Lögregla var með mikinn viðbúnað í Miðvangi í Hafnarfirði að morgni miðvikudags vegna manns sem talinn er hafa skotið á tvo kyrrstæða bíla og síðan lokað sig inni í íbúð í fjölbýlishúsi. Feðgar voru í öðrum bílnum, faðir og sex ára sonur.
Lögregla var með mikinn viðbúnað í Miðvangi í Hafnarfirði að morgni miðvikudags vegna manns sem talinn er hafa skotið á tvo kyrrstæða bíla og síðan lokað sig inni í íbúð í fjölbýlishúsi. Feðgar voru í öðrum bílnum, faðir og sex ára sonur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldi tilhæfulausra bakreikninga fyrir „komum“ sjúklinga, sem skráðir eru hjá einkareknum heilsugæslum, í blóðprufu á heilsugæslu hins opinbera hlaupa líklega á tugum þúsunda, að sögn Ragnars Freys Ingvarssonar , formanns Læknafélags...

Fjöldi tilhæfulausra bakreikninga fyrir „komum“ sjúklinga, sem skráðir eru hjá einkareknum heilsugæslum, í blóðprufu á heilsugæslu hins opinbera hlaupa líklega á tugum þúsunda, að sögn Ragnars Freys Ingvarssonar , formanns Læknafélags Reykjavíkur .

Bitcoin , stærsta rafmyntin að markaðsvirði, hefur lækkað um 50% það sem af er ári.

Verkamaður sem réðst á vinnufélaga sinn með haka og klaufhamri á Seltjarnarnesi var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Breiðafjarðarferjan Baldur var enn á milli tannanna á fólki í vikunni en hún varð vélarvana á siglingu sinni um liðna helgi. Baldur hresstist strax daginn eftir en hróp eftir nýrri ferju í hans stað fara ekki lækkandi.

Hljóð á myndskeiðum sem tekin voru um borð í flugvélinni TF-ABB , um það leyti þegar hún kom inn að Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni , gefur til kynna að afl hafi verið á hreyflinum. Heyra má aflið minnka og flugið lækka í kjölfarið niður að vatnsyfirborðinu. Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa .

Metfjöldi útskrifaðist úr Háskólanum í Reykjavík , 754 sálir.

Uffe Ellemann-Jensen , fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur , lést, 80 ára að aldri.

Ensemble , fylking Emmanuels Macrons forseta, missti meirihluta sinn á franska þinginu .

·

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ekki hægt að útiloka að rússnesk herför fari að nálgast íslenskt yfirráðasvæði, nú þegar Rússar gera sig svo digra við nágrannaríkin.

Hildur Björnsdóttir , oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík , segir eina skynsamlega viðbragð sveitarfélags við hækkun fasteignamats fyrir árið 2023 vera samsvarandi lækkun skattprósentu.

Innlögnum vegna Covid-19 fer fjölgandi og um liðna helgi létust tveir með sjúkdóminn á Landspítala . Sóttvarnalæknir segir þó ekki stemmningu fyrir takmörkunum í samfélaginu.

Hilmar Pétur Valgarðsson , framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips , hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara vegna rannsóknar á sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss árið 2019. Hann hefur réttarstöðu sakbornings í málinu.

Þrír þingmenn úr röðum Pírata töluðu lengst á nýafstöðu vorþingi. Björn Leví Gunnarsson talaði mest allra, eða í 1.014 mínútur, sem jafngildir um 17 klukkustundum. Í öðru sæti varð Gísli Rafn Ólafsson og Andrés Ingi Jónsson varð þriðji. Björn Leví fékk klums þegar þetta var borið undir hann, enda „yfirleitt ekki þekktur fyrir að tala neitt voðalega mikið“.

Atvinnuleysi er áfram á niðurleið. Samkvæmt maískýrslu Vinnumálastofnunar var 3,9% atvinnuleysi í maí og er það í fyrsta sinn síðan í október 2019 sem það mælist undir 4%.

Lúsmýið er komið.

Kanínur með varnarþing í Elliðaárdal leita sér að nýju heimili.

Íslensk stjórnvöld veita Evrópuráðinu sérstakt fjárframlag sem nemur 43 milljónum íslenskra króna. Það á að fara til jafnréttismála, málefna barna og verkefnis sem varðar hið íslenska Barnahúss-módel í Evrópu og til Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að auka skilvirkni dómstólsins.

Verkefnið Römpum upp Ísland er komið með þrítugasta rampinn.

·

Sólarlaust var á sumarsólstöðum .

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um tæp 34% frá því í febrúar í fyrra.

Vindorka er í sjónmáli hér á landi. Landsvirkjun hyggst vinna samtímis að undirbúningi þeirra tveggja vindorkuvera sem komin eru í orkunýtingarflokk rammaáætlunar , við Búrfell og Blöndu .

Erlendur ferðamaður beið bana er hann varð fyrir lyftara á Djúpavogi .

Anna Hildur Guðmundsdóttir verður áfram formaður SÁÁ .

Viljayfirlýsing um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk var undirrituð.

Samráðshópur um bætt öryggi í Reynisfjöru var stofnaður.

Guðrún Aspelund var ráðin nýr sóttvarnarlæknir frá og með 1. september. Hún segir álagið ekki hafa fælt hana frá því að sækja um.

Ómar Ingi Magnússon var valinn í úrvalslið nýliðins tímabils í þýsku 1. deildinni í handbolta, annað árið í röð.

Farþegum í flugvél Icelandair var ekki skemmt þegar engar töskur komu úr vélinni eftir lendingu í Amsterdam .

·

Lögregla var með mikinn viðbúnað í Miðvangi í Hafnarfirði að morgni miðvikudags vegna manns sem talinn er hafa skotið á tvo kyrrstæða bíla og síðan lokað sig inni í íbúð í fjölbýlishúsi. Maðurinn gaf sig að lokum fram og var handtekinn. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps, en í öðrum bílnum voru feðgar, faðir á leið með son sinn á leikskólann.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um heilt prósentustig en seðlabankastjóri segir verðbólguhorfur hafa versnað mjög mikið.

Sólon S. Sigurðsson , fyrrverandi bankastjóri, lést, áttræður að aldri.

Starfsgreinasambandið fer fram á krónutöluhækkanir í komandi kjaraviðræðum.

Hvalbátar héldu til veiða eftir þriggja ára hlé.

Hefja þurfti umsóknarferlið vegna nýs dómara Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu upp á nýtt eftir að tveir af þremur umsækjendum drógu umsókn sína til baka.

Aðsókn ferðamanna á Íslandi er töluvert meiri þetta árið en hún var árið 2021 og landið er næstum uppselt fyrir sumarið.

·

Sara Björk Gunnarsdóttir , landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk til liðs við Ítalíumeistara Juventus .

Anton Sveinn McKee jafnaði þriðja besta árangur Íslendings á HM í sundi þegar hann varð sjötti í 200 metra bringusundi.

Úkraínu og Moldóvu var á fimmtudaginn formlega veitt staða umsóknarríkja að Evrópusambandinu .

Jarðskjálfti upp á 4,6 að stærð varð 13,8 kílómetra sunnan af Eiríksjökli , það er undir Langjökli , að kvöldi fimmtudags.

Ár var í vikunni liðið frá fyrsta flugi Play . Birgir Jónsson , framkvæmdastjóri félagsins, segir margt hafa breyst í millitíðinni en starfsemin hafi gengið vonum framar.

Tap Reykjavíkurborgar nam á fyrsta fjórðungi þessa árs tæpum 4,8 milljörðum króna, samanborið við tap upp á 4,3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra gaf blóð í vikunni en neyðarástand ríkir hjá Blóðbankanum vegna bágrar stöðu á lager bankans.

Fálkavarp virðist hafa gengið ágætlega í vor.

Kennsla í unglingadeild í Vogaskóla mun í tilraunaskyni hefjast 40 mínútum seinna en vant er í vetur, eða klukkan 09.10.

Dregið hefur úr sölu hraðgreiningarprófa fyrir Covid hér á landi.

Tinna María Sævarsdóttir lauk námi í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu á tveimur árum og dúxaði í þokkabót.

Lyfjafyrirtækið Alvotech var skráð á markað í Kauphöll Íslands .

DAS leitar að 64 ára karli á Suðurnesjum .