[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Jarðskjálftavirkni hélt áfram í Langjökli í gær, eftir að stór skjálfti varð upp úr kl. 22 í fyrrakvöld, 4,6 að stærð. Skömmu síðar kom kippur af stærðinni 3,7 og síðan tæpir 3 í fyrrinótt.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Jarðskjálftavirkni hélt áfram í Langjökli í gær, eftir að stór skjálfti varð upp úr kl. 22 í fyrrakvöld, 4,6 að stærð. Skömmu síðar kom kippur af stærðinni 3,7 og síðan tæpir 3 í fyrrinótt. Er þetta mesta virkni í jöklinum í ein sjö ár.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, segir skjálfta á þessu svæði ekki algenga.

„Þarna undir miðjum Langjökli eru nú skjálftar ekki algengir,“ sagði hann við mbl.is um miðjan dag í gær.

Um er að ræða vestara gosbelti landsins sem gengur upp frá Hengli að Langjökli, flekaskil sem hann segir að séu deyjandi.

„Þetta er svona grein af flekaskilunum sem er nú eiginlega deyjandi. Hún er hægt og rólega að gefa upp öndina,“ sagði Páll ennfremur.

Páll sagði að almennt væri viðvarandi skjálftavirkni vestar en stærsti skjálftinn, það er við Kaldadal og Geitlandsjökul. Þá hefur skjálftavirkni austan megin einnig tíðkast.

„Það var skjálfti þarna í apríl og annar í maí. Þannig að það er eitthvað í gangi þarna undir jöklinum sem hefur ekki verið í gangi síðustu áratugi.“

Síðasta gos við landnám

Hann áréttaði þó að um væri að ræða deyjandi flekaskil – framhald af Þingvallaflekaskilunum sem greinast við Hengil, sumsé flekaskilin milli Norður-Ameríkuflekans og íslenska Hreppaflekans. „Síðasta gos á þessu svæði er eiginlega það sem bjó til Hallmundarhraun,“ sagði Páll en talið er að það eldgos hafi verið á 10. öld, um það leyti er Ísland byggðist.