Sindri Leifsson
Sindri Leifsson
Samsýningin Hnoð/ Knead verður opnuð í Listasafni Einars Jónssonar í dag kl. 15. Hún er hluti af fimm landa Evrópuverkefni sem kallast UpCreate. Í því er áhersla lögð á mat og ólíkar listgreinar, að því er fram kemur í tilkynningu.

Samsýningin Hnoð/ Knead verður opnuð í Listasafni Einars Jónssonar í dag kl. 15. Hún er hluti af fimm landa Evrópuverkefni sem kallast UpCreate. Í því er áhersla lögð á mat og ólíkar listgreinar, að því er fram kemur í tilkynningu. „Í tilviki Listasafns Einars Jónssonar sá Sindri Leifsson myndlistarmaður um skúlptúrsmiðju í garðskála og höggmyndagarði með níu þátttakendum og er sýningin afrakstur af þeirri vinnu,“ segir í tilkynningu. Bent er á að safnið sé fyrsta byggingin sem hafi verið reist við Skólavörðuholtið, árið 1923, og þar haldnar áhugaverðar útisýningar 1967–1972, þar sem brauð kom eftirminilega við sögu.

„Einar nefnir í endurminningum sínum að hann hafi fengið hagldabrauð (eins konar kringlu) í nesti sem krakki en tímdi ekki að borða það, af því honum fannst það svo fallegt í laginu. Í þessu samhengi og í samvinnu við Brauð & Co. var ungu listafólki boðið að taka þátt í verkefninu,“ segir í tilkynningu. Fimm manna dómnefnd velur einn vinningshafa sem ferðast með safninu til Ítalíu í haust og tekur þátt í smiðju á hinum alþjóðlega Feneyjatvíæringi.

Þátttakendur í verkefninu eru Benedikt Ingi, Gabríel Backman, Guðný Sara Birgisdóttir, Hlökk Þrastardóttir, Maria Sideleva, Oliver Wellmann, Saga Líf Sigþórsdóttir, Sigurlinn María Sigurðardóttir og Victoria Björk Ferrell.