Skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt á Íslandi

Skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í vöxt á Íslandi á undanförnum árum. Haldlagning fíkniefna að andvirði 1,7 milljarða króna að götuvirði, í upphafi þessa mánaðar, ber því vitni. Hald var lagt á fíkniefnin eftir viðamikla rannsókn tveggja mála. Önnur rannsóknin stóð yfir í nokkra mánuði, hin frá sumrinu 2020, þegar upplýsingar bárust frá Europol um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi.

Fjallað var um fíkniefnamarkaðinn hér á landi í sunnudagsblaði Morgunblaðsins fyrir viku. Þar sátu fyrir svörum Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, og Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og doktor í félags- og afbrotafræði. Bæði sögðu að óraunhæft væri að útrýma fíkniefnum á Íslandi. Þess í stað ætti að leggja áherslu á að takmarka skaðann af þeim eins og mögulegt væri.

Margrét lítur svo á að umræðan um fíkniefni hér á landi mætti vera þroskaðri. Hún segir gagnslaust að tala um stríð gegn fíkniefnum. Hún telur á hinn bóginn umræðuna um afglæpavæðingu neysluskammta gagnlega, því hún snúist um að koma til móts við hóp sem lifi í heimi ofbeldis og eymdar.

„Í þeim heimi er mikið um afbrot af öðru tagi og úr þeim viljum við draga. Við megum samt ekki láta eins og eina lausnin sé að lögleiða fíkniefni. Fíkniefni eru auðvitað ekki hættulaus, þau geta verið mjög skaðleg. Það á ekki síst við um andlega heilsu en fólk sem er veikt fyrir leitar gjarnan í neyslu,“ segir Margrét í greininni.

Það er mikið til í þessum orðum. Áhrif fíkniefna á andlega heilsu eru ótvíræð. Sérstök ástæða er til að hafa varann á gagnvart marijúana. Margir hafa tilhneigingu til að gera lítið úr hættunni af neyslu marijúana og segja það skaðlausara en áfengi. Málið er alls ekki svo einfalt og eru geðræn áhrif þess sérstakt áhyggjuefni.

Umræðan um lögleiðingu fíkniefna hefur verið á ákveðnum villigötum hér á landi.

Fyrir það fyrsta er ekki lögð áhersla á að elta uppi fíkniefnaneytendur vegna neysluskammta hér á landi, þvert á móti. Það er líka nær að líta á þá sem eru dýpst sokknir í fen fíknarinnar sem sjúklinga en afbrotamenn.

Lögregla hefur hins vegar bent á að með því að lögleiða neysluskammta hér á landi gæti orðið til skálkaskjól fyrir fíkniefnasala, sem myndu einfaldlega gæta sín á því að vera aldrei með meira á sér en leyfilegt er. Því yrði erfiðara en áður að sporna við sölu og dreifingu fíkniefna.

Það þarf því að fara mjög varlega í þessum efnum. Gæta þarf að því að búa ekki til nýtt vandamál með lögleiðingu á ástandi, sem nú þegar er reyndin.

Lögreglan kvartaði undan takmörkuðum heimildum til gæsluvarðhalds þegar greint var frá haldlagningu fíkniefnanna í byrjun mánaðar. Tímaramminn, 12 vikur, væri mun þrengri en gerðist í kringum okkur. Þetta þarf að skoða. Gera þarf lögreglu kleift að rannsaka mál og uppræta eiturlyfjahringa án þess að hætta sé á að rannsókn spillist vegna þess að leysa þarf höfuðpaura úr gæsluvarðhaldi.

Oft er litið til Hollands sem fyrirmyndar um lögleiðingu fíkniefna. Í Hollandi hafa hins vegar eiturlyfjahringar hreiðrað um sig. Ástandið þar er að verða eins og víða í Rómönsku Ameríku, þar sem eiturlyfjabarónar halda heilu samfélögunum í greipum ógnar. Blaðamenn í Hollandi eru hættir að skrifa fréttir um fíkniefnaheiminn undir nafni af ótta um öryggi sitt. Þeir þora ekki lengur að birta skúbb um undirheimana, heldur greina aðeins frá því, sem kemur frá lögreglu. Ekki er langt síðan blaðamaður, sem hafði verið aðgangsharður í fréttaflutningi af fíkniefnamálum, var myrtur á götu úti í Hollandi.

Hér á landi er ekki óttast að þessir heimar skarist þannig að venjulegum borgurum stafi hætta af skipulagðri glæpastarfsemi, en ofbeldi er til staðar í fíkniefnaheiminum og það getur hæglega breiðst út.

Forvarnir og aðstoð við fíkla eru lykilatriði í að stemma stigu við fíkniefnum. Ein leiðin til að koma höggi á fíkniefnaheiminn er að draga úr eftirspurninni.