Frjálsar Hlauparinn öflugi Baldvin Þór Magnússon kemur á Meistaramótið annað árið í röð og keppir sem fyrr fyrir Akureyrarfélagið UFA.
Frjálsar Hlauparinn öflugi Baldvin Þór Magnússon kemur á Meistaramótið annað árið í röð og keppir sem fyrr fyrir Akureyrarfélagið UFA. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Flest besta frjálsíþróttafólk landsins verður með á Meistaramóti Íslands í Kaplakrika í dag og á morgun.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Flest besta frjálsíþróttafólk landsins verður með á Meistaramóti Íslands í Kaplakrika í dag og á morgun.

Meðal keppenda verða millivegalengdahlaupararnir öflugu Hlynur Andrésson og Baldvin Þór Magnússon sem hafa sett hvert Íslandsmetið á fætur öðru síðustu árin og oft tekið metin hvor af öðrum. Þeir eru báðir búsettir erlendis, Hlynur á Ítalíu og Baldvin í Bandaríkjunum þar sem hann hefur gert það gott á háskólamótum undanfarin ár. Þá komst Baldvin í úrslitahlaupið í 3.000 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu innanhúss í vetur.

Baldvin og Hlynur mætast þó ekki því Baldvin keppir í 1.500 m hlaupi og Hlynur í 5.000 m hlaupi.

Kastararnir öflugu Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Hilmar Örn Jónsson í sleggjukastinu, Guðni Valur Guðnason í kringlukastinu, Erna Sóley Gunnarsdóttir í kúluvarpinu og Dagbjartur Daði Jónsson í spjótkastinu verða öll með í Kaplakrika og ekki þyrfti að koma á óvart þó einhver þeirra myndu slá Íslandsmet á mótinu.

Tiana Ósk Whitworth og Kolbeinn Höður Gunnarsson verða að vanda áberandi í spretthlaupunum. Ekki verður þó einvígi milli Tiönu og Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur að þessu sinni því Guðbjörg missir af mótinu vegna meiðsla. Hástökkvarinn ungi Kristján Viggó Sigfinnsson og hlauparinn Aníta Hinriksdóttir mæta líka til leiks.