Íslandi en mér líður frábærlega vel hérna. Það er margt sem tengir mig við Akureyri og ég fer yfirleitt norður í Íslandsferðum.“

Horft til 2024

Fyrstu þrjú stórmót landsliða eftir að Alfreð tók við voru HM í Egyptalandi í janúar 2021, Ólympíuleikarnir í fyrra og EM í janúar á þessu ári þegar Þýskaland lék í Slóvakíu. Mikil skakkaföll urðu hjá Þjóðverjum.

„Þetta hefur verið öðruvísi en maður bjóst við. Fyrsta stóra mótið hjá mér með liðið var HM í Egyptalandi í janúar 2021. Eftir að heimsfaraldurinn skall á breyttist leikmannahópurinn fyrir HM og vináttuleikir duttu upp fyrir. Byrjunin í starfinu var því óvenjuleg,“ segir Alfreð og nú blasir við honum að setja saman nýtt lið og sú uppbygging er hafin.

„Nokkrir af eldri leikmönnunum gefa ekki lengur kost á sér í landsliðið þótt þeir séu ekki mjög gamlir. Til dæmis leikmenn sem ég þjálfaði áður hjá Kiel. Á síðasta ári tók ég mjög marga unga stráka inn í hópinn með það að markmiði að vera kominn með lið sem getur verið sæmilega samhæft árið 2024. Að þessir leikmenn verði þá komnir með grunn og einhverja reynslu. Við erum í rauninni með mjög ungt lið eins og er. Þýska deildin er svo krefjandi að erfitt getur verið að fá menn til að halda áfram með landsliðinu eftir þrítugt sem er súrt því þá eru menn að komast á þann aldur þar sem þeir eru bestir í íþróttinni.“

Geta ekki farið í frí eins og aðrir

Þetta hljómar eins og pirrandi staða fyrir landsliðsþjálfara Þýskalands. Keppnistímabilið í efstu deild í heimalandinu er svo langt og strembið að menn veigra sér við því að bæta landsliðsverkefnum við.

„Já þetta er það og leikmenn einbeita sér meira að sínum félagsliðum. Ég var sjálfur þjálfari í deildinni í tuttugu og tvö ár og ég skil leikmennina á vissan hátt. Leikirnir eru margir og deildakeppnin er svo löng. Víða lýkur fyrri hluta deildakeppna um miðjan desember og landsliðin fá ágætan tíma saman fyrir stórmót í janúar. Í þýsku deildinni er jafnvel spilað á milli jóla og nýárs og ég fæ liðið ekki í hendurnar fyrr en 2. janúar. Seinni hluti deildakeppna fer í gang í byrjun febrúar og lýkur víða um 15. maí til 20. maí. Þýsku deildinni lauk núna um miðjan júní en í fyrra lauk henni ekki fyrr en 28. júní. Þegar leikmenn hafa verið tíu til tólf ár í deildinni þá getur komið að þeim tímapunkti að erfitt sé að sinna öllu út af fjölskylduástæðum. Menn geta aldrei farið í frí eins og annað fólk eða gert eitthvað með fjölskyldunni. Það gefst varla tími til að endurnýja kraftana fyrir næsta keppnistímabil.

Ég tók eftir því á EM í janúar að þau landslið sem voru með flesta leikmenn úr þýsku bundesligunni voru lengi að ná takti og voru tiltölulega þreytt. Þetta fyrirkomulag að hafa lokakeppnir HM og EM annað hvert ár er langerfiðast fyrir leikmenn úr þýsku deildinni. Í fótboltanum var umræða um að taka upp svipað fyrirkomulag en menn töldu að ekki væri hægt að gera leikmönnum það.“

Þýska deildin er mjög sterk eins og handknattleiksunnendur vita og hún er býsna jöfn. Hins vegar leika margir heimsklassa leikmenn einnig með stórliðum í öðrum löndum. Í stærstu liðunum í Frakklandi, á Spáni, Ungverjalandi, Póllandi og Norður-Makedóníu. Síðustu misserin hafa svo danska liðið Álaborg og norska liðið Kolstad blandað sér í slaginn um sterka leikmenn sem eru á lausu. Kemur ekki til greina í huga þýskra landsliðsmanna að spila með félagsliðum utan heimalandsins?

„Nei, þeir eru mjög lítið fyrir það. Þeir vilja frekar vera heima og þar fá bestu þýsku leikmennirnir ágæta samninga hjá bestu þýsku liðunum. Undir lok leikmannaferilsins eru menn farnir að byggja upp framtíðarhorfur heima fyrir og því hefur verið mjög sjaldgæft að þýskir leikmenn fari úr landi.“

Ungir menn fá tækifæri

Árið 2024 gæti orðið stórt ár hjá þýska landsliðinu takist Alfreð að búa til nýtt lið hratt og vel. Þjóðverjar verða á heimavelli á EM í janúar 2024 og um sumarið eru Ólympíuleikarnir í París en reyndar er ekki sjálfgefið fyrir Evrópuþjóðir að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikum eins og við Íslendingar þekkjum. Er efniviðurinn góður sem Alfreð er með í höndunum?

„Hann er það náttúrlega en liðið er lítt reynt eins og staðan er núna. Fyrirliðinn er 24 ára sem dæmi [Johannes Golla hjá Flensburg]. Ég gaf mönnum tækifæri sem hafa verið í 21 árs landsliðinu síðustu árin. Þeir standa sig bara vel en meðallandsleikjafjöldinn er í kringum 15 leikir sem er mjög lítið í samanburði við Frakkana eða Spánverjana. Liðið er efnilegt og í Þýskalandi eru margir efnilegir handboltamenn. Yngri landsliðin spila nánast alltaf um verðlaun en vandamálið er að leikmenn úr þessum sterku yngri landsliðum sitja svo meira eða minna á bekknum næstu árin hjá sínum félagsliðum í 1. eða 2. deild. Breiddin er mikil hjá liðum í bundesligunni. Jafnaldrar þeirra hjá öðrum þjóðum, sem voru frekar á eftir þýsku leikmönnunum, spila á fullu hjá sínum félagsliðum og fara fram úr þeim því þeir öðlast leikreynslu. Ég veit um þýskan línumann sem var í úrvalsliði EM með 21 árs landsliðinu fyrir tveimur og hálfu ári en er þriðji línumaður hjá þýsku félagsliði í dag.

Svona lagað er áhyggjuefni og ég hef reynt að höfða til þýsku félaganna að gefa yngri leikmönnum aðeins fleiri tækifæri heldur en að vera með miðlungsútlendinga sem varamenn. Sérstaklega fannst mér sláandi í vetur þegar ég var að skoða hvaða þýsku leikmenn koma til greina til að spila í miðri vörninni í landsliðinu. Það eru bara einhverjir sex þýskir menn sem spila þessar stöður í allri deildinni. Allir hinir eru útlendingar. Þessu er dálítið erfitt að kyngja. Ég skil svo sem að félögin eru að berjast fyrir árangri, og reyna að gera sem mest úr þeim fjármunum sem þau hafa, en ég tel samt að þau geti gert þetta aðeins öðruvísi.“

Sjálfur hefur Alfreð verið hinum megin við borðið en hann þjálfaði Hameln, Magdeburg, Gummersbach og Kiel á árunum 1997 til 2019. Hvernig hefur því verið tekið þegar hann hefur farið út í þessa sálma sem landsliðsþjálfari?

„Ágætlega. Það skilja þetta allir. Ég hef einnig talað um að gáfulegra gæti verið að minnka deildina og fækka um tvö lið. Menn skilja einnig þau sjónarmið en þá benda félögin á með réttu að þau missa tekjur þegar heimaleikjum fækkar um tvo. Leikmenn eru ekki tilbúnir að taka slíka tekjurýrnun á sig. Það er eiginlega ekki hægt að hreyfa við þessu.“

Sá eini sem fékk ekki veiruna

Er þolinmæði til staðar í baklandi þýska landsliðsins þegar kynslóðaskipti eru í gangi? Eða hjá fjölmiðlum og stuðningsmönnum?

„Já já, alla vega á yfirborðinu. Menn eru auðvitað ekki sáttir við að vera í sjöunda til tíunda sæti á stórmótunum. Það er ekki viðmiðið sem við viljum hafa. Við erum að reyna að vinna í því hvernig við getum náð lengra. Á EM í janúar þá spiluðum við bara mjög vel og byrjuðum vel í keppninni. Við lentum í sjöunda sæti, einu sæti á eftir Íslandi. Við vorum það lið sem lenti langverst í kórónuveirunni. Væntanlega hefur það verið vegna þess að það hafði verið passað svo svakalega upp á allt í aðdragandanum. Rússarnir og Hvít-Rússarnir voru allir búnir að fá veiruna tvisvar eða þrisvar en Þjóðverjarnir voru búnir að passa upp á allt í eitt ár. Liðið hjá mér gersamlega hrundi og við notuðum tuttugu og átta leikmenn,“ segir Alfreð og brosir að tilhugsuninni. Kórónuveirunni skæðu hefur þó ekki tekist að læsa klónum í Alfreð sjálfan.

„Ef við tökum alla sem komu að þýska landsliðshópnum, leikmenn, þjálfara og starfsfólk þá er ég sá eini sem hefur ekki smitast af veirunni. Án gríns. Ég lét rannsaka um daginn hvort ég hefði fengið þetta án þess að taka eftir því. Læknirinn tók blóðprufur og tékkaði á þessu. Hann sagði að ég væri með svo hátt hlutfall af mótefnum að ég gæti ekki fengið þetta. En hvort ég hafi fengið þetta áður, eða tekið svona vel við bóluefnunum, sagðist hann ekki geta sagt til um. Ég veit alla vega ekki til þess að hafa fengið kórónuveiruna en á EM var ég í langmestum samskiptum við leikmenn. Ég var alltaf að ræða við leikmenn undir fjögur augu eins og gengur.“

Er mikið á ferðinni

Alfreð hefur lengi búið um 30 kílómetra fyrir austan Magdeburg þótt hann hafi vitaskuld dvalið mikið í Kiel þegar hann þjálfaði þar. Hvar kemur þýska landsliðið saman þegar landsliðsverkefni standa fyrir dyrum?

„Það er ákveðið með tiltölulega löngum fyrirvara. Síðustu tvö árin höfum við verið mikið í Düsseldorf en næst verðum við nálægt Hannover. Fyrir EM vorum við í Grosswallstadt nærri Frankfurt. Við erum í rauninni ekki með fastan stað,“ útskýrir Alfreð en skrifstofur þýska handknattleikssambandsins eru í Dortmund. Þangað þarf hann ekki oft að fara.

„Ég er mikið á ferðinni til að skoða leikmenn og sjá leiki. Ég sé leiki hjá unglingalandsliðunum og síðasta vetur tók ég til dæmis þátt í því þegar verið var að skoða leikmenn sem fæddir eru 2006 og 2007. Þá var reynt að forgangsraða og finna út hvaða leikmönnum eigi að fylgjast með. Í sumar mun ég kíkja á 19 ára landsliðið sem mun spila í Svartfjallalandi. Ég hef hins vegar minnkað það aðeins að keyra um allt Þýskaland til að sjá deildaleiki. Ég get horft á leiki í sjónvarpinu og get alveg náð í þessa leiki daginn eftir og horft á þá aftur. Ef ég vil skoða leikmenn sem eru áhugaverðir fyrir mig, þá hleð ég leikjunum niður og klippi þá til eins og ég gerði þegar ég var í félagsliðaþjálfun.“

Tekur tíma að ná samhæfingu

Stundum er sagt að landsliðsþjálfarastarf í boltagreinum sé tarnavinna. Liðin koma ekki mjög oft saman yfir árið en vinnuálagið er mikið meðan á því stendur. Á þetta við rök að styðjast?

„Það má alveg segja það. Viðbrigðin eru svakalega mikil ef maður hefur vanist því að þjálfa félagslið. Þá er maður alltaf með liðið en sem landsliðsþjálfari er maður sjaldan með liðið. Það tekur lengri tíma að setja menn inn í hlutina hjá landsliði. Ég get tekið sem dæmi að margir skildu ekki alveg valið hjá mér fyrir leikinn gegn Færeyjum á dögunum í umspili fyrir HM. Mánuði áður hafði landsliðið fengið viku saman og við spiluðum tvo vináttuleiki við Ungverja. Þá valdi ég sama leikmannahóp til að mæta Færeyjum vegna þess að fyrir leikinn gegn Færeyjum fékk ég bara þrjár æfingar. Það tekur tíma að þróa leikaðferðir bæði í vörn og sókn. Fyrir vikið er erfitt að vera með nýja menn í hverri lotu sem þurfa að læra frá grunni.

Hugmyndin er að setja saman leikmannahóp sem getur í stórum dráttum verið mikið saman. Þeir leikmenn verða þá orðnir samhæfðir árið 2024 en auðvitað vonast maður einnig eftir því að við getum náð árangri á HM 2023. Við vitum hins vegar að við verðum ekki á meðal sigurstranglegustu liðanna á HM 2023. Ég myndi segja að í uppbyggingu liðs séum við svona þremur árum á eftir Íslandi. Þeir eru búnir að vera lengur saman og eru komnir með mjög skemmtilega breidd. Við viljum auðvitað komast á Ólympíuleikana árið 2024. Ef við náum því þá skoðum við bara hvernig landið liggur þegar þar að kemur.“

Var með tilboð frá Rússum

Alfreð er annar Íslendingurinn sem stýrir þýska landsliðinu í handknattleik. Dagur Sigurðsson gerði það 2014-2017 og undir hans stjórn urðu Þjóðverjar Evrópumeistarar 2016 og fengu bronsverðlaun á Ólympíuleikunum sama ár. Klóra Þjóðverjar sér ekki í höfðinu yfir því að tveir landsliðsþjálfarar Þýskalands hafi komið frá smáríkinu Íslandi?

„Íslendingar hafa auðvitað náð mjög góðum árangri í þýsku deildinni. Á hverjum tíma skoða Þjóðverjarnir hvaða þjálfurum þeir treysta best fyrir landsliðsþjálfarastarfinu. Ég var tuttugu og átta ár í deildinni, fyrst sem leikmaður og síðar þjálfari. Ég þekki þetta því betur en flestir Þjóðverjarnir. Það kom mér reyndar mjög á óvart í vetur þegar mér var bent á að ég væri langleikjahæsti þjálfarinn í þýsku 1. deildinni frá upphafi. Ég hafði aldrei velt þessu fyrir mér en þetta hvarflaði heldur ekki að mér. Ég hélt að einhverjir af þessum gömlu þjálfurum ættu miklu fleiri leiki og ég var steinhissa á þessu,“ segir Alfreð og það er þá kannski vísbending um að tíminn hafi liðið hratt þegar hann þjálfaði þýsk félagslið.

„Já alveg ótrúlega en þetta eru vissulega tuttugu og tvö ár sem þjálfari í deildinni.“

Alfreð var með áhugavert tilboð frá rússneska handknattleikssambandinu snemma árs 2020 þegar Þjóðverjarnir skárust í leikinn á síðustu stundu.

„Ég hafði fengið fyrirspurnir lengi þegar ég samdi við Þjóðverjana. Ég var eiginlega búinn að ganga frá samningi við Rússa. Ég var búinn að sjá fyrir mér langtímaplan fyrir rússneska handboltasambandið. Eftir EM árið 2020 fór ég til Moskvu og var nánast búinn að semja við þá en sagði forseta rússneska sambandsins að ég hefði lofað konunni minni því að skrifa ekki undir neitt. Ég myndi fara heim og taka ákvörðun í samráði við hana.

Þegar ég lenti í Berlín var hringt í mig frá þýska sambandinu. Það var á mánudegi og ég tjáði þeim að ég ætti að gefa Rússunum endanlegt svar á hádegi á þriðjudegi. Um kvöldið voru Þjóðverjarnir mættir til mín. Það var auðvitað mun betra mál fyrir okkur að vera bara í Þýskalandi. Eins og staðan er í heiminum í dag er ég auðvitað mjög ánægður með hvernig þetta fór. Um leið hef ég mikla samúð með rússneskum handboltamönnum og fólki í handboltahreyfingunni í Rússlandi en þar á ég marga vini.“

Gísli og Ómar þýskir meistarar

Eins og íslenskir íþróttaáhugamenn vita var Alfreð Gíslason atvinnumaður bæði í Þýskalandi og á Spáni á níunda áratugnum. Lengi vel var Alfreð með á bak við eyrað að starfa aftur á Spáni og þá sem þjálfari. Ekkert hefur enn orðið úr því jafnvel þótt stórlið Barcelona hafi sýnt honum mikinn áhuga snemma á þessari öld.

„Þegar ég ákvað að gera upp þetta hús mitt í smáþorpi austur af Magdeburg þá gerði ég það vegna þess að ég myndi einhvern tíma fara sem þjálfari niður til Spánar. Ég var þá þjálfari hjá Magdeburg. Þessi staðsetning er klukkutíma frá flugvellinum í Berlín, klukkutíma frá í Leipzig og einum og hálfum frá Hannover. Ég hugsaði með mér að ég gæti einnig búið þarna þegar ég færi til Spánar.

Á þessum tíma hafði Barcelona oft samband við mig með það í huga að ég yrði eftirmaður Valero Rivera. Ég hafði þá náð í nokkra unga leikmenn til Magdeburgar og fannst ekki viðeigandi að hoppa í burtu sjálfur. Einhvern veginn hélt ég lengi vel að ég færi að lokum sem þjálfari til Spánar.“

Magdeburg varð fyrr í sumar þýskur meistari í handknattleik með íslensku landsliðsmennina Gísla Þorgeir Kristjánsson og Ómar Inga Magnússon innanborðs. Liðið hafði síðast orðið meistari árið 2001 og þá stýrði Alfreð liðinu og Ólafur Stefánsson lék með því. Eru okkar menn, Gísli og Ómar, ekki í miklum metum í Magdeburg?

„Mjög. Báðir hafa verið í mjög stórum hlutverkum. Gísli fékk smám saman stærra hlutverk og Ómar hefur spilað stórkostlega. Ómar hefur varla tekið ranga ákvörðun í sókninni allt tímabilið, sem er lygilegt, og spilar auk þess einnig í vörninni. Gísli hefur verið rosalega vaxandi og er orðinn fyrsti miðjumaður liðsins þótt hann sé í samkeppni við Marko Bezjak [frá Slóveníu] og Christian O'Sullivan [frá Noregi]. Ég sá marga leiki í Magdeburg og er enn í miklu sambandi við félagið sem og THW Kiel. Ég samgleðst félaginu og allri borginni að ná þessu og næsta vetur verður mjög spennandi að sjá Magdeburg í Meistaradeildinni. Í Magdeburg er mikil hefð fyrir handboltanum og frábær stemning.“

Heimilið vaktað

Alfreð nýtur virðingar í handboltaheiminum, ekki síst í Þýskalandi. Árangurinn talar sínu máli. Of langt mál væri að telja upp afrekaskrána en hann hefur gert tvö lið að Evrópumeisturum og þýskum meisturum, Magdeburg og Kiel. Árið 2012 fór Kiel í gegnum þýsku deildina með fullt hús stiga en slíkt hafði aldrei gerst í efstu deild í boltagreinum í Þýskalandi. Flestir Íslendingar voru því furðu lostnir þegar fréttir bárust af því í mars í fyrra að Alfreð hefði fengið hótunarbréf þar sem þjóðerni landsliðsþjálfarans virtist skipta sendandann máli.

„Það er óneitanlega sérstakt að fá bréf um það að einhver ætli að kveikja í húsinu þínu ef þú segir ekki af þér. Ég er ekki áberandi á samfélagsmiðlum á heildina litið og er til dæmis ekki á Facebook. En ég er með samning við íþróttavörufyrirtæki og er þess vegna á Instagram. Þar fæ ég gjarnan skilaboð sem eru ekki skemmtileg ef við töpum leik en mér er svo sem slétt sama um það. Þegar konunni og fjölskyldunni er hótað þá er það hins vegar allt annað mál. Því miður er þetta bara svona í dag. Ég hef verið nánast í þrjátíu ár í Þýskalandi og spilaði einnig á Spáni um tíma og hef aldrei lent í neinum vandamálum vegna þess að ég sé útlendingur.

Þetta var rannsakað en lögreglan fann ekkert út úr þessu. Þó kom í ljós að nokkrir leikmenn hjá Kiel fengu hótunarbréf frá þessum sama einstaklingi. Það var ekki alveg á sama tíma, og í aðeins öðru samhengi, en menn voru vissir um að sendandinn væri sá sami. Mér fannst bara allt í lagi að segja frá þessu á Instagram en það kom mér á óvart hversu mikil viðbrögð urðu við því. Ég fékk stuðning alls staðar að og málið fór víða. Það kom mér á óvart. Það er einnig sérstök staða að vera í þegar lögreglan vaktar svæðið þar sem maður býr. Einnig voru ýmsir aðrir aðilar að bjóðast til þess að vakta svæðið fyrir mig. Það var svolítið skrautlegt. Mótorhjólasamtök buðust til að vera með tvo menn á lóðinni alla daga.“