Ásvaldur Magnússon fæddist 8. júlí 1954 að Ökrum í Reykjadal. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Tröð, Önundarfirði þann 14. júní 2022.

Ásvaldur var sonur hjónanna Ástu Ásvaldsdóttur, f. 12.10. 1930 á Breiðumýri S-Þing, d. 29.10. 2016, og Magnúsar K. Guðmundssonar, f. 24.10. 1924 í Hjarðardal í Önf., d. 29.7. 2006. Þau voru bændur í Tröð.

Systkini Ásvaldar eru: Sigríður Magnúsdóttir, f. 1955, Guðmundur Helgi Magnússon, f. 1958, Sólveig Bessa Magnúsdóttir, f. 1962, og Guðný Hildur Magnúsdóttir, f. 1969.

Ásvaldur kvæntist Helgu Dóru Kristjánsdóttur frá Brekku á Ingjaldssandi 2.7. 1983. Foreldrar hennar voru Kristján Guðmundsson, f. 1918, d. 1988, og Árilia Jóhannesdóttir, f. 1923, d. 2014.

Börn þeirra eru 1) Ásta Ásvaldsdóttir, f. 1985. 2) Kristján Óskar Ásvaldsson, f. 1986, giftur Hólmfríði Bóasdóttur. Þeirra börn eru Helga Dóra, Auður og Bóas Ásvaldur. 3) Eyvindur Atli Ásvaldsson, f. 1990, giftur Sæbjörgu Freyju Gísladóttur. Þeirra börn eru Ívar Hrafn Ágústsson, Andri Pétur Zakarías Ágústsson, Sólveig Erla Eyvindardóttir og Sæmundur Búi Eyvindarson.

Ásvaldur bjó í foreldrahúsum á Flateyri en þegar hann var á fjórða ári, flutti fjölskyldan að Tröð og átti hann þar heimili síðan. Hann stundaði sjómennsku í 7 ár en vann á sumrum við bústörfin. Hann lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri og að því loknu hóf hann búskap með kindur og kýr ásamt foreldrum sínum í Tröð og 1983 kom Helga Dóra inn í búskapinn. Þau keyptu síðar jörðina og tóku alfarið við rekstri hennar.

Ásvaldur tók virkan þátt í ýmsum félagsmálum. Fyrst sem félagi og stjórnarmaður í Ungmennafélaginu Önundi og hann var í stjórn Héraðssambands V-Ís. Hann var frumkvöðull og leiðtogi í félagsmálum bænda. Var stofnandi og formaður Loðdýraræktunarfélags á svæðinu á meðan það starfaði og í stjórn Landssambands loðdýraeigenda. Hann var stofnandi og formaður Félags skógareigenda á Vestfjörðum í 12 ár og sat þann tíma í Landssambandi skógareigenda og eins í stjórn Skjólskóga á Vestfjörðum. Gegndi hann ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir bændur, búnaðarfélög og Búnaðarsamband á svæðinu. Ásvaldur var virkur í pólitísku starfi, átti sæti í stjórnum og nefndum á vegum Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar. Hann sat í stjórn Ingastofu og var meðhjálpari í Holtskirkju. Þá var hann fjallskila- og réttarstjóri til margra ára í Önundarfirði

Ásvaldur tók að sér húsvörslu og rekstur Holts - Friðarseturs 2003 í gamla Holtsskóla og rak þar gistiheimili og félagsmiðstöð sveitarinnar. Frá 2018 stofnaði hann og rak Holt Inn sveitahótel ásamt konu sinni, Kristjáni syni sínum og Hólmfríði, tengdadóttur. Útförin fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 25. júní 2022, kl. 14.

Ég átti besta tengdapabbann.

Hann var eins og þéttvaxinn skógur. Hvert og eitt tré var hugmynd og hver og ein grein nánari útfærsla hennar. Því Ási var alltaf búinn að pæla í hlutunum alveg frá rótum og út í hæsta laufblað. Sumar hugmyndirnar misgáfulegar og sumar misskemmtilegar en allar áhugaverðar. Ég held hann hafi verið með nýja hugmynd í hvert skipti sem ég hitti hann. Sem var nokkuð oft. Ég er svo heppin að hafa fengið að vera hluti af allavega einni af þessum mögnuðu hugmyndum og það verkefni varð heldur betur að veruleika. Það gaf okkur ótal margar stundir og minningar saman sem ég er ævinlega þakklát fyrir. Þetta verkefni minnir okkur á þennan duglega, þrjóska og góða mann á hverjum degi og mun gera um ókomna tíð. Hann bjó einnig yfir ótrúlegri þrautseigju sem ég dáist alltaf að og ég mun eftir bestu getu kenna börnunum mínum þrautseigju afa þeirra.

Hann kom mér alltaf á óvart með ótal fjölbreytilegra hugmynda. Að þessum bónda og bóndasyni úr Önundarfirði gæti dottið þetta í hug. En svona var Ási. Framsýnn, frumkvöðull, hörkuduglegur, ákveðinn, sanngjarn, stríðinn og skemmtilegur. Mikill jafnréttissinni og hvatti kvenpeninginn í fjölskyldunni óspart áfram að fara óvenjulegar og/eða óhefðbundnar leiðir.

Ég fékk að eiga hann að í tæp 15 ár, rákum fyrirtæki saman, bjó hjá honum og Helgu í samtals fjögur ár ásamt óteljandi helgum sem við fjölskyldan eyddum saman með þeim í sveitinni. Við erum þakklát fyrir þessar samverustundir.

Á þessum 15 árum voru aldrei árekstrar eða ósætti. Við vorum oft ósammála, en aldrei ósátt. Við vorum góðir vinir og náðum vel saman. Það var alltaf gott að vera í kringum Ása og vinna með honum og tala við hann. Því alltaf var hægt að tala við hann og spjalla um hvað sem er. Maður var aldrei að trufla hann. Hann átti alltaf tíma. Hann kenndi manni svo margt og gaf svo mikið af sér.

Ási gat allt. Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir við að fá múrara til að hjálpa mér við tvær tröppur heima þá var Ási mættur daginn eftir og græjaði þetta. Svona var hann. Ekkert að mikla hlutina of mikið fyrir sér. Bara byrja á þessu. Enda komst hann yfir alveg ótrúlega mikið af verkefnum. Skaut svo stundum á mig þegar hann var að klára eitthvað: „Jæja Hófí, ertu búin að lesa leiðbeiningarnar?“ og glotti svo stríðnislega.

Þegar Kristján var öll kvöld að vinna í húsinu okkar þá var Ási með mér öll kvöld að ganga um gólf með nafna sinn og prófa nýjar aðferðir til að róa hann. Ási vildi finna lausn á öllu og laga. Þannig var hann. Svo lausnamiðaður og bjó yfir svo miklu þolgæði og þrautseigju að ég hef sjaldan kynnst öðru eins.

Þegar Ási fór af stað út í fjárhús að vinna þá lét hann aldrei vita. Maður heyrði bara hurðina lokast og þá vissi maður að hann væri farinn út eitthvað að brasa. Þú lést okkur heldur ekki vita í þetta skipti að þú ætlaðir að fara en ég er viss um að þú ert að brasa eitthvað með eina af hugmyndum þínum.

Elsku Ási, þú varst mér svo góður. Þú varst eins og pabbi númer tvö. Við munum hugsa vel um skóginn þinn.

Hólmfríður Bóasdóttir.

Líkt og þegar þú leist dagsins ljós í fyrsta sinn kveður þú þessa jarðvist á björtum sumardegi. Sumarbarnið, náttúrubarnið, við erum svolítið þannig Traðarsystkinin. Og nú er stórt skarð komið í okkar hóp sem við vitum ekki alveg hvernig við fyllum, við erum þó nú þegar farin að svara fyrir þig, leggja þér orð í munn og þannig muntu lifa með okkur.

Takk, kæri bróðir, fyrir samferðina, það er svo ótal margs að minnast og þakka.

Veit það eru aðrir sem munu tíunda ævistarf þitt og mannkosti en ég læt hér fylgja eitt af fallegum náttúruljóðum Guðmundar Inga.

Vorblærinn hlýr þegar vaknar af dvala

veturinn þokar sér fjær.

Fæðist þá lífið til fjalla og dala,

faðmar og brosir og grær.

Lífið á allt, – það á bununa bláa,

brekku með nýgræðingslit,

sjálfala búfé og söngfugla smáa,

sólskin og vorgoluþyt.

Jafn fyrir öllum er vorlífsins vegur,

vöxtur og gróður og ást.

Allt sem að heiman oss endranær dregur

eyðist og fær ekki að sjást.

Engjarnar, túnin og hagarnir heima

heilla með ilmandi þrá.

Hrífandi fjarlægð er geðþekkt að gleyma

gróðursins blómfaðmi hjá.

Guð geymi þig, elsku Ási minn, þar til við finnumst síðar, megi allar góðar vættir styrkja og styðja fallegu fjölskylduna þína til að halda áfram án þín.

Þín systir,

Bessa.

Elsku hjartans Ási stóri bróðir minn er farinn, alltof, alltof snemma. Hann hafði svo margt að lifa fyrir og við svo mörg sem elskuðum hann.

Ási var meistari í því sem kallað er góðlátleg stríðni. Með sinni góðlátlegu stríðni sýndi hann fólki ást, umhyggju og áhuga og skapaði andrúmsloft léttleika og hlýju. Í návist Ása leið öllum vel.

Ási hafði alltaf mörg járn í eldinum. Á fyrri hluta ævinnar var hann sjómaður, loðdýrabóndi og kúabóndi. Síðustu áratugina var hann fjárbóndi, skógarbóndi og hótelstjóri. En stærsta hlutverk hans var að sinna fjölskyldunni. Og fjölskyldan hans var risastór. Helga hans, börnin, tengdadæturnar og barnabarnahópurinn, sem stækkaði með hverju árinu. Við systkinin og fjölskyldur. Tengdafjölskyldan. Og allt frændfólk og vinir. Við vorum öll alltaf velkomin í Tröð og nutum gestrisni hans og nærveru. Ási var fjölskyldumaður í bestu merkingu þess orðs, traustur, hlýr og umhyggjusamur. Og skemmtilegur, alltaf skemmtilegur.

Ási var mikill sögumaður, hafði ótrúlegt minni, var vel lesinn og fjölfróður. Hann hafði gaman af því að ögra viðteknum skoðunum, oft með kímnina í augunum og hann var þrjóskur, sem er fjölskyldueinkenni. Ási var alltaf að fá hugmyndir, gera áætlanir, hanna og framkvæma. Hann var skorpumaður, réðst oft í stórar framkvæmdir og kom mörgu í verk. En hann kunni líka að hvíla sig og leggjast í híði þegar hann þurfti þess. Ási var í essinu sínu í góðum félagsskap. Eldhúsið, bæði í Tröð og í Holti, var hans ríki, hann var frábær kokkur og naut þess að gefa fólki gott að borða.

Ási var elstur af okkur fimm systkinum. Við vorum náin og urðum eiginlega enn nánari með aldrinum. Við vorum öll stjórnsöm og athafnamikill, þó bræðurnir tveir vildu meina að það væru bara við systurnar sem værum stjórnsamar. Við höfum ráðist í svo margt saman, skrifað ættarbók saman og skipulagt óteljandi veislur, viðburði og ferðir. Við vorum mjög leikin í því sem við kölluðum að rökræða, en fyrir utanaðkomandi gat litið út fyrir að við værum að rífast. En við nutum þess að rökræða og stjórnast hvert í öðru og það var alltaf í góðu. Traustið og kærleikurinn var kjarninn sem við þurftum aldrei að efast um.

Ási var gæfumaður. Hann kynnist ástinni sinni þegar hann hitti Helgu og átti með henni sterkt og fallegt hjónaband í fjóra áratugi. Hann eignaðist börnin sín þrjú sem hann var svo stoltur af og svo blómstraði hann í afahlutverkinu þegar að því kom. Hann naut sterkra og góðra tengsla við stórfjölskyldu og vini. Ási fékk líka að starfa sjálfstætt og koma í framkvæmd hugðarefnum sínum og hugmyndum og hafa áhrif á samfélagið sitt. Líf Ása var gæfa fyrir alla í kringum hann, hann gaf svo mikið af sér, bæði í persónulegum samskiptum og í samfélagslegum málefnum. Fyrir okkur sem syrgjum hann er gott að hugsa um allt þetta.

Elsku besti Ási minn, við þurfum að læra að lifa án þín. En andi þinn og allar minningarnar verða alltaf með okkur og lifa áfram. Farðu í friði elsku elsku bróðir. Takk fyrir allt.

Guðný Hildur Magnúsdóttir.