Hvalveiðar Veiðarnar ýta undir neikvætt orðspor að sögn Jóhannesar Skúlasonar, frkvstj. SAF.
Hvalveiðar Veiðarnar ýta undir neikvætt orðspor að sögn Jóhannesar Skúlasonar, frkvstj. SAF. — Morgunblaðið/Eggert
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is „Eins og komið hefur fram hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, verðum við mjög fljótt vör við það þegar hvalveiðar hefjast á Íslandi hjá Kristjáni Loftssyni. Eftir þeim er tekið úti í heimi og þær hafa áhrif á íslenska ferðaþjónustu.“

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Eins og komið hefur fram hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, verðum við mjög fljótt vör við það þegar hvalveiðar hefjast á Íslandi hjá Kristjáni Loftssyni. Eftir þeim er tekið úti í heimi og þær hafa áhrif á íslenska ferðaþjónustu.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, inntur viðbragða við umfjöllun CNN og fleiri stórra erlendra fjölmiðla um orðspor Íslands vegna hvalveiða, sem nú eru að hefjast á ný, og áhrif veiðanna á þokka landsins í augum ferðamanna.

Hvalveiðar sýni aðra ímynd

„Þetta snýst hvort tveggja um orðsporið og allt frá því að fólk missi áhuga á að fara til Íslands upp í það að algjörlega ætla að sniðganga Ísland þar til þessu er hætt. Fyrirtæki fá, eins og fram hefur komið síðustu daga, símtöl, póstsendingar og ýmislegt annað og þótt þarna sé kannski ekki beinlínis um afbókanir að ræða, hefur þetta þau áhrif að sýna aðra ímynd en við erum að reyna að sýna í ferðaþjónustu og markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað,“ heldur Jóhannes áfram.

Segir hann téða markaðssetningu ganga að miklu leyti út á að auglýsa Ísland sem náttúruáfangastað þar sem fólk geti upplifað hreina og óspillta náttúru. Ferðaþjónustugeirinn og stjórnvöld reyni í öllum sínum aðgerðum að hlúa að sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi, þar sem gengið sé vel um náttúruna og komið vel fram við landið.

Alltaf í alþjóðlegri samkeppni

„Allt við hvalveiðarnar gengur þvert gegn ímynd íslenskrar ferðaþjónustu og áfangastaðarins Íslands og þetta hefur áhrif strax. Svo verður fjallað um þetta í erlendum miðlum, eins og við höfum séð undanfarna daga og þetta eru risastórir miðlar erlendis. Þetta eru engin héraðsblöð. Þetta eru CNN , BBC , Süddeutsche Zeitung í Þýskalandi, stærstu miðlar í Sviss og Evrópu. Þetta eru risamiðlar sem eru mjög skoðanamótandi og þarna verður að hafa í huga að við erum alltaf í alþjóðlegri samkeppni sem áfangastaður,“ heldur Jóhannes áfram. Hann bendir á að fólk geti alveg eins valið sér að sjá norðurljós í Noregi eða verja sumarfríi sínu í Skotlandi.

„Ferðaþjónustan er útflutningsatvinnugrein og utanríkisviðskipti og það þarf ekkert mig til að segja fólki það að hvalveiðar Íslendinga hafa alltaf haft mikil neikvæð áhrif á íslensk utanríkisviðskipti og utanríkissamskipti undanfarin ár,“ segir Jóhannes að lokum af umfjöllun erlendra fjölmiðla um hvalveiðarnar.