Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Nafn það margur maður ber.
Mesti dólgur er sá ver.
Engilhreinn með sóma og sann.
Sérmenntaður víst er hann.
Guðrún B. á þessa lausn:
Sveinn er margra manna nafn.
Margt um Skugga Sveininn yrki.
Hreinn einn sveinn sem heitir Rafn,
hann er sveinn, allklár rafvirki.
„Ef til vill er þetta brúkleg lausn,“ skrifar Helgi R. Einarsson:
Skugga-Sveinn um sviðið fer.
Sveinn er nafn á mörgum hér.
Hreinir sveinar svanna þrá.
Sveinn að verða margir ná.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Sveins nafn margur maður ber.
Minnst á Skugga-Svein er hér.
Sveinn ei konu kenndur við.
Kláraði hann sveinsprófið.
Þá er limra:
Í borgarstjórn álpaðist Einar
og enginn veit hvað´ann meinar
fremur en
framsóknarmenn,
þeir frábæru jólasveinar.
Síðan er ný gáta eftir Guðmund:
Húmið víkur, himinn blánar,
hljóma raddir árla dags,
óðarsmiðs nú gaman gránar,
gátu þarf að semja strax:
Hraðferð niður brattan bakka.
Bull, sem vellur upp úr krakka.
Klunnafót svo kalla megum.
Kranavatnsins boga teygum.
Helgi bætti þessum orðum við sína lausn á gátunni: “Ýmislegt dettur manni í hug“:
Dagsatt
Kata litla er kná
þótt gömul sé orðin og grá.
Ég á Hakinu stóð
er sú stutta fram óð
og stökk yfir Almannagjá.
Gáta eftir Bjarna frá Gröf:
Hættulegur er í ám,
en á sjónum fengur.
Notaður við reiða í rám,
í rúminu best hann gengur.
halldorblondal@simnet.is