Stormtríóið Marius Berglund, Kristina Farstad Bjørdal og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir skemmta gestum í Stykkishólmi um næstu helgi.
Stormtríóið Marius Berglund, Kristina Farstad Bjørdal og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir skemmta gestum í Stykkishólmi um næstu helgi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Stormtríóið, sem Norðmennirnir Marius Berglund og Kristina Farstad Bjørdal skipa, auk Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur, verður sérstakur gestur á Landsmóti harmonikuunnenda, sem verður í Stykkishólmi um næstu helgi, 30. júní til 3. júlí. „Við gerum ráð fyrir um 400 gestum frá tíu íslenskum harmonikufélögum og einu félagi frá Fuglafirði í Færeyjum,“ segir Friðjón Hallgrímsson, formaður Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, sem sér um mótshaldið fyrir hönd Sambands íslenskra harmonikuunnenda.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Stormtríóið, sem Norðmennirnir Marius Berglund og Kristina Farstad Bjørdal skipa, auk Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur, verður sérstakur gestur á Landsmóti harmonikuunnenda, sem verður í Stykkishólmi um næstu helgi, 30. júní til 3. júlí. „Við gerum ráð fyrir um 400 gestum frá tíu íslenskum harmonikufélögum og einu félagi frá Fuglafirði í Færeyjum,“ segir Friðjón Hallgrímsson, formaður Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, sem sér um mótshaldið fyrir hönd Sambands íslenskra harmonikuunnenda.

„Frá fjórða landsmótinu, sem var á Laugum í Reykjadal 1990, hefur verið boðið upp á sérstaka snillingatónleika, þar sem einstaklingar hafa leikið listir sínar en nú bjóðum við upp á sérstaka blöndu,“ heldur Friðjón áfram. Hann bætir við að sérstaða tríósins sé sú að þau leiki sígild verk og leggi mikið upp úr því að leika fyrir dansi.

Allt er þegar þrennt er

Fyrsta landsmótið var haldið 1982 og það næsta tveimur árum síðar en síðan hafa þau verið á þriggja ára fresti. „Við ætluðum að halda landsmótið í Stykkishólmi 2020 en urðum að fresta því tvisvar vegna Covid,“ segir Friðjón. Hann segir ekki auðvelt að velja mótsstað, því þátttakendur þurfi að vera í göngufæri frá gististaðnum að samkomuhúsinu. „Reglan er að halda landsmót þar sem mótshaldarar starfa en ekki er hægt að halda það í Reykjavík. Flestir þátttakendur halda til í viðhengjum, sem þeir draga með sér á mótsstað, og því er úr vöndu að ráða. Þess vegna fórum við með það í Hólminn. Þar er stutt til allra átta og allt í göngufæri.“

Tónleikarnir verða í íþróttahúsinu í Stykkishólmi föstudag og laugardag og síðan verður slegið upp balli bæði kvöldin. „Hljómsveitir félaganna spila á tónleikunum og fulltrúar þeirra leika fyrir dansi á kvöldin,“ segir Friðjón. „Landsmótið er tileinkað Hafsteini Sigurðssyni, sem starfaði lengi sem tónlistarkennari og harmonikuleikari í Stykkishólmi.“

Félagsstarfsemi harmonikuunnenda er öll að færast í eðlilegt horf. Árlega eru haldin mót á Laugarbakka í Miðfirði, aðra helgina í júní, á Steinsstöðum í Skagafirði um Jónsmessuna, en því var frestað í ár, í Ýdölum í Aðaldal síðustu helgina í júlí og á Borg í Grímsnesi um verslunarmannahelgina. „Ég náði mér í kvef og hálsbólgu á mótinu í Miðfirði, fór í Covid-próf og greindist með veiruna en fékk röddina á ný og bíð spenntur eftir því að fara í Hólminn.“

Friðjón fór á eftirlaun 2013 en byrjaði fljótlega aftur að vinna. „Ég vann smávegis 2015, '16 og '17, hljóp undir bagga þegar á þurfti að halda hjá Slippfélaginu, en nú er ég hættur öllu. Líka sem ritstjóri Harmonikublaðsins eftir tíu ár sem slíkur, kláraði jólablaðið í fyrra og síðan tók Sigurður Ólafsson á Sandi II í Aðaldal við ritstjórninni í vor.“

Harmonikan hefur verið helsta áhugamál Friðjóns í nær hálfa öld eða frá því skömmu eftir að hann kvæntist. „Eitt af því fyrsta sem ég gerði, eftir að ég byrjaði að búa 1972, var að gerast áskrifandi að Mogganum og skömmu síðar byrjaði ég að spila á harmoniku, en þetta þrennt, fjölskyldan, Mogginn og nikkan, hefur fylgt mér alla tíð síðan.“