Áskorun Gámahöfn í Kína. Greinendur vænta niðursveiflu á heimsvísu og ekki auðvelt fyrir stjórnvöld að finna bestu leiðina út úr vandanum.
Áskorun Gámahöfn í Kína. Greinendur vænta niðursveiflu á heimsvísu og ekki auðvelt fyrir stjórnvöld að finna bestu leiðina út úr vandanum. — AFP/China OUT
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Víða um heim standa stjórnvöld í ströngu við að koma böndum á ört vaxandi verðbólgu og tryggja eðlilegt ástand á verðbréfamörkuðum. Í Bandaríkjunum nálgast verðbólgan 9% en í Evrópu var 8% múrinn rofinn í maí og hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað mikið frá áramótum. Við þetta bætist að strangar smitvarnir í Kína halda áfram að trufla aðfangakeðjur um allan heim og hernaðarbrölt Rússa í Úkraínu hefur sett viðskipti með sumar tegundir matvæla og hrávöru í uppnám. Olíuverð er í hæstu hæðum og jafnvel talin hætta á að senn geti orðið vart við skort á ýmsum nauðþurftum.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Víða um heim standa stjórnvöld í ströngu við að koma böndum á ört vaxandi verðbólgu og tryggja eðlilegt ástand á verðbréfamörkuðum. Í Bandaríkjunum nálgast verðbólgan 9% en í Evrópu var 8% múrinn rofinn í maí og hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað mikið frá áramótum. Við þetta bætist að strangar smitvarnir í Kína halda áfram að trufla aðfangakeðjur um allan heim og hernaðarbrölt Rússa í Úkraínu hefur sett viðskipti með sumar tegundir matvæla og hrávöru í uppnám. Olíuverð er í hæstu hæðum og jafnvel talin hætta á að senn geti orðið vart við skort á ýmsum nauðþurftum.

Heiðar Guðjónsson er hagfræðingur að mennt, formaður stjórnar Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE) og varaformaður Efnahagsráðs Norðurskautsins, auk þess að vera forstjóri Stöðvar 2 og Vodafone. Hann segir margt athugavert við þau úrræði sem stjórnvöld á Íslandi og annars staðar hafa gripið til á undanförnum vikum og mánuðum:

„Helstu seðlabankar hafa ákveðið að hækka stýrivexti og minnka peningamagn í umferð á sama tíma. Það getur gagnast að gera annað hvort en hagfræðingar á borð við Milton Friedman hafa sýnt fram á að það boðar ekki gott að gera hvort tveggja,“ útskýrir Heiðar.

Seðlabankar Evrópu og Bandaríkjanna hafa um árabil keypt skuldabréf á markaði til að auka peningamagn í umferð en hafa nú dregið mjög úr þessum kaupum. „Samhliða þessu hefur orkuverð hækkað mikið. Það, eitt og sér, skapar svakalega bremsu á hagkerfið og er ígildi stýrivaxtahækkana.“

Heiðar bætir við að erfiðleikarnir á mörkuðum í dag séu að stórum hluta afleiðing inngripa seðlabankanna: „Með því að kaupa eignir á skuldabréfamarkaði, hafa seðlabankarnir tekið markaðsverð úr sambandi og skekkt alla verðlagningu. Þá var vöxtum ýtt niður á stig sem var ósjálfbært, sem bjagaði verðlagningu enn frekar. Öll þessi inngrip þýddu að verðlagning húsnæðis, skuldabréfa og hlutabréfa var röng og ekki að furða að það skyldi leiða til mikilla sveiflna í eignaverði.“

Mætti prófa frelsi í stað miðstýringar

Bendir Heiðar á að það þurfi ekki að koma á óvart að aðgerðir seðlabanka um allan heim hafi leitt hagkerfi þjóða í ógöngur, enda um miðstýringu hagkerfanna að ræða og miðstýring sjaldan líkleg til árangurs. Segir hann áhugavert að skoða frekar þá leið að reyna núna að hjálpa hagkerfum heimsins með því einmitt að draga úr miðstýringu og afskiptum, og auka frelsi fólks og fyrirtækja til að athafna sig og skapa verðmæti.

„Kostnaðurinn af æ stærra og flóknara regluverki er gríðarlegur. Við sjáum þetta fyrirbæri t.d. á íslenskum byggingamarkaði, þar sem hvert einasta hús og hver einasta íbúð þarf að vera gerð í samræmi við mjög þrönga forskrift ótal reglugerða, með tilheyrandi kostnaðarauka. Eru reglurnar sambærilegar við það ef lög kvæðu á um að aðeins mætti reisa fimm stjörnu hótel, á meðan raunin er að margir myndu helst kjósa að reka eða gista á tveggja eða þriggja stjörnu hóteli.“

Annað dæmi af svipuðum toga er sú tilhneiging íslenskra stjórnvalda að ganga lengra en þörf er á og útfæra lögin með of ströngum hætti þegar reglur Evrópusambandsins eru innleiddar í íslensk lög. „Að hafa of margar og of strangar reglur felur í sér bæði beinan og óbeinan kostnað. Beini kostnaðurinn felst í því að fyrirtæki og stjórnvöld þurfa að eyða kröftum sínum í að fullnægja hinum ýmsu formkröfum og framfylgja reglunum, en óbeini kostnaðurinn felst í að við missum af þeirri nýsköpun sem hefði átt sér stað ef reglurnar væru ekki óþarflega íþyngjandi,“ segir Heiðar.

Hleypi einkafjármagni í örvandi framkvæmdir

Þegar hagkerfi taka dýfu, heyrast iðulega háværar raddir um að ríkið þurfi að ráðast í ýmiss konar framkvæmdir til að skapa atvinnu og þannig örva hagkerfið. Heiðar bendir á að ef ráðist er í réttu verkefnin, geti bættir innviðir verið vítamínsprauta fyrir atvinnulífið í niðursveiflu og einnig lagt grunninn að aukinni verðmætasköpun seinna meir. Hins vegar verði að velja verkefnin af kostgæfni og ráðast í innviðaframkvæmdir sem eru nægilega fjárhagslega hagkvæmar til að bera sig sjálfar.

„Þá ætti ríkið ekki að annast framkvæmdina heldur ætti að hleypa einkafjármagni að, því reynslan sýnir að einkaaðilar byggja mun hagkvæmar. Á Íslandi er skemmst að minnast Hvalfjarðarganganna sem falin voru einkaaðilum í hendur og tókst að ljúka framkvæmdum í samræmi við fjárhags- og tímaáætlun. En svo ofmetnuðust menn og ákváðu að ríkið skyldi gera göng undir Vaðlaheiði, sem kostaði tvöfalt meira og tók tvöfalt lengri tíma en til stóð, og var á tímabili stærsta gufubað í heimi,“ segir hann og bendir á að hvatarnir séu einfaldlega ekki þeir sömu í einkageiranum og hjá hinu opinbera: „Ef einkaaðila mistekst, þá hættir hann a að glata öllu sínu, en ef starfsmaður hins opinbera gerir mistök, eru afleiðingarnar fyrir hann persónulega litlar sem engar.“

Markaðir gætu lokast

Heiðar hefur áhyggjur af að samdráttur og vöruskortur muni leiða þjóðir inn á braut verndarhyggju og snúa við þeirri þróun sem einkennt hefur undanfarna áratugi, þar sem reynt hefur verið að liðka æ meira fyrir viðskiptum á milli landa.

Nú þegar má finna dæmi þess að ríki sem framleiða gnótt landbúnaðarvara hafi sett útflutningi skorður. Einnig urðu raskanirnar í kórónuveirufaraldrinum til þess að stjórnmálamenn víða tóku að prédika um mikilvægi þess að gera hagkerfi þjóða sinna sem minnst háð viðskiptum við umheiminn.

„Sá ævintýralegi lífskjarabati sem Íslendingar hafa upplifað frá sjötta áratugnum er einmitt fyrst og fremst viðskiptum við útlönd að þakka. Ísland er gott dæmi um land þar sem lækkun flutningskostnaðar með tilkomu flutningagámsins hratt af stað miklum efnahagsbata.“