Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir
„Ég held að fyrrverandi meirihluti hafi farið offari og verið með rörsýn í þessu máli. Þau hafa kannski gert sér grein fyrir hindrununum en þetta var bara þvermóðska.

„Ég held að fyrrverandi meirihluti hafi farið offari og verið með rörsýn í þessu máli. Þau hafa kannski gert sér grein fyrir hindrununum en þetta var bara þvermóðska.“ Þetta segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, um vinnubrögð fyrrverandi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur í tengslum við uppbyggingu í Skerjafirði.

Eins og greint hefur verið frá, var uppbyggingu í Skerjafirði frestað um óákveðinn tíma, eftir að innviðaráðuneytið sendi bréf þess efnis til Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að ráðuneytið teldi það með öllu óásættanlegt að Reykjavíkurborg hæfi framkvæmdir í Skerjafirði, án þess að búið væri að kanna til fulls hvort rekstraröryggi flugvallarins í Reykjavík væri tryggt.

Segir Kolbrún, í samtali við fréttastofu, að hún hafi átt þó nokkrar bókanir um málið í gegnum tíðina, þar sem hún hefði bent á að skynsamlegt væri að bíða með uppbygginguna vegna þessarar óvissu. Meirihlutinn hefði þá neitað að hlusta. „Meirihlutinn var bara búinn að ákveða að byggja þarna og þeir sem vilja flugvöllinn burt, stefna bara á eitt markmið,“ segir Kolbrún og bætir við að þetta sé merki um þvermóðsku meirihlutans. Segist hún að auki harma þá vinnu og það fjármagn sem hefur farið í að skipuleggja þessa uppbyggingu, sem er nú búið að fresta. „Segjum sem svo að þetta frestist í tíu til tuttugu ár, hvað erum við þá búin að eyða miklu í einhverja vitleysu?“ Bætir hún við að nú sé augljóst að þessi vinna hafi ekki verið tímabær vegna þess óöryggis sem ríki um flugvöllinn. Nú sé það komið á daginn. Málið sé allt hið vandræðalegasta og að hennar mati beri vinnubrögð meirihlutans vott um kjánaskap.