[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale hefur skrifað undir eins árs samning við bandaríska félagið Los Angeles FC. Hann kemur til félagsins frá Real Madríd. Liðið er sem stendur í toppsæti bandarísku MLS-deildarinnar, með 30 stig eftir 15 leiki.

*Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale hefur skrifað undir eins árs samning við bandaríska félagið Los Angeles FC. Hann kemur til félagsins frá Real Madríd. Liðið er sem stendur í toppsæti bandarísku MLS-deildarinnar, með 30 stig eftir 15 leiki.

Bale lék með Real Madríd í níu tímabil og vann Meistaradeild Evrópu fimm sinnum með spænska liðinu. Ítalski varnarmaðurinn Giorgio Chiellini samdi við félagið á dögunum.

* Isabella Ósk Sigurðardóttir átti góðan leik fyrir South Adelaide Panthers, er liðið vann 44 stiga sigur, 84:40, á Eastern Mavericks í áströlsku B-deildinni í körfubolta í gær. Isabella lét afar vel að sér kveða er hún skoraði þrettán stig, tók ellefu fráköst, gaf tvær stoðsendingar og stal boltanum þrisvar á tæplega 26 mínútum. Var hún frákastahæst í liðinu ásamt Hönnuh Stewart .

Eftir sigurinn eru Isabella Ósk og stöllur hennar í efsta sæti Central-riðilsins með 20 stig.

*Knattspyrnufélagið Nottingham Forest, nýliði í ensku úrvalsdeildinni, hefur gengið frá kaupum á sóknarmanninum Taiwo Awoniyi frá Union Berlín. Félagið greiðir metfé fyrir Nígeríumanninn eða um 17,5 milljónir punda. Awoniyi, sem skrifaði undir fimm ára samning hjá Forest, skoraði 20 mörk í 43 leikjum í öllum keppnum fyrir þýska félagið á nýafstöðnu tímabili og hjálpaði liðinu að ná Evrópudeildarsæti. Hann var áður á mála hjá Liverpool en fékk ekki atvinnuleyfi á þeim sex árum sem hann var þar og var því lánaður út sjö sinnum, síðast til Union Berlín, sem keypti hann síðasta sumar.

*Íslandsmeistaramótið í ólympískri þríþraut fór fram á laugardag við góðar aðstæður á Laugarvatni. Í þrautinni voru syntir tveir 750 metra hringir í Laugarvatni, hjólaðar tvær 20 kílómetra umferðir á Laugarvatnsvegi og að lokum hlaupnir tveir 5 kílómetra utanvegahringir við Laugarvatn.

Í kvennaflokki sigraði Katrín Pálsdóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar á tímanum 2:41,24 og var þetta í fyrsta skipti sem Katrín fagnar sigri á Íslandsmóti. Í karlaflokki sigraði Sigurður Örn Ragnarsson úr Breiðabliki en hann kom í mark á 2:09,54 tímum. og varð þar með Íslandsmeistari fimmta árið í röð.

* Japanski knattspyrnumaðurinn Takumi Minamino hefur skipt úr enska félaginu Liverpool og yfir til Mónakó í Frakklandi. Minamino kom til Liverpool frá Salzburg fyrir tveimur og hálfu ári en náði ekki að vinna sér inn sæti í byrjunarliði enska liðsins.

Liverpool greiddi á sínum tíma 7,25 milljónir punda fyrir Minamino en Mónakó reiðir fram 15,5 milljónir fyrir japanska sóknarmanninn.

*Á laugardag fór fram Íslandsmótið í götuhjólreiðum. Ræst var við Reykjahlíð og hjólaður stór, samfelldur hringur í áttina að Laxárvirkjun í norður. Sigurvegarar voru þau Hafdís Sigurðardóttir og Ingvar Ómarsson en þau hafa verið með þó nokkra yfirburði á þeim götuhjólamótum sem farið hafa fram á þessu sumri. Þau unnu einnig Íslandsmótið í tímatöku í Eyjafirði í síðustu viku.

*Knattspyrnumennirnir Þorleifur Úlfarsson og Óttar Magnús Karlsson voru báðir á skotskónum í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Þorleifur skoraði fyrra mark Houston Dynamo í 2:0-sigri á Chicago Fire í MLS-deildinni, efstu deild Bandaríkjanna, og Óttar Magnús skoraði annað mark Oakland Roots, úr vítaspyrnu, í 3:1-sigri á varaliði Atlanta United í B-deildinni.

* Deildarmeistarar Fjölnis í körfuknattleik kvenna hafa samið við austurrísku landsliðskonuna Simone Sill , sem er 180 sentimetra hár framherji. Á síðasta tímabili lék hún með Capitol Bascats Düsseldorf í þýsku A-deildinni.

„Hún skorar undir körfunni sem og frá þriggja stiga línunni. Hún er fær í að lesa leikinn varnarlega sem skilar henni mörgum fráköstum í vörninni,“ sagði í tilkynningu frá Fjölni.

*Breski körfuknattleiksmaðurinn Callum Lawson verður ekki áfram í herbúðum Íslandsmeistara Vals. Frá þessu var greint á Karfan.is í gær, þar sem sagði að Lawson væri búinn að semja við JA Vichy-CM í frönsku B-deildinni. Lawson kom fyrst til landsins í upphafi ársins 2020 er hann samdi við Keflavík en það tímabil var skömmu síðar blásið af vegna kórónuveirufaraldursins. Hann samdi þá við Þór frá Þorlákshöfn og varð Íslandsmeistari með liðinu á síðasta ári. Samdi Lawson svo við Val síðastliðið sumar og varð Íslandsmeistari annað árið í röð á nýafstöðnu tímabili.