Þrenna Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þrennu fyrir KA í öruggum 4:1-sigri liðsins á Fram í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær.
Þrenna Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þrennu fyrir KA í öruggum 4:1-sigri liðsins á Fram í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarinn Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Sextán liða úrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins, hófust í gær með fimm leikjum. KA, KR, Ægir, FH og HK tryggðu sér öll sæti í fjórðungsúrslitum bikarsins.

Bikarinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Sextán liða úrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins, hófust í gær með fimm leikjum. KA, KR, Ægir, FH og HK tryggðu sér öll sæti í fjórðungsúrslitum bikarsins.

Leikur KA og Fram var eina viðureignin þar sem tvö Bestu deildar-lið áttust við og vann KA öruggan 4:1-sigur á Akureyri. Strax á fjórðu mínútu komst Ásgeir Sigurgeirsson inn í slaka sendingu til baka, ætlaða Ólafi Íshólm Ólafssyni í marki Fram og Ásgeir féll eftir viðskipti við Ólaf. Nökkvi Þeyr Þórisson steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi. Undir lok fyrri hálfleiks krækti Ásgeir í aðra vítaspyrnu, í kjölfar annarra varnarmistaka hjá Fram. Hosine Bility felldi hann þá og fékk beint rautt spjald fyrir að ræna Ásgeir upplögðu marktækifæri. Aftur steig Nökkvi á vítapunktinn og aftur skoraði hann af gífurlegu öryggi.

Einum færri voru Framarar ansi sprækir framan af síðari hálfleik og fengu vítaspyrnu um hann miðjan þegar Þorri Mar Þórisson felldi Tryggva Snæ Geirsson innan vítateigs. Guðmundur Magnússon skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. Nökkvi Þeyr fullkomnaði hins vegar þrennu sína á 80. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sendingu Hallgríms Mars Steingrímssonar, sem skoraði sjálfur fjórða markið skömmu síðar.

Bestu deildar-lið KR lenti í stökustu vandræðum með 2. deildarlið Njarðvíkur suður með sjó en hafði að lokum nauman 1:0-sigur. Sigurmarkið skoraði Færeyingurinn Hallur Hansson með glæsilegu skoti á 84. mínútu.

Óvæntustu úrslitin komu í Þorlákshöfn, þegar 2. deildarlið Ægis gerði sér lítið fyrir og sló 1. deildarlið Fylkis út með minnsta mun, 1:0. Sigurmarkið kom í uppbótartíma og það skoraði Ágúst Karel Magnússon.

Bestu deildar-lið FH lenti ekki í neinum vandræðum með 2. deildar-lið ÍR og vann 6:1. Björn Daníel Sverrisson skoraði tvívegis fyrir FH og Guðmundur Kristjánsson, Baldur Logi Guðlaugsson, Steven Lennon og Máni Austmann Hilmarsson eitt mark hver. Már Viðarsson skoraði mark ÍR.

HK úr 1. deild gjörsigraði svo Dalvík/Reyni úr 3. deild. Gestirnir að norðan náðu að halda út í fyrri hálfleik og var staðan markalaus í leikhléi. Í síðari hálfleik opnuðust hins vegar flóðgáttir, þar sem HK var komið í 2:0 eftir sjö mínútna leik í hálfleiknum með mörkum frá Hassan Jalloh og Örvari Eggertssyni. Um miðjan síðari hálfleik kom Stefán Ingi Sigurðarson, lánsmaður frá Breiðabliki, inn á sem varamaður, gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur mörk áður en yfir lauk og tryggði þannig 6:0-stórsigur.