Guðný Jóna Jónsdóttir fæddist 13. desember 1939. Hún lést 27. maí 2022. Útför hennar fór fram 26. júní 2022.

Nú fylgjum við tengdamóður minni seinasta spölinn úr Reykhólakirkju og yfir í Gufudal.

Það er svo margs að minnast þegar hugurinn reikar aftur í tímann. Góðar samverustundir, ferðalög innanlands og utan, bitasteikin sem var borin fram á öllum tímum sólarhringsins, sögustundirnar á akstri um Barðastrandarsýslurnar, þar sem hún var á heimavelli. Sögur af gömlum búskaparháttum, forfeðrum og -mæðrum, ástum og örlögum.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir 18 árum fannst mér ekki alltaf auðvelt að skilja fjölskyldumynstrið. Gulla hafði mátt reyna ýmislegt á sinni ævi og ekki var lífsbaráttan alltaf sanngjörn né auðveld. Þetta hafði leitt af sér sundrungu í fjölskyldunni, sem aðkomumanneskju eins og mér þótti ekki alltaf auðvelt að skilja. En það er ekki hægt að skilja allt. Mest um vert er að sýna mildi og þolinmæði og þá getur gagnkvæm virðing og væntumþykja vaxið. Að ala upp 5 börn, einstæð í hálfbyggðu húsi langt úti á landi, hefur alls ekki verið auðvelt, en hún gerði sitt besta. Eins og hún sagði svo oft sjálf, þá „blessaðist þetta einhvern veginn“. Það má læra margt um fólk á því hvernig það kemur fram við mæður sínar. Gulla átti mikinn auð í uppeldisdótturinni Snædísi og strákunum sínum, Óskari og Gumma, sem hugsuðu svo vel um mömmu sína alla tíð.

Gulla var mikið náttúrubarn og undi sér hvergi betur en úti í guðsgrænni náttúrunni. Henni þótti skemmtilegt að nýta landsins gæði og tíndi oft blóðberg og fjallagrös til að sjóða í te og sagði það allra meina bót. En það voru bláberin á haustin sem áttu hug hennar allan. Barmahlíðin var kembd reglulega frá ágústbyrjun og fram í september og alltaf þótti henni gaman að uppgötva og kanna nýjar berjaslóðir. Það var alltaf ákveðin spenna að heyra hvað hún segði um sprettuna á hverju hausti. Stundum var hún ágæt, en yfirleitt frekar léleg. Stundum var meira að segja búið að tína allt frá henni! En svo þegar maður kom til hennar á Hellisbrautina voru allir kælar, borð og ílát full af bústnum og glansandi aðalbláberjum.

Gulla var mikil barnagæla og sagði alltaf að að manni leiddist ekki með börnin í kringum sig. Það er eitt að þykja vænt um tengdamóður sína, en þegar við Óskar fórum að eignast börn og maður sá hversu mikla, skilyrðislausa ást hún hafði að gefa barnabörnunum sínum, fór væntumþykjan á annað stig. Endalaust sungið, ruggað og róað, purrað og spjallað. Svo eitt og eitt kex inn á milli.

Gulla hafði dvalið hjá okkur Óskari á Patreksfirði frá því um áramót, en hún dvaldi oft hjá okkur í einhverja daga eða vikur. Þá spjölluðu hún og Óskar um gamla tíma, daginn út og inn. Dætur okkar, Jóna Guðrún og Helga Margrét, elskuðu að hafa ömmu sína í kringum sig. Hún ætlaði að fara að skreppa heim á Reykhóla og koma svo bara aftur og hjálpa Óskari sínum með stelpurnar þegar ég færi að vinna aftur í apríl. Við vonuðumst til að hún yrði sem lengst hjá okkur.

Já, hún Gulla var karakter sem snerti við fólki sem kynntist henni og mikið óskaplega munum við öll sakna hennar.

Hlíðin mín fríða

hjalla meður græna

og blágresið blíða

og berjalautu væna,

á þér ástaraugu

ungur réð eg festa,

blómmóðir besta!

(Jón Thoroddsen)

Hvíldu í friði, elsku Gulla mín.

Inga Hlín Valdimarsdóttir.

Kæra nafna.

Nú ertu komin í Sumarlandið. Það eru margar góðar minningar sem ég hef frá liðinni tíð.

Fyrstu minningar mínar eru þegar við mamma og Elín systir fórum í ferðalag á sumrin og keyrðum frá Þingeyri til Reykhóla, til að hitta ömmu Gullu. Mamma hlakkaði alltaf svo til að hitta þig og börnin þín, systkini sín.

Ég verð að viðurkenna að ég fékk alltaf kvíðahnút í magann yfir ferðalaginu vegna bílveiki.

Ég var því alltaf mjög fegin þegar við vorum komnar á áfangastað, sem var rauða húsið hennar ömmu Gullu við Hellisbraut á Reykhólum.

Þegar við komum í hlað, varst þú alltaf mætt brosandi í dyragættina, ásamt Gumma og Óskari, og bauðst okkur velkomnar. Ekki stóð á móttökunum en þú varst fljót að koma með alls konar góðgæti og bakkelsi úr búrinu. Það gladdi mig mikið hvað þú áttir gott úrval af bakkelsi og kexi, sérstaklega eftir alla bílveikina á leiðinni. Prinskex með súkkulaðikremi á milli, Sæmundur í sparifötum (kremkex), Sæmundur í hversdagsfötum (mjólkurkex) og svo áttir þú oftar en ekki til kleinur. Ég var fljót að finna gleði mína á ný.

Eins á matmálstímum, þá bauðstu okkur alltaf upp á svo góðan mat. Mér þótti eftirminnilegast þegar það var saltað selkjöt með uppstúf og kartöflum í matinn. Í minningunni var það ágætt. Þótt þú ættir ekki mikið, þá deildir þú því sem þú áttir og varst gestrisin. Búrið þitt var mér mjög hugleikið og mér þykir svo vænt um hvað þú varst góð við mig og leyfðir mér að fara þar inn í tíma og ótíma að leita að kexi eða súkkulaði, þó vissulega hafi líka verið reynt að spilla ekki matarlystinni, rétt fyrir matmálstíma.

Náttúran var þér hugleikin og ég man alltaf eftir því hvað þú talaðir oft um lækningamátt í þurrkuðum þara og sölvum. Þá talaðir þú einnig um fjallagrös og hvað þau væru holl. Þú varst mjög dugleg að fara á berjamó, tíndir alltaf mikið af berjum, gerðir góðar sultur og saft. Þá þóttu þér egg sjófugla mjög góð og sagðir okkur frá heimsóknum þínum í Flatey og aðrar eyjar á Breiðafirði.

Þú talaðir oft um tímann á Skálanesi, um langömmu og langafa, Ingibjörgu og Jón. Hvað hárið á langömmu Ingibjörgu hefði verið þykkt og fallegt og hvað Jón afi hefði verið duglegur að róa á árabátnum og veiða sel í Breiðafirði, eða þegar langafi var á vorin að reyna að reka örninn í burtu frá því að leggjast á lömbin. Þetta voru svo skemmtilegar frásagnir sem ég drakk í mig og man ennþá í dag.

Lífið var þér ekki alltaf auðvelt, þar skiptast á skin og skúrir eins og gengur. Ég trúi því að þú hafir reynt að gera þitt allra besta í þeim erfiðu aðstæðum sem þú þurftir að mæta. Ég veit að þú vannst oft baki brotnu til að eiga nóg fyrir fjölskylduna þína og börnin þín sem voru þér hugleikin – allt vildir þú fyrir þau gera. Það sást á höndunum þínum, þær voru markaðar af mikilli vinnu.

Elsku nafna mín, ég vona að þú sért komin í Sumarlandið á Skálanesi hjá langömmu Ingibjörgu og langafa Jóni. Þar sem þú nýtur hlýjunar og landsins sem þú unnir, þar sem örninn flýgur og selurinn syndir í sjónum.

Kveðja,

Guðný Ösp

Ragnarsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(Höf. ók.)

Elsku amma, þinn tími var ekki kominn, þú þurftir ekki að fara strax upp í himnaríki.
Ást og knús,
Ella Margret
og Ian Arthur.