Borgarstjórinn Vítalí Klitsjkó sér ekki fyrir endann á átökunum.
Borgarstjórinn Vítalí Klitsjkó sér ekki fyrir endann á átökunum. — Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær, á leiðtogafundi sjö helstu iðnríkja heims, að Vesturveldin yrðu að standa saman og að þau myndu ekki sundrast í afstöðu sinni til Rússlands, en leiðtogarnir ræddu þar hvernig hægt væri að þrengja enn frekar að...

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær, á leiðtogafundi sjö helstu iðnríkja heims, að Vesturveldin yrðu að standa saman og að þau myndu ekki sundrast í afstöðu sinni til Rússlands, en leiðtogarnir ræddu þar hvernig hægt væri að þrengja enn frekar að Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

Ætla iðnríkin sjö m.a. að banna kaup á gulli frá Rússum, en það er nú sagt önnur helsta tekjulind þeirra á eftir sölu á orkugjöfum. Þá er stefnt að því að setja verðþak á þá olíu sem keypt er frá Rússum.

Rússneska ríkið stefnir nú í greiðsluþrot, þar sem það hefur ekki getað greitt vexti af tveimur skuldabréfum sem eru á eindaga í dag. Er annað skuldabréfið í bandaríkjadölum en hitt í evrum, en verulegar takmarkanir hafa verið settar á getu Rússa til þess að nota þessa gjaldmiðla. Er þetta í fyrsta sinn frá því í októberbyltingunni 1917 sem ríkissjóður Rússlands stendur ekki í skilum við lánardrottna sína, en talið er að áhrifin af greiðsluþrotinu verði takmörkuð að svo stöddu.

Verulega brugðið við árásina

Rússar gerðu eldflaugaárásir á skotmörk vítt og breitt um Úkraínu í gær, og hæfðu fjórar þeirra höfuðborgina Kænugarð. Lentu þær á fjölbýlishúsi í íbúðahverfi og á leikvelli, en báðir staðir eru í nágrenni við vopnaverksmiðju í borginni.

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari búsettur í Kænugarði, segir í samtali við Morgunblaðið í dag, að sér hafi verið verulega brugðið við árásina, en þetta sé í fyrsta sinn í þrjár vikur sem höfuðborgin verði fyrir barðinu á eldflaugaárásum Rússa.

Að minnsta kosti einn lést í árásinni, og sagði Vítalí Klitsjkó, borgarstjóri Kænugarðs í gær að enn væri verið að grafa eftir fólki í rústum hússins. Þá sagðist hann ekki sjá neitt ljós við enda ganganna, því endalok stríðsins væru ekki í sjónmáli. Segir Óskar enn fremur að íbúar Kænugarðs reyni að halda í vonina, en svo kæmi svona árás sem drægi fólkið aftur í stríðið.