Jörvar Bremnes fæddist á Búlandsnesi í S-Múlasýslu 8. september 1936. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. júní 2022.

Foreldrar Jörvars voru Svanborg Ingvarsdóttir, húsmóðir frá Akureyri, f. 1896, d. 1981, og Jóhann Bremnes, verslunarmaður og bóndi, frá Bremsvol í Stadt í Noregi, f. 1894, d. 1950. Þau hófu búskap sinn á Búlandsnesi í S-Múlasýslu.

Systkini hans eru: Pernille G. Bremnes, f. 1930, d. 2017, Vilborg Jóhanna Bremnes Ísberg, f. 1932, og Ingvar Bremnes, f. 1933, d. 1936.

26. desember 1963 giftist Jörvar Guðrúnu Helgu Leifsdóttur, f. 5. september 1945. Foreldar hennar voru Helga Pálsdóttir húsmóðir og Leifur Helgason bifreiðarstjóri, Eskifirði. Jörvar og Guðrún hófu búskap sinn í Hlíð og síðar í Fögruhlíð 2, Eskifirði. Byggðu þau hús í Dvergholti 24 í Mosfellsbæ og fluttu þangað 2004.

Börn Jörvars og Guðrúnar eru: 1) Jóhann Bremnes, f. 27. ágúst 1963, 2) Leifur Bremnes, f. 25. apríl 1969, eiginkona Grazyna Tyka, börn Grazynu: Elzbieta Mazur og Agnieszka Tyka, 3) Ingvar Bremnes, f. 31. október 1973, sambýliskona Chunliang Tao, barn Chunliang: Eric Tao.

Jörvar ólst upp á Búlandsnesi við Djúpavog fram til 1945 en þá fluttist fjölskyldan að Digranesbletti 32, síðar Digranesvegi 54 í Kópavogi. Jörvar stundaði nám við barnaskólann á Djúpavogi. 1963 tók hann meiramótorvélstjórapróf og bætti síðar við sig námi í Vélskóla Íslands. Jörvar var mjög handlaginn og fjölhæfur og starfaði hann við ýmis störf, bæði til sjós og lands, svo sem vélstjóri á ýmsum skipum, að viðgerðum og breytingum á trefjaplastbátum, bryggjusmíði og sem verksmiðjustjóri hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar.

Útför Jörvars verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 27. júní 2022 og hefst athöfnin kl. 15.

Húsið númer fimmtíu og fjögur við Digranesveg byggði sér fjölskylda, sem flust hafði í Kópavog austan frá Búlandsnesi við Djúpavog í lok síðari heimsstyrjaldar. Þar bjuggum við systkinin fyrstu bernskuárin, yngst fjögurra kynslóða undir sama þaki, andspænis Gagnfræðaskólanum, því mannvirki sem nú hýsir Menntaskólann í Kópavogi.

Jörvar frændi var hluti af heimsmyndinni. Hann var litli bróðir móður okkar og sögurnar sem af honum fóru lýstu honum sem glaðsinna prakkara, eins og þegar hann reiknaði út fyrir ömmu sína hversu mikinn hafragraut gamla konan hefði borðað á lífsleiðinni. Hún fékk sér graut á hverjum morgni en svo brá við að hún steinhætti að borða hafragraut eftir þessa útreikninga. Hann var einlægur dýravinur. Að honum löðuðust öll dýr og í uppvextinum heyrðum við af Jobba og hundinum Hæ, sem og þegar hann fór með allar mýsnar sínar innanklæða í ferðalag og vakti víst litla kátínu samferðafólksins. Þannig mætti áfram telja.

Uppátækjasamur, drátthagur, lausnamiðaður og skapandi í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Víst er að glens og gleði fylgdi þessum ævintýralega frænda okkar þegar hann kom á Digranesveginn og síðar á Hrauntunguna. Hvernig mátti annað vera? Hann var mótorhjólatöffari, sjómaður og vélstjóri, var svo handlaginn að flest lék í höndum hans og hann hafði lent í alls konar háska.

Hann kynntist Gunnu sinni, sem var Eskfirðingur, og þar settust þau að. Þau eignuðust þrjá stráka, sem hafa notið góðs af margvíslegum hæfileikum föður síns. Það var ævinlega gaman þegar þau komu í heimsókn í bæinn. Það var eins og tíminn hægði á sér og amstur hversdagsins hyrfi þegar setið var við eldhúsborðið og rætt um allt milli himins og jarðar. Það er ekki á allra færi að skapa slíkar stundir og stemmingu en eftirminnilegar eru þær. Heimili þeirra stóð öllum ættingjum opið og gestristni þeirra var viðbrugðið. Leið nokkurra systrasona hefur legið til þeirra í lengri eða skemmri tíma og minnast þeir frænda síns sem þúsundþjalasmiðs sem allir leituðu til. Honum var lagið að sjá leiðir sem öðrum voru huldar.

Síðustu tæpa tvo áratugi hafa Jörvar og Gunna búið í Mosfellsbæ, eftir fjörutíu og fjögurra ára búsetu á Eskifirði, í húsi sem þau reistu sér löngu áður en þau fluttu í bæinn. Samrýmdari hjón en þau er erfitt að finna, létt lund og gleði ávallt í fyrirrúmi. Allra síðustu ár átti Jörvar við vanheilsu að stríða en bjó heima fram til hins síðasta.

Við þökkum Jörvari frænda samfylgdina. Gunnu, Jóa, Leifi, Ingvari og fjölskyldum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Svanborg (Svana), Jóhann, Árni, Ásta, Ari, Guðrún (Gunna) og Ævar.