[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjalti Þórarinn Pálsson er fæddur 25. júní 1947 á Sauðárkróki. Hann ólst upp á Hofi í Hjaltadal til tæplega 16 ára aldurs en vorið 1963 brugðu foreldrar hans búi og fluttust til Akureyrar.

Hjalti Þórarinn Pálsson er fæddur 25. júní 1947 á Sauðárkróki. Hann ólst upp á Hofi í Hjaltadal til tæplega 16 ára aldurs en vorið 1963 brugðu foreldrar hans búi og fluttust til Akureyrar. Hjalti gerðist vinnumaður á skólabúinu á Hólum og var þar næstu fjögur sumrin. Hann fór í Laugaskóla haustið 1962 og tók þar landspróf vorið 1965 en settist á næsta ári í Menntaskólann á Akureyri þar sem foreldrar hans voru þá búsettir og varð stúdent þaðan vorið 1969. Hjalti hóf nám í Háskóla Íslands þá um haustið og lauk BA-prófi í íslenskum fræðum eftir áramótin 1975 með sagnfræði sem aðalgrein en auk þess íslensku og norsku.

„Vorið 1967 hóf ég að vinna hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga á jarðýtu. Öll mín skólaár, og lengur þó, vann ég á jarðýtum eða í fjórtán sumur samfellt, fyrst í umferðarvinnu milli bæja við jarðrækt fyrir bændur en síðar aðallega við vegagerð, eða til og með sumrinu 1980. Ég átti að hálfu og rak ýtufyrirtækið Agnar og Hjalti sf. á Sauðárkróki á árunum 1974-1980.“

Lokaprófsritgerð í sagnfræði var skilað seinnipartinn í janúar 1975. Daginn eftir var Hjalti kominn til Grindavíkur og ráðinn á vertíðarbátinn Þórkötlu II sem var þá að búast á loðnuveiðar en eftir það þorskanet til vertíðarloka. „Það var góð lífsreynsla að kynnast þannig sjómennskunni þótt einungis væri ein vertíð.“

Hjalti var ráðinn bókavörður og forstöðumaður Héraðsbókasafns Skagfirðinga og Safnahúss Skagfirðinga á Sauðárkróki haustið 1976. Vorið 1990 tók hann við sem skjalavörður og forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga 1990-2000 og aftur forstöðumaður Safnahússins 1991-2000. Haustið 1995 var Hjalti ráðinn ritstjóri að Byggðasögu Skagafjarðar frá og með 1. október að telja. Því verkefni lauk ekki fyrr en 1. október 2021 og voru þá komin 10 bindi í stóru broti af Byggðasögu Skagafjarðar, samtals 4.620 blaðsíður með um það bil 5.080 ljósmyndum, kortum og teikningum. Bækurnar komu út á árunum 1999-2021.

Hjalti hefur verið framkvæmdastjóri Sögufélags Skagfirðinga frá 1976 og formaður þess frá 1977. Hann hefur verið í ritstjórn Skagfirðingabókar frá árinu 1977 og séð um útgáfu fjölmargra bóka á vegum Sögufélagsins. Auk þess að vera aðalhöfundur Byggðasögu Skagafjarðar hefur hann ritað margt af þjóðlegum fróðleik og sagnfræðilegu efni, auk fjölda þátta í Skagfirskar æviskrár.

Hjalti var ritari í stjórn Ferðafélags Skagfirðinga á árunum 1999-2020. Hinn 17. júní 2010 hlaut Hjalti fálkaorðuna fyrir fræðistörf og eftir að útgáfu Byggðasögunnar lauk var hann í apríl 2022 útnefndur heiðursborgari Skagafjarðar. Hjalti hefur verið félagi í Rótarýklúbbi Sauðárkróks frá árinu 2004 og var forseti klúbbsins starfsárið 2011-2012.

„Áhugamálin hafa löngum snúist um þjóðleg fræði og sögu Skagafjarðar en ferðalög um landið, bæði vetur og sumar á snjósleða eða bílum, hafa einnig verið áhugamál, sem og ferðir til útlanda. Tengslin við náttúruna og sveitina eru inngróin. Varðveisla íslenskrar þjóðmenningar og tungu hefur verið mér hugleikin, jafnframt bóklestur og nokkur bókasöfnun.“ Hjalti verður með opið hús í Varmahlíð í dag í tilfefni afmælisdagsins og eru allir velkomnir.

Þótt foreldrar Hjalta flyttust brott frá Hofi vorið 1963 átti Hjalti þar áfram lögheimili hjá móðurbróður sínum allt til ársins 1977 og kennir sig gjarnan við þann stað.

Fjölskylda

Eiginkona Hjalta er Guðrún Ragna Rafnsdóttir verkakona, f. 20.9. 1945 á Sauðárkróki. Þau hófu sambúð 1979 en giftu sig 22.11. 1980, fluttust í nýbyggt hús sitt á Sauðárkróki fyrir jólin 1979 og hafa búið þar síðan. Foreldrar Guðrúnar voru: Rafn Guðmundsson, kaupmaður og bókhaldari á Sauðárkróki, f. 21.6. 1912, d. 13.1. 1971 og Margrét Arndís Jónsdóttir húsmóðir á Sauðárkróki.

Einkadóttir Guðrúnar og Hjalta er María Hjaltadóttir, f. 1.9. 1979 á Sauðárkróki, lyfjatæknir og bóndi á Vöglum í Blönduhlíð. Maður hennar er Gísli Björn Gíslason bóndi á Vöglum, f. 12.4. 1966. Börn þeirra eru: Hákon Kolka Gíslason, f. 21.7. 2006 á Akureyri, Iðunn Kolka Gísladóttir, f. 4.9. 2009 á Akureyri, Huginn Kolka Gíslason, f. 25.3. 2013 á Vöglum, d. 3.4. 2015, Ísafold Kolka Gísladóttir, f. 13.3. 2018 á Akureyri og Eldey Kolka Gísladóttir, f. 19.6. 2020 á Akureyri. Foreldrar Gísla Björns voru Gísli Magnússon bóndi á Vöglum, f. 24.8. 1921, d. 4.12. 2004 og Kristín Heiður Sigurmonsdóttir, bóndi og húsfreyja á Vöglum, f. 2.8. 1933 í Kolkuósi.

Sonur Guðrúnar Rafnsdóttur og stjúpsonur Hjalta er Ómar Rafn Halldórsson, f. 11.2. 1965 í Reykjavík, vöru- og öryggisstjóri hjá Öryggismiðstöðinni í Reykjavík. Eiginkona hans er Elín Lilja Ragnarsdóttir þjónustufulltrúi hjá Danol, f. 13. 7. 1971 á Sauðárkróki. Faðir Ómars er Halldór Þorsteinsson, f. 29.9. 1944 á Suðureyri við Súgandafjörð, deildarstjóri og grafískur hönnuður í Reykjavík. Synir Ómars og Elínar eru Atli Rafn Ómarsson, f. 15.2. 1995 í Reykjavík, námsmaður. Unnusta hans er Lísa Emmudóttir förðunarfræðingur, og Hjalti Freyr Ómarsson, f. 6. 4. 1999 í Kaupmannahöfn, sölufulltrúi. Unnusta Hjalta er Karen Ósk Ákadóttir förðunarfræðingur.

Foreldrar Hjalta voru Páll Sigurðsson, íþróttakennari við Bændaskólann á Hólum 1934-1963 og bóndi á Hofi í Hjaltadal 1945-1963, síðar verslunarmaður hjá KEA á Akureyri 1963-1983. Kona hans var Anna Aðalbjörg Gunnlaugsdóttir frá Víðinesi, húsfreyja á Hofi en síðar saumakona á Akureyri. Systkini Hjalta eru María Pálsdóttir, f. 25.3. 1976 í gamla bænum á Hólum í Hjaltadal, húsfreyja í Vogum í Kelduhverfi, nú í Kílakoti í sömu sveit, og Sigurður Pálsson, f. 26. 4. 1937 í Víðinesi, lögreglumaður við slysarannsóknardeild í Reykjavík, síðar búsettur á Sauðárkróki.