— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þegar bréfritari horfir um öxl er ekki laust við að hann sé örlítið sakbitinn gagnvart löngu liðnum sumrum. Hann missti næstum af þeim, eins og margir aðrir á líku reki. Æskuárin eru þó undanskilin og einkum þó áhyggjulausu árin frá 4 ára aldrinum og fram undir fermingu. Eftir það gekk allt út á að komast í vinnu og helst í mikla yfirvinnu. Bera út Mogga. Sendast fyrir Sunnubúðina. Sendast fyrir Silla og Valda. Komast að í „sendiherrstöðu“ hjá Guðna Ólafssyni í Ingólfsapóteki og heildsölu hans. Næst að steypa gangstéttir í þrjú sumur.

Þegar bréfritari horfir um öxl er ekki laust við að hann sé örlítið sakbitinn gagnvart löngu liðnum sumrum. Hann missti næstum af þeim, eins og margir aðrir á líku reki. Æskuárin eru þó undanskilin og einkum þó áhyggjulausu árin frá 4 ára aldrinum og fram undir fermingu. Eftir það gekk allt út á að komast í vinnu og helst í mikla yfirvinnu. Bera út Mogga. Sendast fyrir Sunnubúðina. Sendast fyrir Silla og Valda. Komast að í „sendiherrstöðu“ hjá Guðna Ólafssyni í Ingólfsapóteki og heildsölu hans. Næst að steypa gangstéttir í þrjú sumur.

Þá að komast á fjöll og vinna við skurðgröft og stíflugerð á fjallinu við Búrfellsvirkjun. Eitt sumar í sveit í Svartárdal. Margir ungir strákar hafa svona sögu að segja. Það var metnaðarmál að komast að. Ósigur að ná ekki í einhverja aura undir veturinn.

Önnur veröld og næstum týnd

Algengast var á þeim árum að mæðurnar væru heima. En í tilviki okkar bræðra var hún „útivinnandi“ og tók stundum aukavinnu á kvöldin, enda eftirsóttur dugnaðarforkur, þótt hún bæri það ekki endilega með sér. En amma var heima og fastur punktur tilverunnar. Á sumrin gerði hún ráð fyrir því, að eftir hafragrautinn færum við bræður út og værum einhvers staðar í næsta nágrenni. Skólafríin voru miklu lengri þá og ekkert sem bendir til að menntun og máttur hennar hafi aukist við lengri þvingaða skóladvöl. Þá voru áratugir í að börn væru búin símum og gætu látið vita af sér og sættu fjareftirliti af því tagi. Heima gilti strangt bann við því að við bræður hringdum úr heimasímanum, enda sagt kostnaðarsamt. Eftirlit með því var hert mjög af ömmuvaldinu eftir að annar hvor okkar bræðra var staðinn að því að hafa hringt á Selfoss, þar sem við áttum vinum að mæta. En móðir vinarins sendi strax bréf til ömmu um atburðinn og óttuðust báðar að gengi slíkt eftir óátalið væri skapað hættulegt fordæmi sem gæti farið úr böndum fyrr en varði.

Yngri bróðirinn, sem safnaði frímerkjum, var svo óskammfeilinn að biðja um frímerkið, en fékk þau svör að sú ósk væri í besta falli óviðeigandi! Í allmörg ár veltu þeir bræður fyrir sér hvað hefði orðið af merkinu.

Merkileg merki

Fyrir nokkrum árum fann bréfritari hálfan pappakassa, með sönnun um söfnunarafrek frímerkjasafnara. Kunningi, sem þekkti til í þeim fræðum og kíkti á, taldi mjög ólíklegt að þessi frímerki, þótt á sjötugsaldri væru, hefðu haldið í við verðbólguna og sennilega fjarri því. Það minnti á að á árunum í Austurbæjarskóla fengu börn smáseðla frá foreldrum sínum til að kaupa merki sem undir eftirliti umsjónarkennara voru límd inn í bækur Landsbanka sem hétu „Græddur er geymdur eyrir“. Þegar síða var fullþakin var hún rifin úr bókinni og sparnaðurinn færður inn í bankabók á nafni barnsins og bankinn sá svo samviskusamlega um að láta verðbólguna brenna þetta lítilræði upp, svo börnin þurftu ekkert að hafa fyrir því. Það er ekki óhugsandi að yfirskriftin „græddur er geymdur eyrir“ hafi staðist tímans tönn og gróðavon einhverra hafi ræst, en sennilega óumdeilt að börnin, sem áttu í hlut, komu þar hvergi nærri. Áþekka sögu má tengja við aðrar bækur en bankabækur barna, sem þau voru í raun allt að því þvinguð til að taka þátt í.

Bækur í vörn

Það lá í loftinu lengi að bækur teldust til eigna, þótt ekki væri það í skilningi skattalaga, enda fyrir daga Indriða. Öðru hvoru varð það fréttaefni að frægir safnarar seldu bókasöfn sín og sterkir aðilar keyptu þau í heild, stundum ríkið sjálft, eða safnað var fyrir kaupverðinu af stuðningsmönnum stofnana og komið fyrir þar. Þá keypti ríkið safn af því tagi þegar bókasafnið í nýju stofunni á Bessastöðum stóð óvænt autt við forsetaskipti 1968 og forsætisráðherra úrskurðaði á Alþingi að telja yrði að bókakosturinn tilheyrði fráfarandi forseta. (Orðalaginu hefur ekki verið flett upp.) Um þetta leyti, og um langt skeið þar á undan, er þá sögu að segja um bækur, að þær þóttu almennt virðingarauki, þótt menn væru ekki endilega að meta hverja og eina til fjár. En það þótti engum vegsauki ef menn hentu heillegum bókum, svo ekki sé talað um þær sem helst þótti spunnið í.

Leiðum fjölgar

Enn er til fólk sem þykir vænt um bækurnar sínar, stundum vegna þeirra sjálfra, en stundum vegna þess sem gaf þær eða af öðrum tilfinningalegum ástæðum. Og mörgum sýnist enn sjálfsagt að sýna sæmilegum bókum tilhlýðilega ræktarsemi, sé þess kostur. En víst fjölgar þeim ört sem líta tilveru bóka öðrum augum, og það þótt þeir sömu meti innihaldið eftir atvikum mikils. En mörgum þykir ekki skipta öllu hvernig ná megi til efnis bóka. Aðferðin hljóti að vera aukaatriði. Enda hafa opnast óteljandi tækifæri til að nálgast efni „bókar“ án þess að „sitja uppi með þær“. Opnast hafa nýir tímar sólarhrings sem áður þóttu óbrúklegir til „bóklestrar“. Og þótt fullyrt væri rétt í þessu að enn væru margir háðir persónulegri návist við góða bók, þá fer þeim fækkandi. Enn má þó gefa sér að allmargir slíkir verði lengi til, þótt þeir verði skilgreindir sem sérvitringar eða sem 18. kynið, svo miðað sé við speki Obama í þeim dúr.

Breytt mynd

Þeir, sem fylgjast grannt með fasteignaauglýsingum, eins og bréfritari hefur gert, mest eins og af kæk, gætu haldið að nú sé svo komið á Íslandi að varla selji nokkur sæmilega læs maður nokkru sinni íbúð. Það er að segja ef marka má myndir sem fylgja auglýsingum um fasteignir. En „sérfræðingar“ benda á, að hugsanlegt sé að sölumyndir segi ekki alla söguna. Vel megi vera að bókum seljanda hafi þegar verið komið fyrir í kössum og ekki gefið að þeim verði öllum hent á þessum tímamótum. Þó er líklegt að fólk „sem er að minnka við sig“ hafi ekki tök á að flytja allar bækur sínar með. Og ekki er heldur víst að yngra fólkið í fjölskyldunni hafi tök á að taka við bókum eða það henti því. Sérfræðingarnir, sem enn eru nefndir, segja að þetta eigi við um fleira en bækur. Fasteignasalar leggja áherslu á að fækka persónulegum hlutum seljanda áður en auglýsingamyndir séu teknar. Hversu ágætt sem innbúið sé, og bækur þar með taldar, þá er hugsanlegum kaupendum gert þægilegra að máta sig og sitt við eignina sem er til sölu, því minna sem „heimili seljandans truflar,“ hversu ágætt og myndarlegt sem það er.

Það er auðvitað ekkert að því að mönnum þyki enn vænt um bækurnar sínar, og reyndar sumar meir en aðrar, enda ekki jafn alvarlegt að gera upp á milli bóka og barna sinna. Ekki má gleyma því að bækur voru töfralykill að fróðleik og skáldskap, sem hvor tveggja var óaðgengilegur án hans. Iðulega þóttu bækur sjálfstætt listaverk og stóðu þannig fyrir sínu óháð innihaldinu.

Annar tími og aðrir staðir

En nú „lest þú“ bók á langferð í bifreið, á biðstofu eða í biðröð og jafnvel í heitu baði, sem var áður alræmd hættuslóð fyrir bækur liðins tíma.

Áður lásu menn sig til svefns, en nú lesa bækurnar þá til svefns, og hætta því þegar lesandinn, sem breyst hefur í hlustandann, er sofnaður. Það stendur eftir að í einstökum tilvikum slær ekkert út að hafa góða bók í hendi sér í trygglyndum stól, og það þótt sá sé orðinn lúinn og snjáður í augum annarra.

Almenningsbókasöfn voru mannbætandi fyrirbæri. Aðgengi að bókum margfaldaðist og margir nutu þeirra sem ella hefðu átt óhægt um vik. En almenningsbókasöfn voru reyndar ákveðin leið til að „eyða“ bókum, þótt það væri að sjálfsögðu ekki hluti af planinu. En sú eyðilegging var góður vitnisburður um vinsældir bókar. Einhverju sinni í borgarstjóratíð var viðkomandi upplýstur um hversu oft bækur réðu við það að fara inn og út úr safninu til áhugasamra lántakenda. Hver sem sú tala var, þá er bókakostur safna ekki óendanlegur og var fólk látið lesa þá bók á sal, sem fá eintök voru eftir af.

Svo eru það seðlarnir

Almenningur, sem fer gætilega með íslenska seðla sína, ekki síst þá sem hafa mest gildi, er ekki endilega meðvitaður um það, að seðlarnir sem hann notar ganga reglubundið aftur til Seðlabankans og fá þar skoðun og umönnun og standist þeir mat fara þeir í umferð á ný. En hafi einstakir seðlar gengið sér til húðar, ef svo má segja, fá þeir næsta harðneskjulega lokameðferð í kjallara bankans. Þeir eru (voru?) tættir og brenndir. Einhver gæti hugsanlega tekið nærri sér að vita að þannig sé jafnvel farið með 10 þúsund króna seðilinn með myndinni af skáldinu góða, ljóðunum hans, sem birtast þar af hans eigin hendi, og lóunni með sitt dirrindí.

Þessi seðill endist betur en seðlar með lægra gildi, enda fara þeir síðarnefndu hraðar um, og sennilega betur farið með þann stóra af eigendum.

En þegar bankinn „neyðist“ til að brenna seðla sem hann gefur út, skilar hann útlánsstofnunum góðum seðlum í staðinn. Seðill kemur í seðils stað.

Örlög seðlanna eru ekki ólík manneskju sem tætt er eftir langa lífsbaráttu og gagnlegt líf, en lætur sátt brenna sig eftir lokadag í jarðvistinni.

Sýndarskapur

Það vantar mjög mikið upp á að þeim vopnum sem Úkraínu Selenskís hefur verið lofað, og stundum marglofað, hafi verið skilað þangað. Á mörgum situr svartur blettur.

Bandaríkjamenn og Bretar hafa staðið best í skilum. Evrópusambandsríkin undir forystu Þjóðverja og Frakka hafa verið hikandi og ósannfærandi og dregið lappirnar, svo með ólíkindum er. Hefðu enskumælandi ríkin hagað sér eins og ESB, þá væri Úkraína fallin fyrir löngu. En því miður bendir margt til þess að skemmra sé til þeirrar stundar en vonir stóðu til um hríð.

Innrás Pútíns þjappaði vissulega vestrænu þjóðunum saman með óvenjulegum hætti. Það var gert svo snögglega og örugglega, að varla eru dæmi slíks. Þetta á einnig við um ESB-þjóðirnar. En því fer grátlega fjarri því að þetta eigi við um ESB-ríkin og stjórnendur þeirra, sem er allt annar handleggur. Þar skakkar miklu. Nú er látið eins og að ESB-leiðtogarnir hafi gert eitthvað sem einhverju skili, og sé jafnvel merkilegt, með því að koma saman og gefa Úkraínu stöðu inntökuríkis! Látið er eins og að sú gjörð sé stórmerkileg, því að hún hafi aðeins tekið eina viku. Hvaða máli skiptir það? Þetta er algjör sýndargjörð. Sumir leiðtogarnir sem voru viðstaddir sýndarskapinn gátu ekki hamið sig. Ýmsar þjóðir, með fulltrúa á staðnum, bentu á að þær hefðu fengið þennan sama stimpil fyrir 10 árum og síðan hefði ekki nokkur skapaður hlutur gerst. Málamyndagerningurinn hefði engu breytt. Byrjað var að tala um Tyrkland sem inngönguþjóð fyrir 22 árum!

Nú fer ekki á milli mála að leiðtogar ESB, það er að segja Þýskaland og Frakkland, eru komnir á allt annan stað en þjóðir þeirra sjálfra hafa verið á. Það má ekki storka Pútín, segja leiðtogarnir. Pútín verður að fá að halda andlitinu, segja þeir. Hvaða andlit eru þeir að tala um? Jú, það eru landsvæðin sem Pútín hefur lagt undir sig í tveimur áföngum! Breitt og vítt andlit það.

Sláandi tölur

Þjóðverjar sjá fram á óviðráðanlega efnahagskreppu ef stefnunni verði ekki kúvent sem allra fyrst. Þá á Scholz kanslari ekki við að Þjóðverjar verði að hætta að þvælast fyrir vopnasendingum til Úkraínu.

Á fyrstu fjórum mánuðum innrásar Pútíns hefur hann fengið 20 milljarða evra frá Þýskalandi. Frakkland hætti fyrir aðeins einum mánuði að dæla slíku fé til Pútíns. Indland kaupir nú 25 sinnum meira af olíu af Rússlandi en fyrir innrásina. Forseti Kína ítrekaði óskeikulan stuðning við Pútín á dögunum. Hvernig leyfa menn sér að tala um hinar ískyggilegu efnahagsþvinganir? Hverja er verið að blekkja? Ekki Pútín. Hann hefur ekki við að telja. Rúblan sem hrundi er fyrir löngu komin í góða stöðu aftur.

Við hvað dunduðu þrír helstu leiðtogar heimsins sér í síðustu viku? Pútín er að klára að leggja Donetsk undir sig. Forseti Kína hringdi og stappaði stálinu í Pútín. Joe Biden hjólaði inn í hóp manna og féll kylliflatur. Enginn vissi hvernig það gat gerst hjá manni sem hefur 50 lífverði í kringum sig.

Það hjálpaði lítið að Kamala Harris flissaði alla vikuna, og enginn vissi hvers vegna.

Hafa ekki efni á að beita efnahagsþvingunum

Efnahagsþvingarar skjálfa nú eins og hríslur. Verðbólga og yfirvofandi kreppa í kjölfarið, hvert sem litið er. Pútín rakar inn fé, ekki síst frá Þýskalandi og Frakklandi í „efnahagsþvingununum“ miklu.

Hann selur nú orðið meira magn af olíu til Kína en nokkur annar gerir. Merkel hafði hlaupið á sig varðandi kjarnorkuver rétt eins og flóttamannafljótfærnina á sínum tíma. Loftslagsspekin, sem er 90% trú og 10 prósent speki, og sú fremur naum.

Það stefnir í haustkosningar í Bandaríkjunum í byrjun nóvember nk. Skoðanakannanir vestra segja frá því hver séu helstu áhugamál og áhyggjumál bandarískra kjósenda. Þar lendir loftslagstrúboðið í neðsta sæti og kemst hæst upp í rúm 4% áhuga hjá bandarískum kjósendum! Telja má víst að núverandi ríkisstjórn hafi ekki gluggað í síðustu yfirlýsingu loftslagsráðsins hér á landi, sem var heilsteypt dæmi um nærri því fullkomna veruleikafirringu.

Vinstrimenn á Íslandi börðust hart gegn virkjunum á Íslandi vegna vinsemdar við náttúruna. Þeir töldu virkjanirnar eyðileggja hana. Sú mynd sem blasir við er allt önnur en hræðsluáróðurinn gekk út á. Efnahagur Íslands væri annar og stórlega lakari ef þessi öfl hefðu náð sínu fram.

En vindmylluskemmdin á landinu blasir við hverjum manni, en fjárhagslegur ávinningur af tilrauninni orkar tvímælis, svo ekki sé meira sagt. Vinstrimenn hafa afhjúpað að þeir voru á móti virkjunum vegna andúðar á útlendingum. Þeir voru á móti aðild að Nató vegna aðdáunar og tengsla við Sovétríkin. En nú styðja þeir loks inngöngu allra í kringum okkur í Nató. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru svo hræddir við Pútín. Afstaða þeirra til vindmylla sýna að þeir meintu ekkert með tali sínu um náttúrufegurð og vilja til verndunar hennar. Aldrei hefur verið gerð eins furðuleg tilraun til að eyða og skerða íslenska náttúrufegurð, eins og með því að fylkja sér um vindmyllumeinlokuna.

Kannski gæti vindmyllan farið vel í flokksmerki þeirra.