[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Gunnar fæddist á Lindargötu 11 í Reykjavík, í timburhúsi sem afi hans festi kaup á árið 1907 og var í eigu fjölskyldunnar til 2015, en er nú gistihús á vegum RR-Hotels.

Kjartan Gunnar fæddist á Lindargötu 11 í Reykjavík, í timburhúsi sem afi hans festi kaup á árið 1907 og var í eigu fjölskyldunnar til 2015, en er nú gistihús á vegum RR-Hotels.

„Skuggahverfið var ótrúlega fjölbreytt í húsagerð og mannlífi á þessum árum. Flest húsin voru timburhús sem byggð voru á fyrstu 15 árum síðustu aldar. Þarna var auk þess slangur af hógværum nítjándu aldar steinbæjum og steinhús af ýmsum stærðum og gerðum. Skipulagsyfirvöld höfðu enn ekki steingelt umhverfið með vinkli og reglustiku. Lóðir voru misstórar og óreglulegar og þar ægði saman rekkverkum, bárujárnsgirðingum, skemmum, hjöllum, hrútakofum, dúfnakofum, snúrustaurum, portum, kálgörðum, hestagörðum og stórum trjágörðum. Vestast í hverfinu voru Þjóðleikhúsið, Safnahúsið og Arnarhvoll, en að öðru leyti var þetta blanda af íbúða- og verksmiðjuhverfi með tilheyrandi stanslausri veislu fyrir lyktarskynið frá gosdrykkjaverksmiðju, ölgerð, sultugerð og þremur sælgætisverksmiðjum. Þarna voru líka tvær eða þrjár prentsmiðjur og um 20 trésmíðaverkstæði. Loks ber að telja lífshættulegan en ómótstæðilegan leikvettvang okkar strákanna: þökin á Flosaskúrunum, Völundarportið, Landssmiðjuna, birgðastöð Pósts og síma, fjöruna niður af Skúlagötu og Höfnina, frá Ingólfsgarði og út í Örfirsey. Þessar bernskuslóðir buðu upp á endalausa kynjaheima og ævintýri með hetjunum okkar sem við sóttum í þrjúbíó á sunnudögum, þeim Roy Rogers, Lone Ranger, Tarzan, Hróa hetti og Zorró. Við fylgdumst með sauðfé slátrað hjá Sláturfélagi Suðurlands, átum hráar kartöflur og lauk niðri í Grænmetisverslun, kynntumst rónunum á Arnarhólnum, ráðherrunum í Arnarhvoli og fylgdumst með æfingum á leikritum á fjölum Þjóðleikhússins. Við ólumst upp í hringiðu samfélagsins en hún átti eftir að verða okkar merkasta akademía þegar fram liðu stundir.“

Kjartan Gunnar var í Miðbæjarskólanum, Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti, lauk stúdentsprófi frá MR og BA-prófi í heimspeki og sagnfræði frá HÍ. Hann starfaði við verslun föður síns, Kjartansbúð við Efstasund, á sumrin og með skóla, var háseti á sumrin á sanddæluskipunum Sandey og Perlunni 1972-80, var verslunarmaður við Kjartansbúð 1979-85, kennari við Héraðsskólann í Reykjanesi 1985-87, blaðamaður við DV 1987-2003 og 2006-2012, kennari og dagskrárgerðarmaður á útvarpi 2003-2006 og blaðamaður við Morgunblaðið 2012-2019.

Sem blaðamaður skipulagði Kjartan og sá lengst af um afmælis- og ættfræðiskrif DV og síðan Morgunblaðsins: „Við hófum ættfræðiumfjöllun á DV árið 1987 og hún varð fljótlega vinsælasta innblaðsefnið þar. Svipaða sögu er að segja frá Mogganum en þar deildi hún vinsældunum með minningargreinunum. Ég held að ég hafi skrifað um 20 þúsund afmælis- og ættfræðigreinar á ferlinum.“

Kjartan æfði og keppti í knattspyrnu með yngri flokkum KR, er einn af höfundum hundrað ára afmælisrits félagsins, ritstýrir nú sögu Fylkis, var einn af stofnendum Torfusamtakanna, sat í stjórn Heimdalls, var ritstjóri Stefnis, tímarits SUS, sat í stúdentaráði HÍ fyrir Vöku, starfaði í Félagi frjálshyggjumanna, sat í umhverfismálaráði Reykjavíkurborgar, í stjórn Félags sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi og var formaður Prýðifélagsins Skjaldar, hverfafélags Skerjafjarðar sunnan flugbrautar.

Fjölskylda

Kjartan kvæntist 15.8. 1986 Mörtu Guðjónsdóttur, f. 28.7. 1959, borgarfulltrúa. Hún er dóttir Guðjóns Andréssonar, f. 29.3. 1933, d. 13.5. 2011, ökukennara og forstjóra Bifreiðaprófa ríkisins, og k.h., Árnu Steinunnar Rögnvaldsdóttur, f. 5.5. 1932, d. 6.12. 2019, húsmóður.

Dóttir Kjartans Gunnars frá því áður er Perla Ósk Kjartansdóttir, f. 6.4. 1979, búfræðingur, gift Mahran Shweiki vélaverkfræðingi og eru börn Perlu Rúnar Lee Winship, 27.12. 2003, þjálfari, Monja S. Mahransdóttir, f. 14.6. 2011, og Amína S. Mahransdóttir, f. 22.7. 2016. Böm Kjartans og Mörtu eru Vilhjálmur Andri Kjartansson, f. 20.9. 1982, lögfræðingur og stjórnarformaður Igloo, kvæntur Þórunni Önnu Karlsdóttur heimilislækni, og Steinunn Anna Kjartansdóttir, f. 1.3.1984, félags- og tómstundafræðingur og meistaranemi við HÍ, gift Hallbirni Magnússyni leiðsögumanni og eru börn þeirra Vigdís Anna, f. 7.4. 2008, og Þórarinn, f. 3.3. 2011.

Systkini Kjartans Gunnars eru Vilhjálmur Þór, f. 28.12. 1943, verkfræðingur og fyrrv. lektor við HÍ; Magnús Rúnar, f. 7.6. 1946, leiðsögumaður; Anna, f. 4.11. 1949, fyrrv. forstöðumaður við Landsbankann; Ingibjörg Ósk, f. 17.2. 1957, leikskólakennari; Birgir, f. 16.3. 1962, vélvirki, og Sveinn Sigurður, f. 6.7. 1967, leiðsögumaður.

Foreldrar Kjartans Gunnars: Kjartan Magnússon, f. 15.7. 1917, d. 3.12. 1998, kaupmaður í Reykjavík, og k.h., Guðrún H. Vilhjálmsdóttir, f. 3.11. 1922, d. 2014, kennari og húsmóðir.