[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dætur Íslands Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Í sjöunda þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnu- og landsliðskonuna Öglu Maríu Albertsdóttur, leikmann Häcken í Svíþjóð.

Dætur Íslands

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Í sjöunda þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnu- og landsliðskonuna Öglu Maríu Albertsdóttur, leikmann Häcken í Svíþjóð.

Agla María, sem er 22 ára gömul, gekk til liðs við sænska félagið frá Breiðabliki í janúar á þessu ári.

Hún er uppalin hjá Breiðabliki en gekk til liðs við Val árið 2015 og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Val sama ár í efstu deild, þá 15 ára gömul.

Agla María lék með Val í eitt tímabil, áður en hún gekk til liðs við Stjörnuna árið 2016, þar sem hún lék í tvö tímabil en hún varð Íslandsmeistari með Stjörnunni á sínu fyrsta tímabili með félaginu.

Árið 2018 snéri hún svo aftur heim í Breiðablik, þar sem hún lék í fjögur tímabil. Á þeim tíma varð hún tvívegis Íslandsmeistari, 2018 og 2020, og tvívegis bikarmeistari, 2018 og 2021.

Alls á hún að baki 111 leiki í efstu deild með Val, Stjörnunni og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 56 mörk.

Allt öðruvísi stemning

Agla María skrifaði undir þriggja ára samning við Häcken en hún hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði sænska liðsins á tímabilinu.

Hún á að baki 46 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Slóvakíu í apríl 2017, þá 17 ára gömul, en hún er á leið á sitt annað stórmót með kvennalandsliðinu.

„EM leggst ótrúlega vel í mig og ég get eiginlega ekki beðið,“ sagði Agla María í þættinum, þegar hún ræddi Evrópumótið á Englandi sem hefst hinn 6. júlí.

„Mér finnst allt öðruvísi stemning núna en fyrir mótið í Hollandi fyrir fimm árum. Ég kom mjög skyndilega inn í hópinn þá og tók þátt í nokkrum verkefnum í aðdraganda mótsins. Svo var ég allt í einu komin í lokahópinn og hlutirnir gerðust mjög hratt á þessum tíma.

Núna er ég búin að vera í hópnum í lengri tíma og ég er orðin mun reynslumeiri leikmaður núna en árið 2017. Þetta leggst þess vegna allt öðruvísi í mig en ég finn samt ekki fyrir aukinni ábyrgð núna. Ég ætla fyrst og fremst að njóta þess að vera þarna og ég held að ef ég geri það, þá muni ég spila betur fyrir vikið,“ sagði Agla María meðal annars.