Magnús Gunnar Pálsson fæddist 18. september 1945 í Reykjavík. Hann lést á Spáni 4. júní 2022.

Foreldrar hans voru Páll Magnússon, pípulagningarmeistari, f. 20.12. 1922, d. 21.8. 1995 og Fríða Helgadóttir, húsmóðir, f. 30.8. 1923, d. 22.6. 2010.

Magnús var elstur í hópi 7 systkina, en systkini hans eru: Bertha Steinunn, f. 1947; Sigurður, f. 1948; Svavar, f. 1954; Helgi, f. 1957; Málfríður Ágústa, f. 1959 og Páll Garðar, f. 1962.

Magnús Gunnar giftist 12. apríl 1969 Þóru Jóhönnu Óskarsdóttur Hólm, bókasafnsfræðingi, f. 10.12. 1945, d. 12.11. 2012. Foreldrar hennar voru Sigurður Óskar Friðbjarnarson Hólm, f. 30.4. 1913, d. 2.1. 1958, og Oddný Einarsdóttir Hólm, f. 20.10. 1921, d. 13.12. 1986.

Sonur Magnúsar og Þóru er Karl Óskar Magnússon, viðskiptafræðingur, f. 29.11. 1968. Eiginkona hans er Guðný Bjarnarsdóttir, viðskiptafræðingur, f. 2.3. 1960. Börn þeirra eru Þóra Margrét, f. 18.10. 1998 og Magnús Gunnar, f. 21.1. 2002.

Magnús bjó við Skipholt í Reykjavík til 20 ára aldurs og gekk í Laugarnesskóla. Hann lauk gagnfræðaprófi árið 1962. Eftir skólagönguna vann hann m.a. í síld á Seyðisfirði. Á yngri árum var Magnús í sveit að Innri-Skeljabrekku í Borgarfirði í nokkur sumur.

Haustið 1962 varð Magnús háseti á togaranum Skúla Magnússyni og sigldi hann þá m.a. á Nýfundnalandsmið. Hann varð síðar háseti á millilandaskipum, mest á skipum Sambandsins. Síðar vann hann m.a. við vélaviðgerðir.

Í ársbyrjun 1966 hóf Magnús nám í flugvirkjun við Spartan School of Aeronautics í Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum. Lauk hann náminu árið 1967 og starfaði nánast alla tíð sem flugvirki eftir það.

Hann vann um tíma við flugvélaviðgerðir árið 1968 í Frankfurt í Þýskalandi. Í ársbyrjun 1969 hóf hann störf hjá Loftleiðum og vann þar til 1972. Hann vann hjá Landhelgisgæslunni á árunum 1972-1975, síðan hjá flugfélaginu Vængjum árin 1977-1980. Frá árinu 1980 vann hann hjá Flugleiðum, fyrst á Reykjavíkurflugvelli en síðar í viðhaldsmiðstöð Flugleiða í Keflavík, allt til starfsloka árið 2013.

Magnús og Þóra byggðu sér sumarbústað undir Brekkufjalli, í landi Ytri-Skeljabrekku í Borgarfirði, árið 1991. Bústaðinn nefndu þau Brekkukot og undu þau þar hag sínum vel, m.a. við skógrækt. Eftir starfslokin hjá Flugleiðum hélt Magnús mikið til á Spáni yfir vetrartímann, en kom alltaf heim á sumrin og dvaldi þá oft í Brekkukoti.

Magnús hafði mikla ánægju af hestamennsku og átti um árabil hesta sem hann hélt í hesthúsahverfinu Fjárborg ofan við Reykjavík. Á tímabili var hann einnig með kindur í Fjárborginni.

Magnús og Þóra hófu að stunda golf um miðjan aldur og spiluðu mikið á sumrin. Var þá oftast spilað á golfvellinum í Borgarnesi, en þau voru félagar í Golfklúbbi Borgarness.

Magnús gekk í Frímúrararegluna í Reykjavík árið 1992 og var þar félagi til æviloka.

Útför Magnúsar verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju, mánudaginn 27. júní, kl. 13.

Ástkær faðir minn er nú fallinn frá, eftir erfið veikindi. Að leiðarlokum er margs að minnast frá viðburðaríkri ævi. Má þar t.d. nefna ferðalögin, sem við fjölskyldan fórum í með honum og mömmu, samverustundirnar í bústaðnum þeirra, hestamennskuna, golfið og hina ýmsu mannfagnaði. Barnabörnin nutu þess sérstaklega að umgangast afa sinn og ömmu og eiga góðar minningar frá því sem þau tóku sér fyrir hendur saman.

Pabbi var sannkallaður þúsundþjalasmiður. Hann gat gert við flest það sem bilaði á heimilinu eða í bílaflota fjölskyldunnar. Ég man vel eftir því þegar ég var að þvælast með honum á viðgerðarverkstæðum bæjarins, í þá daga þegar menn gátu sjálfir komið með bíla sína og fengið aðstöðu til bílaviðgerða. Pabbi var einnig ágætur smiður, þó sjálflærður væri á þeim vettvangi. Hann hafði mikið yndi af því að dunda sér við smíðar í sumarbústað fjölskyldunnar. Hann var af iðnaðarmönnum kominn og á unga aldri vann hann með afa við að leggja pípulagnir í Borgarspítalanum í Fossvogi. Pabbi fór ungur út til náms í flugvirkjun í Tulsa í Oklahoma og starfaði svo við flugvirkjun nánast alla sína starfsævi. Það verður mikill missir að þessum högu höndum og óvíst hvernig fer með allt smádútl og viðgerðir sem sinna þarf hjá afkomendum hans framvegis.

Pabbi hafði alltaf eitthvað fyrir stafni og á miðjum aldri fóru hann og mamma að stunda golfið af miklum áhuga. Þeirra helsta áhugamál hin síðari ár var þó sumarbústaðurinn Brekkukot, sem þau byggðu sér í Borgarfirðinum árið 1991. Þar undu þau sér einstaklega vel við gróðursetningu. Öll þau tré og hríslur sem þar er að finna í dag gróðursettu þau af mikilli natni.

Pabbi og mamma voru einstaklega samrýmd alla tíð og gerðu flesta hluti saman, hvort sem það var að lesa bækur, ráða krossgátur, horfa á sjónvarpið, spila golf eða gróðursetja.

Það eina sem pabbi var í „út af fyrir sig“ var hestamennskan, en ég man varla eftir að hafa séð mömmu á hestbaki. Pabbi hafði yndi af hestamennsku og var lengi með hesta ásamt föðurbróður sínum og frændfólki í Fjárborg ofan við Reykjavík. Þar hélt hann einnig kindur um tíma og hafði gaman af. Ég, og síðar börnin mín, vorum oft að stússast með honum í hesthúsinu. Pabbi var félagslyndur alla tíð og árið 1992 gekk hann í Frímúrararegluna í Reykjavík.

Þegar mamma dó, fyrir tæpum 10 árum síðan, var mikið frá pabba tekið. Eftir að starfsævinni lauk hélt hann mikið til á Spáni yfir vetrartímann og stundaði þar golf og gönguferðir í hópi annarra Íslendinga á svæðinu á meðan heilsan leyfði, en kom alltaf heim til Íslands á sumrin.

Pabba þótti vænt um alla sína ættingja og vini og barnabörnin hans tvö og tengdadóttir áttu alltaf sérstakan stað í hjarta hans.

Elsku pabbi, hvíldu í friði. Minningin um þig mun dvelja í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Karl Óskar

Magnússon.

Ég og afi áttum alltaf sérstakt samband. Hann var í miklu uppáhaldi hjá okkur tveimur barnabörnunum hans. Þegar ég var yngri fór ég mikið með honum upp í hesthús, þar sem við stússuðumst mikið og fórum í útreiðartúra. Hann kom mér rækilega á óvart með því að gefa mér óvænt hest þegar ég fermdist. Það var einmitt hans karakter, honum fannst gaman að koma okkur barnabörnunum á óvart. Í eitt skipti, þegar ég nefndi að mig langaði til London, tók hann sig til og pantaði ferð fyrir okkur út að skoða borgina. Afi vildi nefnilega allt fyrir okkur gera. Mestu gæðastundirnar okkar saman voru líklega uppi í sumarbústað, þar sem okkur fannst báðum afar notalegt að vera. Þar höfðu hann og amma komið sér vel fyrir og þar var gaman að stússast með honum, bæði við bústaðinn og lóðina. Undanfarin ár var afi búsettur á Spáni á veturna. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að heimsækja hann þangað. Þar vorum við í tæpar tvær vikur, bara tvö að njóta og hann að sýna mér allt það besta sem svæðið hefur upp á að bjóða. Ég er þakklát fyrir að hafa haft þennan frábæra karakter við hlið mína öll mín uppvaxtarár og það eru svo sannarlega góðar minningar sem ylja á þessum tímum. Ég læt fylgja með lítið ljóð sem mér finnst einkar viðeigandi og minnir mig á þig.

Afi minn og amma mín

úti' á Bakka búa.

Þau eru bæði sæt og fín,

þangað vil ég fljúga.

(Höf. ók.)

Þitt barnabarn og vinur,

Þóra Margrét.

Í bernskuminningunni var alltaf bjart og fjörugt í stórum systkinahópi sem ólst upp í Kringlumýrinni, þá í útjaðri Reykjavíkur. Foreldrar okkar, Páll Magnússon og Fríða Helgadóttir, hófu búskap í Höfn við Kringlumýrarveg, Skipholt 62, hjá foreldrum hans en byggðu síðar eigið húsnæði við Skipholt 64. Á sautján árum eignuðust þau sjö börn; fimm syni og tvær dætur. Magnús Gunnar var elstur, fæddur 1945, og sá yngsti fæddist árið 1962, sama ár og Reykjavík varð borg.

Þegar yngsta barnið staulaðist sín fyrstu skref, var Maggi að því kominn að standa á eigin fótum og stofna heimili. Þrátt fyrir árabilið milli þeirra elstu og yngstu urðum við, strax sem krakkar, samrýmd og góð systkini.

Eins og gengur fengum við að fara í sveit á sumrin. Maggi fór upp í Borgarfjörð og hélt eftir sumardvölina góðu sambandi við fólkið þar og fékk áratugum síðar skika undir sumarbústað í gömlu sveitinni sinni.

Við krakkarnir áttum þess einnig kost að fara í bústað, sem pabbi byggði við Meðalfellsvatn í Kjósinni. Mamma hélt þar til mörg sumur með krakkaskarann, sem gekk nánast sjálfala um sveitina.

Loftleiðir hófu reglulegt Ameríkuflug árið 1960. Flugið var óskaplega spennandi og heillaði Magga, sem hélt til Bandaríkjanna í flugvirkjanám og varð algjör töffari í okkar augum. Hann starfaði við flugið alla sína starfsævi og ferðaðist í þágu starfsins víða um heim.

Maggi kynntist Þóru J. Hólm, einstaklega hugljúfri stúlku, þegar þau voru aðeins 16 ára gömul. Hann kláraði flugvirkjann og hún menntaskólann og síðar bókasafnsfræði. Þau hófu búskap í foreldrahúsum, eignuðust soninn Karl Óskar og festu sér síðan eigið húsnæði.

Árin liðu hratt, hópurinn í kringum okkur systkinin stækkaði eftir því sem makar og börn bættust við. Alltaf var jafn gaman að koma saman og mikið fjör og ekki síður þegar stórfjölskyldan hittist, enda frændræknin mikil.

Börnin okkar urðu fullorðin; Karl Óskar, stoð og stytta foreldranna, kynnti þeim sína yndislegu Guðnýju Bjarnarsdóttur og varð hún þeim afar hjartfólgin. Fyrr en varði voru barnabörnin mætt til leiks; Þóra Margrét árið 1998, Magnús Gunnar 2002 og afinn og amman nutu þessa nýja hlutverks innilega.

Það er til eftirbreytni hve samtaka Maggi og Þóra voru alla tíð, ræktuðu sumarbústaðarlandið, ferðuðust innanlands sem utan, iðkuðu golf og réðu krossgátur. Mörg jólin lögðum við fyrir þau myndagátur sem við höfðum strandað á og treystum að þau hefðu lausnina.

Fyrir áratug lést Þóra. Það tók mjög á Magga, hann stóð keikur en varð aldrei samur.

Maggi var hávaxinn og grannur, með þykkt hár sem gránaði upp úr tvítugu. Hann var áhugasamur um bíla og bílaíþróttir, fylgdist með boltanum og golfurum etja kappi. Hann las alla tíð mikið og viðhélt þannig enskukunnáttunni. Maggi var í senn félagslyndur og hæglátur. Hann vildi allt fyrir alla gera og var gjöfull á sig og tíma sinn.

Hann auðsýndi okkur ávallt þann kærleik sem einkenndi hann, sem og mökum okkar, börnum og barnabörnum. Við kveðjum okkar stóra bróður með þakklæti fyrir samfylgdina.

F.h. okkar systkinanna,

Helgi Pálsson.

Nú kveð ég Magnús Gunnar Pálsson, Magga frænda. Maggi var elsta barnabarn Svövu ömmu og ég þaðyngsta. Maggi var ekki bara frændi minn, heldur líka vinur. Þessi vinátta byggðist upp í kringum dýrahald en Maggi hélt hross og kindur með okkur fjölskyldunni upp í Fjárborg til fjölda ára. Um Hólmsheiðina riðum við út á fleygiferð eftir mjúkum moldargötum. Það var stemming. Hann á Goða, hvítum gæðingi, og síðar á Faxa, móvindóttum klár, sem ekki var síðri. Ófáar ferðir fórum við saman að hausti í smalamennsku á Hellisheiðina að sækja kindurnar okkar. Auk þess fórum við saman í hestaferðalög á sumrin og man ég hvað hann naut sín á Faxa sínum þegar við fórum í Borgarfjörðinn árið 2015.

Það var alltaf gott að vera með Magga frænda, hann var svo hjálpsamur og einstakt ljúfmenni. Síðast hitti ég Magga á þorranum þegar við snæddum saman þorramat í góðra vina hópi. Þá var hann orðinn þreyttur og veikindin farinn að sækja stíft á hann. Hann lét engu að síður vel af sér en hugur hans stefndi til Spánar í sólina.

Blessuð sé minningin um Magga frænda.

Anna Lísa

Guðmundsdóttir.

Maggi vinur minn Páls hefur nú lokið þessari jarðvist eftir langa og snarpa baráttu við erfiðan sjúkdóm. Í því stríði naut hann meðfæddra bandamanna sinna, æðruleysisins og karlmennskunnar sem og ómetanlegs liðsinnis ástvina sinna, vandamanna og vina.

Við áttum gott samstarf á Tæknideild Flugfélags Íslands, Flugleiða/Icelandair í um það bil hálfa öld. Hann var afburðafagmaður í fluginu enda voru honum falin trúnaðarstörf þar frá fyrstu tíð. Þeir voru ófáir er gengu á hans fund til að njóta leiðsagnar og fagmennsku og oft var veganestið þetta: „Eitthvað sem ég get gert fyrir þig, elskan mín?“ Annað orðatiltæki Magga er minnisstætt þá er hann var sammála viðmælanda sínum: „Seeegðu.“

Á Flugfélags Íslands-árunum á Reykjavíkurflugvelli var oft glatt á hjalla hjá samhentum hópi starfsfélaga og þá veitti Maggi forstöðu verkstæði er sérhæfði sig í viðhaldi og eftirliti á lendingarbúnaði vélanna og þar var hann kóngur í ríki sínu. Sú hefð skapaðist að við sem störfuðum í nágrenni Magga fórum til hans í kaffitíma enda ögn rýmra þar í öllum þrengslunum. Þarna var einvalalið manna samankomið, þeir bræður Gussi og Plussi, Gísli og Grjóti, Halli Gísla, Bóndinn, Snúðurinn, Stjáni Vald og stundum leit Bói inn og jafnvel Jón Stefánsson ef hann átti leið um auk fleiri höfðingja. Menn höfðu þar sterkar skoðanir sumir hverjir svo að það hrikti í röftum. Við lá að lífsgátan yrði leyst sem gekk þó ekki eftir, – sem betur fer.

Allir sem nokkur kynni höfðu af Magnúsi Gunnari Pálssyni munu vera á einu máli um það að hann hafi verið einstaklega prúður og geðþekkur maður. Það var gott að vera í návist hans og eiga við hann samstarf, enda rækti hann öll störf sem hann tók að sér með árvekni og trúmennsku. Sá sem þetta ritar hafði um skeið allnáið samstarf við hann í félagsskap þar sem báðir vildu verða að einhverju liði. Um þá samvinnu á ég minningar sem ekki gleymast. Þannig mun og vera um aðra, sem eitthvað höfðu saman við hann að sælda, að þeir minnast hans sem sérstaks prúðmennis og góðs félaga.

Á þessum viðkomustað eru Magga færðar alúðarþakkir fyrir alla samveruna, utan vallar sem innan, það voru forréttindi að vera honum samferða.

Vertu síðan kært kvaddur og Hinum hæsta himnasmið falinn.

Ólafur Ágúst

Þorsteinsson.