HIMARS Eldflaugakerfið HIMARS, sem hér sést á æfingu í Marokkó 2019, er nú komið í notkun hjá Úkraínumönnum og eru vonir bundnar við það.
HIMARS Eldflaugakerfið HIMARS, sem hér sést á æfingu í Marokkó 2019, er nú komið í notkun hjá Úkraínumönnum og eru vonir bundnar við það. — AFP/
Tómas Arnar Þorláksson Stefán Gunnar Sveinsson Rússar skutu fjölda eldflauga á skotmörk víðs vegar um Úkraínu í gær, þar á meðal á höfuðborgina Kænugarð, þar sem íbúðablokk og leikskóli urðu fyrir eldflaugum Rússa.

Tómas Arnar Þorláksson

Stefán Gunnar Sveinsson Rússar skutu fjölda eldflauga á skotmörk víðs vegar um Úkraínu í gær, þar á meðal á höfuðborgina Kænugarð, þar sem íbúðablokk og leikskóli urðu fyrir eldflaugum Rússa.

Var það í fyrsta sinn í um þrjár vikur sem Kænugarður varð fyrir árásum Rússa. Þær voru gerðar á sama tíma og leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims funduðu í Elmau-kastala í þýsku Ölpunum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti þar ríkin sjö, ásamt öðrum ríkjum á Vesturlöndum, til þess að treysta enn frekar samstöðu sína gegn innrás Rússa í Úkraínu. Á fundinum var meðal annars ákveðið að ríkin ætluðu að banna innflutning á gulli frá Rússlandi, en einnig var rædd sú hugmynd að sett yrði verðþak á olíu, til að reyna að takmarka þann hagnað sem Rússar hafi af sölu eldsneytis til annarra ríkja.

Biden sagði á fundinum að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði vonast til þess að Atlantshafsbandalagið og G7-ríkin liðuðust í sundur eftir innrásina en að það hefði ekki gerst og að það myndi ekki gerast.

Olaf Scholz, Þýskalandskanslari og gestgjafi fundarins, tók í sama streng og hrósaði samhug Vesturlanda, sem Scholz sagði að Pútín hefði aldrei séð fyrir. Sagði Scholz að auki að ríkin sjö þyrftu að deila þeirri sameiginlegu ábyrgð sem fylgdi því að takast á við erfiðleika af völdum innrásarinnar.

Óska enn eftir hergögnum

Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, hvatti leiðtogana fyrir fundinn til þess að þrengja enn frekar að Rússum með viðskiptaþvingunum, auk þess sem hann óskaði eftir því að Úkraína fengi frekari stuðning í formi hergagna.

„Við verðum að brjóta á bak aftur sjúka heimsvaldastefnu Rússa,“ sagði Kúleba. Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, mun taka þátt í ráðstefnunni í gegnum fjarfundarbúnað í dag. Er reiknað með því að Selenskí muni ítreka kröfur sínar um frekari stuðning í formi hergagna á fundinum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, og Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, funduðu í gær tveir einir á „hliðarlínu“ leiðtogafundarins í Elmau-kastala. Sögðu þeir að nú væri tækifæri til að snúa við gengi styrjaldarinnar, Úkraínumönnum í vil, en þeir þurftu um helgina að hörfa frá borginni Severodonetsk, sem harðir bardagar hafa staðið um síðustu vikurnar.

Sagði Johnson á fundinum með Macron að allar tilraunir til að að binda endi á stríðið nú, myndu valda frekari óstöðugleika, þar sem hættan væri sú að þar með yrði Pútín gefið leyfi til þess að ráðskast með bæði fullvalda ríki og alþjóðlega markaði um ókomna tíð.

Johnson hefur neitað að ræða við Pútín eftir að innrásin hófst, ólíkt Macron, sem hefur átt nokkur símtöl við forsetann.

Binda vonir við HIMARS

Eitt af því sem bundnar eru vonir við að geti hjálpað Úkraínumönnum að snúa við blaðinu í styrjöldinni, er bandaríski eldflaugavagninn HIMARS, en Valerí Salúshní, yfirmaður herráðs Úkraínu, staðfesti í gær að Úkraínumenn væru þegar farnir að beita honum á vígvellinum.

„Stórskotaliðsmenn Úkraínuhers hittu viss skotmörk með mikilli hæfni, hernaðarskotmörk óvinarins á okkar, úkraínsku, landsvæði,“ sagði Salúshní á samskiptamiðlinum Telegram. Eitt af þeim skilyrðum sem Úkraínumenn urðu að gangast undir, áður en þeir fengu vopnakerfið afhent, var að það yrði ekki notað til árása á rússneskt landsvæði.

Bandaríkjamenn hafa þegar látið Úkraínumenn fá fjóra slíka eldflaugavagna, en greint var frá því fyrir helgi að þeir hyggist senda fleiri slíka, en þá var tilkynnt um að Bandaríkin myndu senda hergögn, sem metin eru á um 450 milljónir bandaríkjadala, til Úkraínu.

Verður þá heildarverðmæti þeirrar hernaðaraðstoðar sem Bandaríkjamenn hafa veitt, orðið um sex milljarðar bandaríkjadala í heildina, eða sem nemur tæpum 810 milljörðum íslenskra króna.

HIMARS er skammstöfun sem stendur fyrir High Mobility Artillery Rocket System. Það vísar til þess að eldflaugakerfið er mjög hreyfanlegt, en það er sett upp á brynvörðum bíl sem er með sex hjól.

Það sem helst sker HIMARS-kerfið frá öðrum slíkum er að það er langdrægara en samsvarandi eldflaugakerfi Rússa. Þau skotfæri sem Úkraínumenn hafa fengið fyrir vagnana geta drifið um 65 kílómetra, á meðan þeir eldflaugavagnar, sem Rússar hafa helst beitt í Úkraínu, ná lengst 45 km.

Þá þykir HIMARS nákvæmara í notkun en þau eldflaugakerfi sem Rússar beita og verður hlutverk þess því að reyna að skjóta út eldflaugakerfi Rússa, án þess að verða skotin til baka, og létta þar með áþeirri stórskotahríð sem Rússar hafa helst beitt fyrir sig í orrustunni um Donbas til þessa.