Walter Arneson fyrsti golfkennari landsins og var kallaður Walli.
Walter Arneson fyrsti golfkennari landsins og var kallaður Walli. — Ljósmynd/GSÍ
Golf fagnar 80 ára afmæli á Íslandi í ár og segir Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands (GSÍ), fjölbreytta dagskrá fyrirhugaða á árinu til að fagna því.

Golf fagnar 80 ára afmæli á Íslandi í ár og segir Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands (GSÍ), fjölbreytta dagskrá fyrirhugaða á árinu til að fagna því. Er nákvæm dagskrá núna í vinnslu og stefna þau á að fagna 80 ára afmæli íþróttarinnar á Íslandi með pompi og prakt.

Haldin verður athöfn í september til að fagna þessum áfanga, þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður viðstaddur. Athöfnin verður haldin í Laugardalnum, þar sem fyrsti golfvöllur landsins var settur upp. Segir Hulda markmiðið með hátíðarhöldunum vera að passa upp á söguna og að nýta þessi tímamót til að halda utan um sögu golfs á Íslandi.

Er dagsetning 80 ára afmælisins miðuð við stofnfund GSÍ. Hann var 14. ágúst 1942, þegar fulltrúar þriggja fyrstu golfklúbbana komu saman til að stofna Golfsamband Íslands. Golf á Íslandi á upphaf sitt aðrekja til íslenskra lækna, sem kynntust íþróttinni erlendis og fluttu hana með sér heim upp úr 1930. Þá kom fyrsti golfkennari landsins árið 1935 frá Danmörku til að kenna golf í gamla Landsímahúsinu.

Bendir Hulda á að GSÍ sé elsta sérsambandið innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og fór því íþróttastarfsemi Íslands af stað samhliða byrjun golfs á Íslandi.

Þá eiga sex golfklúbbar stórafmæli á þessu ári. Golfklúbbar Patreksfjarðar, Kiðjabergs, Víkur og Bíldudals eiga allir 30 ára afmæli á þessu ári. Þar að auki á golfklúbbur Hellu 70 ára afmæli og golfklúbbur Brautarholts tíu ára afmæli. Því er ljóst að golfáhugamenn hafa ýmsu að fagna á árinu.