Brautskráning Flestir útskrifuðust af menntavísindasviði.
Brautskráning Flestir útskrifuðust af menntavísindasviði. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Guðrún Sigríður Arnalds gsa@mbl.is Háskóli Íslands brautskráði 2.594 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi síðastliðinn laugardag og fór athöfnin fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal en skólinn hefur aldrei brautskráð jafnmarga í einu.

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

Háskóli Íslands brautskráði 2.594 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi síðastliðinn laugardag og fór athöfnin fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal en skólinn hefur aldrei brautskráð jafnmarga í einu. Athöfninni var skipt í tvær brautskráningar, annars vegar nemenda frá Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði, og hins vegar frá Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði.

„Þetta gekk allt gríðarlega vel og ég vil þakka öllum sem komu að skipulagningu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við Morgunblaðið. Hann bætir við að það hafi gert gæfumun að í ár máttu aðstandendur vera viðstaddir athöfnina eftir tveggja ára hlé, en undanfarin ár hefur skólinn haft brautskráninguna í streymi.

„Það er líka einstaklega gaman að sjá hversu margir útskrifuðust af menntavísindasviði, en við höfðum verið í smá átaki að fjölga þeim kandídötum og sjáum núna að það er að takast,“ segir Jón. Flestir útskrifuðust af því sviði og voru þeir kandídatar 773 talsins.