Ásmundur Guðmundsson fæddist í Reykjavík þann 18. mars 1956. Hann lést á heimili sínu 17. júní 2022.

Ásmundur var sonur Hrefnu S. Magnúsdóttur Kjærnested, húsfreyju, f. 28. mars 1926, d. 15. mars 1996, og Guðmundar Ásmundssonar, hæstaréttarlögmanns, f. 8. júní 1924, d. 15. ágúst 1965. Guðmundur lést í blóma lífsins og var öllum harmdauði sem þekktu hann. Ásmundur var ókvæntur og barnlaus.

Systkini Ásmundar eru: Steinunn, f. 1944, húsmóðir, maki Þengill Oddsson læknir, og Magnús, f. 1951, svæfingalæknir, maki Friðrikka Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Ásmundur gekk í Laugarnesskóla og fór ungur í lýðháskóla í Danmörku.

Eftir andlát föður síns bjó Ásmundur um tíma hjá Sigríði, föðursystur sinni og hennar fjölskyldu í Reykjavík og síðan hjá Magnúsi föðurbróður sínum og hans fjölskyldu á Akureyri, þar til Hrefna móðir hans hafði jafnað sig á sorginni og áfallinu við að missa Guðmund. Hrefna bar hag Ásmundar ávallt fyrir brjósti meðan hún lifði.

Ásmundur starfaði hjá Olíudreifingu, þar sem hann var vel liðinn og átti trygga vini og velunnara hjá félaginu.

Ásmundur talaði ensku og dönsku reiprennandi, hafði gott vald á íslensku og talaði fallegt mál. Hann var stálminnugur, fylgdist vel með heimsmálunum og hafði ávallt skoðun á þeim.

Útför Ásmundar fer fram í Fossvogskirkju í dag, 27. júní 2022, kl. 15.

Elsku Addi, mágur minn, kær vinur og skjólstæðingur er fallinn frá eftir löng og erfið veikindi. Það má segja að hann hafi verið búinn með sín 9 líf eftir allt sem á hann var lagt. Þærvoru ófáar, ferðirnar okkar upp á bráðadeild Landspítala. Tvær þeirra enduðu meira að segja hjá samstarfsfólki okkar Magga á skurðstofu, svæfingu og gjörgæslu, þar sem tvísýnt var um líf hans.

Addi hefur ávallt verið aufúsugestur hjá okkur Magga í Hlyngerðinu. Jólum og áramótum eyddum við saman og einu sinni lét hann til leiðast og mætti með okkur í áramótaboð á Skagann. Addi ákvað að fá sér að reykja, fór út í bílskúr, tók upp sígarettu og kveikti sér í. Þetta væri þó ekki í frásögur færandi nema hvað að í anda kvöldsins kveikti hann í með rokeldspýtu og bílskúrinn var fullur af flugeldum. Þar skall því heldur betur hurð nærri hælum!

Hann var líka einstaklega mikill matmaður og kjöt og bernaise var í sérstöku uppáhaldi. Hann var óspar á hrósyrði eins og að maturinn væri „crème de la crème“. Rjúpan og sherrýtrifle var iðulega „næstum jafngott og hjá mömmu“ enda var uppskriftin að sjálfsögðu fengin frá henni, því Addi lagði mikið upp úr því að halda fast í hefðirnar. Hundarnir okkar fögnuðu Adda líka alltaf ákaft þegar hann kom í heimsókn og þegar leið að matartíma voru þeir fljótir að taka sér stöðu við hliðina á honum við matarborðið, enda dýravinurinn Addi afar duglegur að gefa þeim með sér.

Björg saknar Adda frænda síns og minnist þess hlýlega hve barngóður hann var og alltaf tilbúinn að taka spil með henni þegar hún var yngri. Styrmir veit að Addi frændi dó af því að hann reykti svo mikið, enda fór það ekki fram hjá honum að Addi nýtti tímann alltaf vel milli rétta til að skjótast út að reykja. Styrmir tileinkaði svo Adda næsta leik á Norðurálsmótinu þar sem hann fór á kostum og skoraði þrennu.

Addi hringdi oft í mig á kvöldin til að rifja upp bænirnar með mér. Þetta voru dýrmæt samtöl sem mér þótti afar vænt um og farið var yfir margar bænir.

Síðustu ár voru Adda erfið. Hann átti dygga vini og vandamenn sem hann var í sambandi við og aðstoðuðu hann við ýmislegt.

Fyrir u.þ.b. 4-5 árum fór heilsu Adda hrakandi en þá hafði hann dvalið langdvölum á sjúkrahúsi. Þó athafnir daglegs lífs yrðu stöðugt að meiri og meiri áskorun fyrir hann og hann ætti erfitt með að sinna þeim, bjargaði hann sér samt alltaf einn heima hjá sér með aðstoð heimaþjónustunnar. Hann glímdi við kyngingarörðugleika eftir síðustu veikindi sín og hryggiktin sem hafði hrjáð hann fór stöðugt versnandi. Þrátt fyrir allt það var hann stórreykingamaður og tók ekki í mál að hætta, þrátt fyrir mikla hvatningu. Hann lifði lífinu algjörlega eftir eigin höfði fram á síðustu stund.

Að lokum langar mig að þakka hjúkrunarfólki og læknum á bráðamóttöku, skurð-, svæfingadeild og gjörgæslu Landspítala. Einnig fær starfsfólk heimahjúkrunar og heimaþjónustunnar kærar þakkir fyrir góða þjónustu og umburðarlyndi við elsku Adda minn.

Blessuð sé minning um góðan dreng.

Friðrikka.

Látinn er Ásmundur Guðmundsson, systkinabarn okkar. Addi, eins og hann alltaf var kallaður, missti föður sinn 9 ára gamall. Þótt Addi hafi verið mest hjá móður sinni, ólst hann líka upp með stórfjölskyldunni. T.d. bjó hann einn vetur hjá okkur á Akureyri, en Guðmundur, faðir Adda, var bróðir Magnúsar föður okkar. Addi bjó einnig hjá Siggu, föðursystur okkar Adda, í nokkur ár en hún var einkar natin við Adda. Hrefna Kjærnested, móðir Adda, hafði hjarta úr gulli og studdi Adda alveg þar til hennar naut ekki lengur við. Addi var einkar félagslyndur, var sífellt í heimsóknum hjá vinum sínum og frændfólki, t.d. mikið hjá föðursystrum sínum Ásu og Þóru. Addi vildi gjarnan ræða landsins gagn og nauðsynjar, hlustaði og lagði orð í belg. Framan af ævi hafði Addi mikinn áhuga á tónlist, skellinöðrum og amerískum sportbílum. Addi vann alltaf mikið og vantaði aldrei í vinnu. Hann fór einkar vel með fé. Hann átti líka fágæt eðalvín. Ekki er vitað til þess að dreypt hafi verið á þeim, hvorki hann né aðrir. Þegar Addi eltist, veiktist hann af hryggikt. Þrátt fyrir það vann Addi áfram í mörg ár. Hann virtist hafa með eindæmum háan sársaukaþröskuld. En hinn hái sársaukaþröskuldur var Adda ekki bara til blessunar. Það sprakk í honum botnlanginn og hann hálsbrotnaði án þess að hann kvartaði sem nokkru næmi. Hann var því kominn á heljarþröm þegar hann kom loksins á spítala. Síðustu árin, eftir að Addi var hættur að vinna og heilsan farin að bila, var farið að halla undan fæti. Hann hélt þó alltaf sambandi við vini og vandamenn, og þótt heimsóknunum fækkaði, sérstaklega í Covid, hélt hann alltaf símasambandi, oft daglega.

En nú hefur Addi fengið hvíldina. Við vottum Steinu og Magga og mökum þeirra, Rikku og Þengli, samúð okkar.

Sæmundur, Andrés, Jón og Ásmundur Magnússynir.

Nú er lífsgöngu Ásmundar Guðmundssonar lokið.

Addi, eins og við fjölskyldan kölluðum hann, var ætíð aufúsugestur á heimili okkar Magga, og voru miklir kærleikar með systkinabörnunum af Hraunteignum. Addi var drengur góður og frændrækinn, var fastur fyrir og gjarnan stríðinn og höfðu þeir frændur gaman af því að glettast saman, en aldrei bar þó skugga á.

Hann fylgdist vel með sjómannsferli Magga, leitaði frétta og frásagna af lífinu um borð í skipunum og í þeim borgum sem Fossarnir sigldu til. Hann hafði sjálfur gaman af því að ferðast meðan heilsan leyfði og minnist ég skemmtilegra daga okkar hjóna með honum í London. Þegar Maggi hætti til sjós og fór að vinna í landi, urðu samverustundirnar tíðari. Addi var dýravinur og naut stundanna með Gæa, hundinum okkar, og var ólatur að viðra hann ef svo bar undir.

Kristinn og Allý minnast laugardagskvöldanna með Adda. Hann mættur í steikina og á eftir, þegar við hjónakornin sátum við arineld og lásum Sunnudagsmoggann, gjarnan með Royal-kaffi, fór Addi með þau í ísbíltúr (á okkar bíl) sem oftast var auðsótt. Og margar eru skemmtilegar minningarnar sem við eigum. Addi kunni vel að meta góðan mat og ekki síður heimabakað bakkelsi, s.s. pönnukökurnar á sunnudögum. Árlega, í byrjun aðventu, minnti hann á að kominn væri tími á heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og nýbökuðum smákökum.

Hann fylgdist vel með veikindum Magga og upplifði sorgina með okkur fjölskyldunni við fráfall hans í júní árið 2002. En aldrei rofnuðu tengslin, hann hélt áfram að koma í Sefgarðana og fylgdist vel með litlu fjölskyldunni og barnabörnunum þremur. En svo fór að halla undan fæti hjá Adda. Ýmis veikindi og heilsuleysi fóru að hrjá hann, heimsóknum fækkaði en símtölum fjölgaði – nú verða þau ekki fleiri.

Við leiðarlok sendi ég systkinum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ásmundar Guðmundssonar.

Ásdís Kristinsdóttir.