Ísland sker sig ekki bara úr á EM 2022 á Englandi hvað það varðar að vera einu sinni sem áður langsamlega fámennasta þjóðin sem tekur þátt á mótinu.

Ísland sker sig ekki bara úr á EM 2022 á Englandi hvað það varðar að vera einu sinni sem áður langsamlega fámennasta þjóðin sem tekur þátt á mótinu. Þannig er nefnilega mál með vexti að íslenska kvennalandsliðið hefur á að skipa flestum mæðrum á mótinu, alls fimm talsins.

Sara Björk Gunnarsdóttir, sem á dögunum samdi við Juventus eftir tveggja og hálfs árs dvöl hjá Evrópumeisturum Lyon, er sú nýjasta þeirra. Hún ræddi við BBC Sport um reynslu sína af því að fæða barn í nóvember síðastliðnum og snúa svo aftur á keppnisvöllinn aðeins fjórum mánuðum síðar.

Hinar mæðurnar fjórar í íslenska hópnum eru þær Dagný Brynjarsdóttir, sem ræddi einnig við BBC, Sif Atladóttir, Sandra Sigurðardóttir og Elísa Viðarsdóttir.

Næstflestar mæður á EM eru innan raða Svía, þrjár talsins, þær Lina Hurtig, Hedvig Lindahl og Elin Rubensson. Þar á eftir koma Hollendingar með tvær, þær Sheridu Spitse og Stefanie van der Gragt.

Lenie Onza hjá Belgíu, Demi Stokes hjá Englandi og Almuth Schult hjá Þýskalandi eru einnig í hópi mæðra á mótinu. Eru þær því alls 13 og hafa aldrei verið fleiri á einu Evrópumóti. gunnaregill@mbl.is