Þórður Sigurðsson, eða Dolli eins og hann var alltaf kallaður, fæddist á Akureyri 22. febrúar 1966. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 15. júní 2022.

Foreldrar hans voru Sigurður Egilsson húsa- og skipasmiður, f. 26. september 1934, d. 14. febrúar 2020, og Kolbrún Daníelsdóttir húsmóðir og verslunarkona, f. 12. apríl 1936, d. 9. september 2010.

Þórður var yngstur þriggja systkina. Elst var Gunnhildur Svana Sigurðardóttir, f. 21. október 1956, d. 14. júlí 2014, maki Pétur Kornelíusson. Bróðir Þórðar er Bragi Sigurðsson, f. 12. mars 1961, maki Sigríður Emilía Bjarnadóttir.

Eiginkona Þórðar er Edda Björnsdóttir f. 16. október 1966, en þau gengu í hjónaband þann 13. mars 2004. Börn þeirra eru: 1) Björn Ingi Friðþjófsson, f. 12. október 1987, maki Hildur Rut Ingimarsdóttir, f. 1988. Börn þeirra eru Unnar Aðalsteinn Sigurðsson, f. 2012, og Edda Vilhelmína, f. 2018. 2) Salka Þórðardóttir, f. 13. mars 1992. Maki Ásbjörn Örvar Þorláksson. Börn þeirra eru Orri, f. 2017, og Gunnhildur, f. 2020. 3) Þórhildur Braga Þórðardóttir, f. 1997. Dóttir hennar er Ronja, f. 2021.

Þórður fæddist á Akureyri en fluttist ungur til Reykjavíkur þar sem hann ólst upp. Hann gekk í Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Seljaskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986. Hann lauk BS-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og fékk síðar kennsluréttindi. Lengstan hluta starfsævinnar kenndi Þórður sálfræði og félagsfræði við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Hann kenndi sinn síðasta tíma við skólann í byrjun febrúar á þessu ári, þegar hann þurfti að taka sér leyfi frá störfum vegna veikinda.

Þórður stundaði íþróttir af miklu kappi á sínum yngri árum, bæði fótbolta og handbolta. Hann þótti mjög öflugur handboltamaður og á að baki leiki með yngri landsliðum. Hann lék með Ármanni í yngri flokkum en síðar með meistaraflokki Vals.

Laxveiðar voru eitt af aðaláhugamálum Þórðar frá unga aldri en hann starfaði sem leiðsögumaður við laxveiði á sumrin sl. 25 ár, hin síðari ár í Víðidalsá.

Í seinni tíð átti golfíþróttin hug hans allan og fannst honum fátt skemmtilegra en að spila golf með Eddu og krökkunum eða í góðra vina hópi. Árið 2019 fluttu hann og Edda í Hafnarfjörð.

Þórður greindist með krabbamein á fjórða stigi í mars 2019. Útför Þórðar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 27. júní 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Hlekkir á streymi:

https://www.netkynning.is/thordur-sigurdsson

https://www.mbl.is/andlat

Elsku hjartans Dolli minn.

Þá er komið að leiðarlokum hjá okkur að sinni eftir rúmlega 32 ára samfylgd. Ég sakna þín meira en orð fá lýst, þú varst kletturinn minn og okkar allra. Mér finnst svo sárt að hugsa til þess að þú hafir ekki fengið lengri tíma með okkur og að þú fáir ekki að sjá barnabörnin okkar vaxa úr grasi. Ég lofa að segja þeim sögur af afa grallara og brandarakalli, sem þau dýrkuðu og dáðu.

Ég geymi allar fallegu minningarnar í hjartanu, þær getur enginn frá okkur tekið.

Ég kveð þig, elsku hjartans Dolli minn, með þessum fallega texta Bubba Morthens:

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þar til við sjáumst aftur, elska þig að eilífu.

Þín

Edda.

Elsku pabbi – Það er erfitt að setja í orð tómleikann sem fyllir líf okkar nú þegar þú ert búinn að kveðja okkur, alltof snemma.

Oft er það ekki fyrr en á svona tímamótum sem maður virkilega fer að rifja upp hin ýmsu smáatriði, halda í hverja einustu minningu og rýna í gamlar myndir. Það er næg innistæða í minningabankanum elsku pabbi, það tekur enginn frá okkur.

Maður getur dregið lærdóm af öllu. Síðustu vikur og mánuðir hafa kennt mér að það dýrmætasta sem við eigum eru samvera með fjölskyldunni og vinum, búa til minningar. Því þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru það minningarnar sem gefa lífinu lit.

Ég hélt mikið upp á þig elsku pabbi, pabbastelpa alla leið. Við vorum bæði lík í útliti og fasi, vil ég meina. Ég man hvað það fór í taugarnar á mér þegar fólk sagði að ég væri eins og snýtt út úr nösinni á pabba mínum, en í seinni tíð fannst mér bara gaman að heyra það, enda ekki leiðum að líkjast.

Þú varst frábær fyrirmynd í lífinu. Þú tókst sjálfan þig aldrei of alvarlega, sama hvort það var í leik eða starfi. Það fannst mér einn af þínum bestu mannkostum. Þú varst drífandi og miklaðir hlutina ekki fyrir þér. Þú kenndir mér ótalmargt og alltaf var hægt að leita til þín ef eitthvað bjátaði á.

Þú varst engum líkur elsku pabbi, ég mun sakna þín meira en hægt er að setja í orð. Takk fyrir alla gleðina, ástina og fíflaskapinn. Þú verður ávallt í huga mér, sérstaklega þegar ég fer í veiði eða í golf. Þá rifja ég upp ráðin sem þú gafst mér og kenni Orra og Gunnhildi það sem þú kenndir mér. Þegar lífið verður erfitt og ósanngjarnt, þá veit ég að þú passar upp á okkur. Þú kenndir mér að missa aldrei gleðina, sem þú stóðst við – ég reyni að gera slíkt hið sama.

Þótt þú hafir kvatt okkur allt of snemma, skildir þú eftir þig svo mikla gleði, hlýju og ógrynnin öll af skemmtilegum minningum... og Dollabuffum!

Elsku pabbi. Þú vakir yfir okkur eins og þú sagðist ætla að gera. Þangað til næst.

Ást og friður,

Salka.

Elsku pabbi minn.

Lífið er svo ósanngjarnt. Fyrir þremur árum greindist þú með krabbamein sem við ætluðum að sigra saman. Þú barðist eins og hetja allan þennan tíma þar til líkaminn gat ekki meir. Við vorum bestu vinir. Alltaf gat ég leitað til þín og þú gerðir alltaf allt til þess að veita stuðning.

Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa búið hjá þér og mömmu síðustu mánuðina í lífi þínu. Þið fenguð góðan tíma saman, þú og Ronja mín, og fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Pabbi var mikill húmoristi. Alltaf var stutt í grínið og mikið hlegið. Hann hafði mjög gaman af því að syngja og söng manna hæst. Okkur þótti gaman að syngja saman enda elskuðum við bæði athyglina og kepptum oft um hvort okkar gæti sungið hærra.

Pabbi var stoð mín og stytta í handboltanum. Hann stóð alltaf á hliðarlínunni og gaf mér ráð um hvað mætti betur fara og heyrði í mér eftir leiki til að hvetja mig til dáða. Ég er ævinlega þakklát fyrir stuðninginn í handboltanum, elsku pabbi minn, þú hafðir alltaf trú á mér.

Ég er svo þakklát fyrir allar veiðiferðirnar sem við fórum í saman. Þó að ég hafi oft ekki haft mikla þolinmæði og viljað fá lax í fyrsta kasti þá varstu fljótur að stilla þeim væntingum í hóf.

Þú varst með mér þegar ég fékk maríulaxinn minn. Það er stund sem ég mun aldrei gleyma.

Laxinn tók vel í og ég man að ég bað þig að taka við. Þú tókst það ekki í mál en leiðbeindir mér þar til ég náði að landa laxinum. Það sem þú varst stoltur af mér. Ég mun sakna veiðiferðanna með þér, elsku pabbi minn. Þetta eru ógleymanlegar minningar þar sem við áttum góða og fallega stund saman við fjölskyldan.

Elsku pabbi minn, það er svo sárt að þú sért farinn frá okkur. Við sem eftir stöndum munum halda minningunni um þig á lofti alla tíð og ég mun segja Ronju minni hvað þú varst yndislegur og góður afi. Veikindin voru þér erfið, sérstaklega síðustu mánuðir, en þú barðist eins og hetja og gerðir okkur fjölskylduna sterkari fyrir vikið. Allar stundirnar okkar saman mun ég varðveita í hjarta mínu að eilífu. Nú ertu loksins búinn að fá friðinn, ég veit þú ert kominn á betri stað og munt vaka yfir okkur öllum, elsku pabbi minn.

Ég elska þig og sakna þín óendanlega mikið. Takk fyrir allt sem þú gafst mér, takk fyrir að vera besti pabbi í öllum heiminum og takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig og Ronju.

Ég mun hugsa fallega til þín á hverjum degi.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.

Þín

Þórhildur (Tóta).

Elsku stjúppabbi minn, Dolli. Þú kvaddir okkur alltof snemma eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Við fjölskyldan erum svo þakklát fyrir að hafa getað fylgt þér alla leið yfir í annan heim. Virkilega erfið en samt sem áður falleg stund, þegar horft er til baka.

Þú varst mér mikil fyrirmynd. Yndislegur eiginmaður, faðir, afi, tengdapabbi og vinur. Ég er stoltur af þér og fjölskyldunni okkar, sem hefur gengið í gegnum erfið þrjú ár.

Fyrsta minning mín af þér er í íbúðinni við Miðtún (ég tæplega 3 ára) – þar sem við stöldruðum stutt við. Við fjölskyldan fluttum svo á Háaleitisbraut, þar sem við áttum fallegar stundir saman. Þar eignaðist þú, með mömmu, dásamlegu Sölku og Þórhildi – systur mínar. Eftir það fluttum við í Kópavog þar sem við áttum yndislegan tíma. Þar komu hundarnir inn í líf okkar, sem þú elskaðir. Hafnarfjörður var þinn síðasti viðkomustaður – þar leið ykkur mömmu vel þrátt fyrir erfiðan tíma.

Elsku Dolli. Þú hefur átt stóran þátt í því að móta líf mitt. Áhugamálin þín smituðust til mín og þinnar nánustu. Ég vil sérstaklega þakka þér fyrir að koma á alla handboltaleiki okkar systkina – styðja okkur og kenna hvernig alvöru meistarar haga sér, jafnt inni á vellinum og utan hans.

Síðustu sumur buðuð þið mamma okkur systkinum, tengdabörnum og barnabörnum í Víðidal að veiða. Það gaf okkur svo margar fallegar og ógleymanlegar stundir saman.

Þú kynntir mig snemma fyrir veiðinni. Kenndir mér að kasta flugu við Reynisvatn og tókst mig svo með að veiða í flottustu veiðiám landsins. Það er óhætt að segja að þú hafir verið með þeim færustu á landinu. Vindhviður upp á 15-20 m/s skiptu ekki máli – alltaf kastaðir þú eins og það væri blankalogn. Fyrir mig var nóg að setjast á bakkann og horfa á þig kasta – því það gaf mér hamingju og frið. Ég velti oft fyrir mér hvort þú værir með svindlgleraugu, því þú virtist alltaf koma auga á fisk – eins og þeir syntu fyrir ofan vatnið.

Golfið var svo það síðasta sem þú náðir að smita okkur fjölskylduna af. Ég er svo ánægður að þú hafir dregið mömmu með. Þetta var ykkar sport. Við höldum golfinu áfram og reynum að ná þér í forgjöf.

Elsku Dolli. Þetta veikindaferli hefur kennt okkur svo margt: að lifa lífinu, láta hendur standa fram úr ermum, sýna væntumþykju, vera hjálpsamur og að verja stundum með fólkinu sínu. Því maður veit aldrei hvenær tíminn kemur.

Elsku Dolli. Við höldum minningunni um þig lifandi og þú vakir yfir okkur eins og þú lofaðir. Elska þig.

Þangað til næst.

Prinsinn,

Björn Ingi Friðþjófsson.

Elsku bróðir.

Það er undarlegt þetta líf sem við lifum. Óútreiknanlegt, tekur á sig ótal myndir og útúrsnúninga sem enginn á von á. Þegar þú greindist með þetta illvíga mein var ljóst að róðurinn yrði þungur. Þú tókst því þó af æðruleysi, sýndir fádæma elju og styrk, varst staðráðinn í að sigrast á þessu. En segja má að leikurinn hafi verið ójafn frá upphafi, a.m.k. var ljóst að brugðið gat til beggja vona. Það er vissulega sárt að játa ósigur gegn þessum vágesti, sem tekur svo mörg líf, umturnar öllu og snýr á hvolf. Ekkert verður aftur eins og það var og framtíðin ekki sú sem hún átti að verða. Það er óraunveruleg og undarleg tilfinning að þú sért farinn frá okkur svona allt of snemma. Eins og sár sem aldrei mun gróa og tíminn aldrei lækna. Maður finnur fyrir biturð og reiði út í þau æðri máttarvöld sem þessu ráða. En það er svo sem ekki til neins. Það eina sem við getum gert er að hugga okkur við þær ótal góðu minningar sem eftir standa. Ég gleðst yfir því að við skyldum þó hafa fengið þrjú góð ár, kannski betri en búast hefði mátt við miðað við aðstæður. Ég er svo ólýsanlega glaður bara yfir því að við skyldum hafa náð að fara saman í golfferðina í október. Þú náðir nokkrum veiðitúrum, þeim síðasta nú í apríl. Og tvær afastelpur bættust í hópinn. Þú varst ótal kostum búinn, ótrúlegur veiðimaður, frábær handboltamaður, sálfræðingur, kennari. Drengur góður og vinur vina þinna.

Ég kveð þig, elsku litli bróðir minn, með ólýsanlegum trega, en jafnframt þakklæti fyrir allar góðar stundir sem við áttum saman. Ég er stoltur að hafa átt þig að sem bróður og vin. Ég votta okkur öllum, fjölskyldu og vinum innilega samúð. Þín verður sárt saknað um ókomin ár. Kveðja, Stóri.

Þinn bróðir,

Bragi Sig.

Kæri frændi. Það er þyngra en tárum taki að skrifa minningargrein um þig. Enn hefur krabbinn höggvið skarð í fjölskylduna og ekki hyggur hann að því hvar höggin koma niður. Nú hefur hann lagt ykkur Gunnhildi að velli, langt fyrir aldur fram. Ekki veit ég hvaða orð á að nota yfir svona hluti í lífinu, en sanngjarnt er það ekki.

Mér koma í hugann kynni okkar, sem hófust þegar ég var nýkominn suður og bjó hjá Valla frænda í „súrnum“ eins og þú kallaðir kjallarann á Hólatorgi. Þú bauðst mér í fluguhnýtingarpartí, hafðir eitthvað haft veður af veiðiáhuga mínum og dvöl við laxveiðiár fyrir austan. Við náðum vel saman, kannski líka af því við vorum nafnar, en veiðiskapur hverskonar var okkar sameiginlega áhugamál, auk þess sem við styrktum vina- og frændsemisböndin.

Þú hafðir áhuga á að komast í veiðileiðsögumennsku og á endanum varðst þú auðvitað miklu öflugri leiðsögumaður en ég, og langt og farsælt samstarf tókst með ykkur Árna Baldurssyni. Ég er stoltur að hafa átt smá þátt í því að það komst á.

Ég minnist með þakklæti samverustundanna við veiðar, einkum fyrir austan við hreindýra- og rjúpnaveiðar ásamt Braga. Þú varst hrókur alls fagnaðar á slíkum stundum, með gráglettinn húmorinn og sögur af mönnum og málefnum á hraðbergi.

Kæri vinur og frændi. Lífskraftur þinn var slíkur að ég var farinn að trúa því að þú gætir ekki dáið. Fráfall þitt er okkur í fjölskyldunni erfitt og óskiljanlegt í senn. En úr því sem komið er get ég víst fátt annað gert en að senda þér mína hinstu kveðju.

Ljós þitt mun lifa áfram í hugum okkar hinna.

Þó að fölni og falli rós,

og fúni lífsins hjartastrengur.

Í hjörtum okkar lifir ljós;

þín ljúfa minning góði drengur.

Þórður Mar Þorsteinsson.

Fallinn er í valinn Dolli vinur minn og samkennari til margra ára eftir baráttu við krabbamein. Aldrei lét hann heyrast að hann væri að verða undir í baráttunni við meinið og marga orrustuna vann hann. Dolli var keppnismaður og kvaddi þetta líf ekki fyrr en dómarinn flautaði leikinn af og ljóst að krabbinn var búinn að vinna.

Við Dolli vorum samferða eitt ár í Laugarnesskóla en kynni okkar þróuðust í MR þar sem við vorum saman í bekk. Tilfinning mín þá var að hann færi í gegnum lífið með vissu áhyggjuleysi. Ég man að sumum fannst það jaðra við kæruleysi. Líklega var það vopn hans í lífinu á þessum tíma.

Grallaraskapurinn heillaði mig og einnig marga kennara. Enginn annar komst upp með að sofa í dönskutíma með fullu leyfi kennarans sem jafnvel bað okkur hina nemendurna að lækka róminn til að ónáða ekki Þórð. Það lá seinna fyrir Dolla að gera uppfræðslu unglinga að sínu ævistarfi. Hann vann sem leiðbeinandi í félagsmiðstöð, var verkstjóri í unglingavinnunni mörg sumur og síðan framhaldsskólakennari í rúm 25 ár. Hann var vinsæll kennari og ég heyrði að nemendur voru ánægðir í tímum hjá honum.

Þrátt fyrir léttleikann þá var líf Dolla í æsku enginn dans á rósum. Hann sagði mér frá því fyrir mörgum árum, alvarlegur í bragði, hvernig aðstæður hans voru á æsku- og unglingsárum vegna veikinda móður hans á þeim tíma. Vegna alkóhólisma hennar var rótleysi mikið og hann átti ekki öruggt athvarf á heimili sínu. Aðstæður sem þessar eru ágætis uppskrift að því að ungur drengur misstígi sig á lífsins braut. En karakter Dolla bauð ekki upp á að það gerðist og honum farnaðist vel í námi og var afburðamaður í íþróttum. Einnig var það gæfa hans að eiga vináttu og skjól hjá Árna Harðar sem að öðrum ólöstuðum var hans besti vinur, alltaf til taks og hjá honum bjó Dolli jafnvel þegar hann átti ekki í önnur hús að venda.

Það var ánægjulegt að sjá hvernig líf Dolla tók að blómstra eftir að hann kynntist Eddu sinni og Bjössa. Hún kunni lagið á honum og hafði ótakmarkaða þolinmæði fyrir uppátækjum hans og gamaldags viðhorfum sem hann lét stundum í ljósi. Hann tók sálfræðinámið í HÍ föstum tökum og lauk kennsluréttindanámi í framhaldinu.

Síðan eru liðin mörg ár. Börnunum fjölgaði og hundunum fjölgaði og grallaraskapurinn hélt áfram líkt og fyrr. Upp í huga minn koma fjölskylduútilegur þar sem ættjarðarsöngvar voru kyrjaðir og samkvæmisleikir og þrautir stundaðar fram á morgun. Einnig uppátektarsöm þorrablót með strákunum og veiðiferðir þar sem Dolli veiddi mest, söng manna mest og hló mest.

Fyrir rúmum áratug árum tók ég afdrifarík spor í lífi mínu sem ollu djúpum sárum hjá mörgum og þar á meðal Dolla. Vináttan breyttist en taugin á milli okkar slitnaði ekki. Það er með sorg í hjarta og þakklæti fyrir liðna tíma að ég kveð vin minn og félaga í dag.

Hér vit skiljumk,

ok hittask munum

á feginsdegi fira;

dróttinn minn!

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa!

(Úr Sólarljóðum)

Úlfar Snær.

Í dag kveðjum við elsku Dolla, okkar góða vin og gleðigjafa, sem látinn er langt um aldur fram. Við fráfall Dolla er stórt skarð höggvið í Lúðahópinn, sem varð til í kjölfar þess að fjögur okkar störfuðu saman hjá skattstjóranum í Reykjavík í upphafi aldarinnar. Í gegnum árin hefur vinahópurinn haldið stórskemmtileg matarboð, þar sem rík áhersla hefur verið lögð á búninga. Meðlimir hafa lagt mikinn metnað í að klæða sig upp í samræmi við þema kvöldsins. Edda og Dolli tóku ávallt fullan þátt í þessum viðburðum. Dolli lifði sig eftirminnilega inn í hlutverkin og varð fyrir vikið stórskemmtilegur í orðum og æði.

Það fór ekki fram hjá neinum að Dolli var með ástríðu fyrir stangveiði. Hann var veiðimaður af lífi og sál. Við yljum okkur við ljúfar minningar tengdar dásamlegri veiðiferð með Dolla og Eddu í uppáhaldslaxveiðiá Dolla, Víðidalsá, síðastliðið sumar. Þar lék Dolli að venju á als oddi og við áttum ógleymanlegar stundir saman.

Það er ekki ofsögum sagt að Dolli hafði einstakt lag á því að varpa birtu og gleði á umhverfi sitt og þann hóp sem hann var í hverju sinni. Alltaf kátur, greiðvikinn, hláturmildur og hafði bjarta og yndislega nærveru. Í okkar klúbbi var Dolli hrókur alls fagnaðar. Dolli var frábær sögumaður og mikill söngmaður og hvatti iðulega og óspart til hópsöngs. Á flestum fundum okkar söng hann veiðisönginn „Lilli fiski“ og rússneska lagið „Trololo“ sem var ógleymanlegt þeim sem á hlýddu. Þétt við hlið Dolla stóð hans dásamlega eiginkona, Edda. Þau voru einstaklega samrýmd og samstíga hjón. Það sama má segja um fjölskylduna alla og ljóst að Dolli tók afahlutverkið mjög alvarlega.

Dolli hefur nú verið leystur undan þjáningum þessa heims eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Það er með miklum söknuði sem við kveðjum góðan vin og félaga og þökkum áralanga vináttu og fjölmargar samverustundir. Dolla verður sárt saknað og minning hans mun lifa. Við biðjum allar góðar vættir að styrkja elsku Eddu og fjölskyldu í þeirra miklu sorg.

Ágúst, Áslaug,

Guðmundur Skúli, Hrönn og Sigurrós.

Það er með sorg í hjarta sem ég kveð kæran vin, Þórð Sigurðsson (Dolla), sem féll frá allt of ungur. Við Dolli kynntumst um tvítugt og atvik höguðu því þannig að nokkrum vikum síðar urðum við samstarfsmenn í vínbúðinni á Lindargötu og góðir vinir upp frá því. Það var alltaf gaman að vera með Dolla enda var hann glaðlyndur og stutt í húmorinn. Jákvæðni hans og gleði smitaði út frá sér og hann lét öllum líða vel með sinni fallegu framkomu. Minningar um góðar stundir á háskólaárunum, spilakvöld fram á morgun, þorrablót, mannamót, skata á Þorláksmessu, veiði og margt annað eru ljóslifandi. Það var ávallt hægt að leita til Dolla sem var heiðarlegur og traustur vinur sem verður sárt saknað. Við veiði hafði Dolli einhverja sérgáfu en hann gat lesið ár og vötn með einhverjum öðrum hætti en við hin og nutum við snilligáfu hans í veiðiferðum í gegnum árin. Að fara með honum í veiði var ævintýri líkast.

Nú bíða þín nýjar veiðilendur í sumarlandinu. Megir þú hvíla í friði, kæri vinur.

Elsku Edda, Björn, Salka, Þórhildur og fjölskyldur, ykkur sendi ég innilegar samúðarkveðjur sem og öðrum sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls Dolla. Ykkar missir er mikill en minningin um góðan og ljúfan dreng lifir.

Atli Atlason.

Einn af mínum bestu vinum kvaddi að morgni þann 15. júní sl. Dolli, eins og hann var kallaður. Við höfðum þekkst síðan við vorum 13 ára gamlir. Ég man fyrst eftir honum á æfingu hjá Leikni í Breiðholti, Valsarinn sjálfur, þar sem hann mætti ásamt góðum vinum okkar, nýlega fluttur í Breiðholtið. Við tók góður vinskapur sem hélst alla tíð. Þegar minnst er góðs vinar, koma upp margar skemmtilegar minningar, enda Dolli uppátækjasamur og gat komið fólki á óvart með uppákomum og söng. Minnisstætt er þegar hann söng til Eddu sinnar í brúðkaupinu þeirra, eða að loknum veiðidegi í Þverá. Dolla fannst þá tilvalið að syngja einsöng fyrir mig á leiðinni í veiðihúsið. Fyrir valinu varð lagið Blakkur og söng hann öll erindin fyrir mig hástöfum. Og þegar hann söng á dönsku fyrir heila rútu þegar við vorum 14 ára í keppnisferð í Danmörku. Ógleymanlegt er þegar við vinahópurinn vorum við veiðar í Hítará fyrir nokkrum árum. Þegar átti að fara að borða eitt kvöldið, var Dolli búinn að fjarlægja öll hnífapör af borðinu og lét menn vita að nú ætti að borða með fingrunum. Veiðiferðir vinahópsins verða ekki þær sömu án þín. Eins og flestir vita var Dolli mikill Valsari. Það gat verið óþolandi að fara með honum á völlinn þegar lið okkar voru að spila, Valur og KR. Verst var ef Valur skoraði. Þá spratt hann á fætur og öskraði af fögnuði í kringum okkur KR-vinina og inni í miðjum áhorfendahóp KR-inga. Honum fannst það alveg eðlilegt. Fyrir nokkrum árum síðan komu Dolli og Edda með okkur hjónum í golfferð til Spánar. Nú átti að byrja að spila golf. Þau byrjuðu á því að fara í golfskóla sem þau kláruðu með sæmd og eftir það var ekki aftur snúið. Dolli var kominn með golfbakteríuna og voru það ófáir golfhringirnir sem að við spiluðum saman, bæði hérlendis og erlendis. Alltaf var gaman að spila með Dolla, enda mikill keppnismaður og varð fljótlega nokkuð liðtækur golfari. Við fórum oft að spila snemma morguns og það klikkaði ekki, alltaf var Dolli búinn að senda einhverjar skemmtilegar athugasemdir á mann kvöldið áður eða snemma um morguninn. Dolli minn, ég á eftir að sakna þín á golfvellinum. Þórður var einstakur maður og mikill gleðigjafi, hann hafði þann góða eiginleika að hrífa fólk með sér og hrista upp í stemningunni, hvert sem hann kom. Hann var vinur vina sinna með góða nærveru, kom alltaf vel fram við alla, hann gat verið skemmtilega uppátækjasamur án þess þó að það kæmi illa við neinn. Ég á eftir að sakna þess að fá þig í kaffi í vinnuna til mín eins og þú gerðir svo oft, stutt spjall, einn kaffi og svo þurftir þú að fara að kenna aftur. Þín verður sárt saknað úr veiðiferðunum, golfferðunum og vinahittingum. Ekkert af þessu verður eins aftur. Elsku Edda, Bjössi, Salka, Þórhildur, Esja og barnabörn, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Bragi, Árni, sem var Dolla sem bróðir, og Anna, ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur. Ég mun sakna tímanna okkar saman og vinskaparins, þín verður sárt saknað.

Hvíl í friði elsku vinur.

Kristinn Kristinsson (Titti).

Við Þórður störfuðum saman langa hríð við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Ég hélt altaf að Þórður myndi ná að hrista þennan vágest af sér, eins öflugur og kraftmikill og hann var, en svo fór ekki. Við sitjum eftir með sorg og söknuð. Þórður kenndi félagsgreinar, sálfræði og félagsfræði, vel metinn kennari og öflugur talsmaður nemenda alla tíð. Það fór aldrei neitt á milli mála að nemendur treystu Þórði, sem er grunnforsenda þess að gott samband skapist á milli kennara og nemenda og árangur náist. Þórður mótaði og stjórnaði kennslu nemenda við skólann sem svo síðar varð almenn braut. Það mótunarstarf var skólanum ómetanlegt, þegar við vorum að taka fyrstu skrefin, nýir áfangar urðu til. Sjálfstraust og virkni nemenda var leiðarljósið sem Þórður talaði fyrir og hópurinn, bæði starfsmenn og nemendur, hrifust með.

Ég tel að nemendur hafi fundið fyrir umhyggju Þórðar. Hann gaf frá sér hlýju og hvatningu, lét nemendur skipta sig máli og sýndi þeim það.

Þórður var á tímabili trúnaðarmaður kennara og sat í samstarfsnefnd. Nefnd þessi annast gerð, endurskoðun og breytingar á stofnanasamningi og fjallar um ágreiningsmál sem upp kunna að koma. Aldrei kom til þess að ekki tækist að leysa þau mál sem nefndin fjallaði um. Slíkt er ekki sjálfgefið. Á fyrstu árum fjarkennslu við skólann voru mótaðar nýjar launareiknireglur fyrir fjarnámið og að kennsla í fjarnámi væri jafngild kennslu í dagskóla. Þessi vinna öll var unnin í góðu samstarfi nefndarinnar og hafa þessar reglur verið fyrirmynd í ýmsum öðrum skólum.

Þórður var veiðimaður, leiðsögumaður laxveiðimanna. Frábær fluguveiðisérfræðingur. Þegar undirritaður, sem kunni lítið fyrir sér í þeim fræðum, áttaði sig á þessu var umræðuefnið stundum veiði. Einhverju sinni bauð Þórður mér og öðrum starfsmanni skólans að koma með sér og hann gæti sýnt okkur fluguköst. Fórum við síðan um haustið að kvöldi dags til Þingvallavatns. Ekki vorum við amatörarnir tveir burðugir en eitthvað fór okkur fram, eftirminnileg ferð.

Hreindýraveiði kom til tals í upphafi haustanna. Stundum hafði Þórður fengið úthlutun, stundum ég og einhverju sinni við báðir. Hvernig hafði gengið eða hvenær væri haldið til veiða. Svona minningar eru ómetanlegar.

Sendi fjölskyldunni kærar samúðarkveðjur.

Ólafur Hjörtur

Sigurjónsson.

Þórður Sigurðsson er látinn og er þá skarð fyrir skildi. Við vorum samstarfsmenn í FÁ í allmörg ár og bar ekki skugga á. Þórður var öðlingur, glaðsinna og gáskafullur, einkar þægilegur viðskiptis og samviskusamur. Hann var góður kennari og hafði þann eðliskost að sjá björtu hliðarnar fremur en hinar dökku. Hann hélt uppi heilbrigðum aga sem ég kalla svo, leyfði nemendum að sletta úr klaufunum en kom þeim síðan að verki. Þeim þótti vænt um hann. Þórður var iðulega í forsvari fyrir kennara og hélt fast á sínum málum, með fullri sanngirni þó; ekki fór fram hjá nokkrum manni hvar hann sat á kennarastofunni hverju sinni. Þaðan bárust hlátrasköll eða ómur af áköfum samræðum. Þórður var atkvæðamikill frumkvöðull í fjarnámi, kenndi greinar þar sem námsbækur voru til á íslensku, bjó efni sitt skipulega í hendur nemenda og svaraði erindum þeirra greitt og vel. Margir hafa farið í smiðju hans og sótt þangað heillaráð. Líklega hafa fjarnámsnemendur Þórðar gengið undir próf í flestum Evrópulöndum og þótt víðar væri leitað! Sendiráð og ræðismenn víða um heim hafa léð skólanum húsnæði og setið yfir nemendum.

Þórður barðist við krabbamein í mörg ár og við vonuðum öll að sú hríð væri að baki en það brást. Kvölddyr hans lukust upp og nú er hann farinn, langt fyrir aldur fram. Hannes Pétursson yrkir á einum stað:

Þeir sem þögn jarðar geymir

og þeir sem lífs njóta

búa hlið við hlið

í heimi sem er einn

og altækur.

Með þeim orðum vil ég kveðja Þórð Sigurðsson og sendi ástvinum hans öllum samúðarkveðju. Blessuð sé minning hans.

Sölvi Sveinsson.

Látinn er Þórður Sigurðsson, félagsvísindakennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla, langt um aldur fram. Þórður, eða Dolli eins og hann var kallaður af flestum, hóf störf við skólann árið 1996 og var því búinn að kenna þar í yfir 25 ár.

Þórður var einstaklega vinsæll kennari og náði sérlega vel til nemenda. Sömuleiðis var hann góður samstarfsfélagi og léttlyndi og hressleika smitaði hann út frá sér í starfsmannahópinn. Hann var trúnaðarmaður starfsmanna í fjölda ára, sat í samstarfsnefnd skólans og var sömuleiðis formaður kennarafélagsins í drjúgan tíma.

Þórður var mikill íþróttamaður, afreksmaður í handbolta á yngri árum og mikill áhugamaður um fótbolta þar sem Valur og Liverpool skipuðu stóran sess í huga hans. Hann fór síðasta haust á Liverpool-leik og skemmti sér vel í þeirri ferð. Bæði vegna þess að Liverpool vann leikinn og ekki síður þar sem hann sat í sæti fyrir aftan Ian Rush og Fernando Torres. Þá var Þórður einnig liðtækur kylfingur og lék með liði skólans í framhaldsskólakeppnum.

Auk íþróttaáhugans skipaði veiðiskapur stóran sess í lífi Þórðar. Hann var ötull veiðimaður og einnig sinnti hann veiðileiðsögn í fjölda ára, einkum í Víðidalsá.

Við hér í Fjölbrautaskólanum við Ármúla horfum á bak góðum samstarfsfélaga og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Eddu eiginkonu hans sem og allra ættingja og vina Þórðar.

Magnús Ingvason,

skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Árið 1996 kom Þórður til kennslu við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Í upphafi kenndi hann helst sálfræði en færði sig svo meira í félagsfræðina og þar áttum við mjög gott samstarf í ein 25 ár. Þórður var skemmtilegur maður og samstarfsfélagar minnast þess að stundum átti hann til að tala hátt á kennarastofunni, m.a. þegar hann ávarpaði kennara af erlendum uppruna á þeirra tungumáli eða þá að hann talaði tungum ef ekki vildi betur. Stundum brast hann þá líka í söng og gólaði eina eða tvær laglínur.

Þórður tók virkan þátt í kjarabaráttu kennara og var trúnaðarmaður og formaður kennarafélags Ármúlaskóla. Í kjarabaráttunni lagði hann áherslu á að hún yrði aldrei aðskilin frá fagmennsku í starfi.

Vettvangur hans var enda fyrst og fremst kennslustofan. Þar heilsaði hann nemendum af ekki minni bægslagangi en á kennarastofunni. En hann hlustaði líka og þótti vænt um nemendur sína. Það var gagnkvæmt og ég minnist þess að hafa séð myndband sem nemendur gerðu um lífið í skólanum en þar virtust þeir nokkuð sammála um að Þórður væri besti og skemmtilegasti kennarinn. Hann lagði líka mikla vinnu í að nemendur gætu lært af verkefnum sínum. Hann tók fljótlega upp leiðsagnarmat og skilaði verkefnum til baka eins fljótt og hann mögulega gat og þá með ítarlegum skriflegum og munnlegum athugasemdum um hvað mætti gera betur.

Þegar Þórður greindist öðru sinni með krabbamein í byrjun febrúar á þessu ári fór hann í síðasta sinn í kennslustofu og kvaddi nemendur sína. Þegar hann svo fór út úr stofunni þá stóðu nemendur upp og sérhver þeirra tók utan um Þórð og óskaði honum góðs bata. Hér var augljós sú gagnkvæma væntumþykja sem var Þórði mikils virði.

Þegar ungur maður kveður, þá verður tómarúmið stórt. Fjölskylda Þórðar skipti hann miklu máli og hann var ekki gefinn fyrir að halda mikið til á vinnuherbergjum kennara heldur fór heim fljótlega eftir kennslu. Ég óska Eddu, konu Þórðar, börnum og barnabörnum alls hins besta við að takast á við það tómarúm sem óneitanlega skapast þegar góður maður fellur allt of fljótt frá.

Hannes Ísberg Ólafsson.

Heysátuhylur er ómerktur staður neðarlega í Svartá í Húnavatnssýslu, ekki langt fyrir ofan Kringluna. Á fallegu síðsumarskvöldi fyrir tæpum 20 árum dró ég þar þriðja laxinn á land á rúmum hálftíma. Dolli var að leiðbeina mér og hafði sagt: „Mér líst vel á rennslið þarna – það gæti verið fiskur.“

Þórður Sigurðsson vinur minn var ekki eingöngu frábær laxahvíslari. Hann var einstakt ljúfmenni, besti og skemmtilegasti félagi sem hægt er að hugsa sér. Það voru forréttindi að fá að vera vinur hans. Hann gerði ekki upp á milli manna og öllum leið vel í návist hans – hvort heldur það voru baldnir unglingar í Ármúlanum eða alþjóðlegir burgeisar á árbakkanum. Dolli tók hvorki þátt í öfund né baknagi. Ég minnist þess ekki þau 40 ár sem við lékum okkur saman að hann hafi viljað tala illa um nokkurn mann. Hans fókus var á jákvæðari hliðar lífsins.

Dolli elskaði dýr og menn en engan þó meira en Eddu sína, börnin og barnabörnin. Hann var svo hreykinn og stoltur af ykkur öllum. Missir ykkar er óendanlega mikill – ég græt með ykkur sorgartárum.

Og svo hundarnir. Ég er ekki að segja að hann hafi elskað þá jafn mikið og börnin en ljóst var að honum þótti vænt um hundana sína. Ég var svo heppinn að fá bæði að vera með í fyrstu veiðiferð Birtu og síðar Esju. Það var nú dálítið krúttlegt þegar þessi stóri maður laumaði Birtu inn á herbergið okkar í Langá og leyfði hvolpinum að kúra hjá sér. Hafi það verið glæpur er hann örugglega fyrndur núna.

Dolli var frábær íþróttamaður og var um tíma atvinnumaður í handbolta í Svíþjóð. Þá bjó hann í Lundi en ég í Árósum og náði ég að heimsækja hann nokkrum sinnum þangað eins og fleiri vinir okkar þótt sumar heimsóknir hafi verið örlítið óvæntari en aðrar. Hann hóf golfiðkun fyrir nokkrum árum og náði frábærum árangri á stuttum tíma. Þannig komst hann til dæmis undir fyrrverandi landsliðsmann í forgjöf og geri aðrir betur!

Það er svo auðvelt að vera eigingjarn og óska þess að veiðiferðirnar og golfhringirnir yrðu fleiri. En það er svo ótal margt að þakka fyrir, menntaskólaárin, Hvalstöðin, útlönd, háskóli, giftingar, barneignir, vinna, jólaboð, leikhúsferðir, veiði, golf o.fl. o.fl. Við höfum verið samferða í gegnum lífið. Nú er því lokið eftir hetjulega baráttu en minningin um góðan dreng lifir.

Elsku vinur minn – ég sakna þín.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdimar Briem)

Agnar Hansson.

Minn kæri vinur, Þórður Sigurðsson, Dolli, hefur kvatt langt fyrir aldur fram. Þegar mér bárust þær sorgarfréttir að hann væri látinn, brast eitthvað innra með mér. Þann dag var horfinn á braut einn minn besti og traustasti vinur.

Við Dolli kynntumst fyrst þegar hann kom í bekkinn minn í Laugarnesskóla 1975, 9 ára að aldri. Við brölluðum ýmislegt saman næstu árin. Við vorum duglegir að bera út blöð í hverfinu, spiluðum borðtennis af kappi og einnig vorum við á tímabili mjög duglegir að safna ABBA-myndum. Reyndar sagðist Dolli, síðast þegar við hittumst og rifjuðum upp gamla tíma, helst vilja gleyma því áhugamáli okkar.

Dolli hafði alltaf mikinn áhuga á íþróttum og dró mig með sér á fyrstu handboltaæfinguna hjá Ármanni. Þar spiluðum við saman frá 5. flokki og upp úr og einnig í yngri landsliðum Íslands. Dolli var alltaf mikill Valsari og mörg undanfarin ár fórum við saman á úrslitakeppnina í handbolta. Oftast var Valur þar í eldlínunni. Í ár bar hins vegar svo við að við félagarnir mættum ekki á völlinn, sökum þess að heilsu Dolla fór hrakandi.

Dolli var vinamargur og átti auðvelt með að eignast vini og einnig átti hann auðvelt með að sameina vini sína úr ólíkum áttum. Þegar Dolli flutti úr Laugarneshverfinu í Breiðholtið, var erfitt að horfa á eftir góðum vini. En flutningurinn breytti engu, vinskapurinn hélst áfram í gegnum handboltann. Það leið nefnilega ekki á löngu þar til hann var búinn að fá fimm skólabræður sína í Ölduselsskóla til að koma með sér á handboltaæfingar í Ármanni. Með þeim skapaðist síðan traustur vinskapur, sem varað hefur í mörg ár. Það var ekki bara handbolti og fótbolti sem áttu hug Dolla allan heldur heillaðist hann fljótt af stangveiði, sem hann stundaði af kappi og varð seinna leiðsögumaður, enda þekkti hann manna best hvernig krækja átti í þann stóra. Hann naut þess að vera úti í náttúrunni, að vinna við það sem hann elskaði mest og ekki spillti fyrir að veiða með góðum vinum og fjölskyldunni.

Dolli var mikil húmoristi og gleðigjafi. Hann hafði gaman af að taka lagið og þótt söngurinn væri kannski ekki hans sterkasta hlið, þá söng hann manna hæst og mest. Hann hafði einstakt lag á því að koma mönnum í gott skap og vildi hafa alla glaða. Hann útvegaði tíma í bumbubolta, skipulagði veiðiferðir, þorrablót og ýmislegt annað, því þetta skipti hann miklu máli. Þá eru ógleymanlegar ferðirnar sem vinahópurinn fór saman á Þingvöll og Laugarvatn og ekki má gleyma verslunarmannahelginni 1985 í Atlavík, þegar keypt var gömul Cortina og keyrt austur. Það átti að vera ódýrara en að fara til Eyja.

Að leiðarlokum kveð ég traustan vin. Vin sem gat hlustað og var alltaf tilbúinn að hjálpa ef svo bar undir. Vin sem hafði sterkar skoðanir og var hreinskiptinn um menn og málefni ef honum fannst halla á einhvern. Minning um góðan dreng og gleðigjafa mun aldrei gleymast.

Elsku Edda, Bjössi, Salka, Þórhildur, Bragi og fjölskyldur. Ég votta ykkur samúð mína á þessum erfiðum tímum. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Ingólfur

Steingrímsson.

Dolli, eins og hann var kallaður, veiktist af illvígum sjúkdómi fyrir rúmum þremur árum.

Hann barðist hetjulega við þennan vágest og varð skárri um tíma með von um bata en átti erfiðari tímabil þess á milli.

Dolli hafði þann hæfileika að gera alla daga betri með frábæru viðhorfi til lífsins.

Alltaf var hann jákvæður og raunar hressasti maður alveg undir það síðasta, þótt veikur væri orðinn.

Dolli starfaði lengst af sem framhaldsskólakennari við góðan orðstír. Sumrin nýtti hann vel í laxveiði, sem var hans aðaláhugamál, bæði sem leiðsögumaður og prívat með góðum félögum. Hann var mikill fjölskyldumaður og vinmargur.

Dolli hafði sterka nærveru, það fór ekki á milli mála þegar hann var meðal fólks.

Hann naut þess að vera til og lifa lífinu og hafði einstakt lag á því að gera alla kringum sig glaða og mikilsverða.

Eftir sitja minningar um einstakan og hjartahlýjan mann sem verður sárt saknað.

Við kveðjum Dolli með söknuði.

Elsku Edda, börn, tengdabörn og barnabörn, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og mun minningin um yndislega Dolla lifa í hjarta okkar að eilífu.

Karin og Aron.

Elsku Dolli, einhvern tíma í grallaraskap, löngu fyrir veikindin og þú að rústa mér í einhverju spilinu, þá spurðir þú í glettni: „Hvað myndir þú skrifa um mig í minningargrein – myndirðu ekki segja að ég væri æðislegur? – mér finnst það allavega,“ sagðir þú og hlóst ógurlega. Ég man ekki hverju ég svaraði þá, en ég var þér sammála, þrátt fyrir að þurfa kyngja enn einu tapinu gegn þér í einhverjum leiknum. Þannig minnist ég þín, elsku vinur, allt frá því að við kynntumst fyrst á Hlíðarenda ellefu ára gamlir, þá varstu alltaf þessi einbeitti, ærslafulli keppnismaður, fullur af lífsgleði og ástríðu gagnvart því sem þú tókst þér fyrir hendur, hvort sem það var veiði, spil, golf eða aðrar boltaíþróttir, og alltaf tókst þér að ná árangri og verða góður. Gegn þér var eiginlega ekki hægt að vera tapsár, þvílík var keppnis- og sigurgleðin í brjósti þér, ástríðan fyrir lífinu. Af þessari sömu ástríðu, ást þinni á lífinu, fjölskyldunni, elsku Eddu þinni, börnum ykkar og barnabörnum var baráttan við illvígan vægðarlausan sjúkdóm háð síðustu árin, allt þar til yfir lauk. Elsku vinur, með virðingu og þakklæti í huga vil ég þakka þér samfylgd og vináttu í gegnum árin. Minningar um góðan dreng munu lifa. Í dag er hugur okkar hjá ástkærri fjölskyldu þinni sem ég votta mína dýpstu samúð, missir ykkar er mikill.

Hvíl í friði, kæri vinur.

Davíð Vikarsson.

Hann Dolli vinur minn er dáinn. Ég held að maður sé aldrei viðbúinn slíkum sorgarfregnum. Ég spjallaði við hann í síma á föstudagskvöldi eftir landsleikinn við San Marinó en hann hafði ekki mikinn áhuga á að ræða leikinn. Mér fannst það ólíkt honum en heyrði jafnframt á honum að hann var ansi þreyttur og máttfarinn. Við spjölluðum skamma stund og töluðum um að hittast kannski eftir helgina og taka smá spjall. Það varð hins vegar aldrei, þar sem hann lést snemma á þriðjudagsmorguninn.

Ég kynntist Dolla fyrir tæpum 30 árum. Hann hafði þá verið ráðinn sem þjálfari handknattleiksliðs Ármanns og birtist á æfingu í Vogaskóla, öllum að óvörum. Dolli var bráðgreindur og staðfastur og fljótur að ná hópnum á sitt band. Úr varð samstilltur hópur innan Ármanns sem spilað lengi saman. Traustur og skemmtilegur vinahópur, sem enn heldur góðu sambandi.

Við Dolli þóttum áþekkir í útliti, nánast bræðrasvipur fyrir suma. Báðir tæpir tveir metrar á hæð og rétt um hundrað kílóin, auk þess að verða síðan hálfsköllóttir á svipuðum tíma. Dolli kom stundum heim til mín í rakstur og muna krakkarnir mínir eftir þessum stóra, skemmtilega manni, sitjandi í baðkarinu heima hjá mér, ber að ofan, skellihlæjandi og ég að raka á honum skallann.

Það var alltaf gaman með Dolla, hvort heldur var við veiðar, á Íslandsmótinu í Manna, Dingaling á Múlakaffi, í skötuveislum á Þorláksmessu eða hverju öðru sem við tókum þátt í, sem var mjög margt á þessum 30 árum. Við höfðum líka gaman af því að hnýta flugur og svo fór að ég gaf honum fluguhnýtingasafnið mitt þegar áhugi minn þvarr og hans áhugi jókst til muna á sama tíma. Við fórum í fjölda eftirminnilegra veiðiferða vítt og breitt um landið með ýmsum hópum. Eitt áttu allar þessar veiðiferðir sameiginlegt. Í þeim var gaman, lífsgleðin og skemmtileg nærvera Dolla gladdi alltaf nærstadda og ekki síður hann sjálfan. Hann var mikill söngmaður og við höfðum gaman af því að syngja saman og sungum hátt. Einu sinni var Hamraborgin meira að segja sungin uppi á strompi á húsi vinar okkar á Akureyri undir morgun, á leið okkar í Laxárdalinn til veiða. Þá var aldeilis hlegið. Svo sungum við „You Never Walk Alone“ þegar ég kom við hjá honum á bakka Víðidalsár, þar sem hann starfaði sem leiðsögumaður snemma sumars 2019, á leið norður í Svalbarðsá með Liverpool-trefil sem ég gaf honum.

Ég man ennþá þegar Dolli hringdi í mig fyrir nokkrum árum og sagði mér af veikindum sínum og bað mig afsökunar á að hafa ekki látið mig vita fyrr. Við spiluðum golf og spjölluðum saman í síma endrum og sinnum. Við héldum alltaf ágætu sambandi, þótt ég hefði kosið að hafa ræktað sambandið betur nú, þegar hann er horfinn til austursins eilífa.

Elsku Edda, Salka, Þórhildur, Bjössi, Bragi bróðir og allt ykkar fólk. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar. Það er mikil sorg sem hrjáir mig við að skrifa þessi orð um minn kæra vin en ég veit að minningin um gleðina, skemmtilegu stundirnar og lífsgleðina sem Dolli gaf gegnum tíðina, mun fljótt yfirstíga sáran missi og minningin mun lifa.

Jóhann Gunnar Stefánsson.