Ólíklegt er að fundir vikunnar skili miklu

Leiðtogar vestrænna ríkja funda stíft þessa dagana. Fundalotan hófst í gær í mikilfenglegum kastala, sunnarlega í Bæjaralandi, þar sem umhverfið er eins glæsilegt og hægt er að hugsa sér. Þó er óvíst hvort hægt verður að segja það sama um niðurstöðu fundahaldanna. Þetta er G7-fundurinn svokallaði, þar sem þau ríki, sem telja sig helstu iðríki heims, funda. Um miðja vikuna flytja flestir fundarmenn sig til Madrídar, þar sem þeir hitta aðra leiðtoga NATO-ríkjanna. Aðbúnaðurinn verður glæsilegur þar líka, en ekki er síður óvíst hvort að niðurstaða fundarins endurspeglar það. Staðið hefur til að samþykkja umsókn Svíþjóðar og Finnlands um inngöngu á þessum fundi en nú eru vonir um það orðnar daprar. Forseti Tyrklands telur ríkin tvö ekki hafa staðið sig í baráttunni við hryðjuverkamenn, sem hann glímir við, auk þess sem vopnasölubann á Tyrkland hefur eðli máls samkvæmt ekki hjálpað. Því gæti töluverður dráttur orðið á inngöngunni.

Þetta mál verður væntanlega það sem mesta athygli fær á fundinum, fyrir utan afstöðuna til stríðsins í Úkraínu. Fundarhaldarinn Spánn mun einnig vilja beina sjónum annarra NATO-ríkja að vandamálum sem snúa að suðurhluta bandalagsins og þá sérstaklega ástandi flóttamannamála í Norður-Afríku og ófriðnum á Sahel-svæðinu, sem fóðrar flóttamannastrauminn. Þeim ófriði er meðal annars haldið uppi af rússneskum málaliðum. Ekki þarf að efast um að forseti Rússlands vill gjarnan að NATO-ríkin í Evrópu þurfi að glíma við flóttamannavanda úr þessari átt.

Innrás Rússlands í Úkraínu og þær hörmungar sem hún hefur skapað, er þó auðvitað þungamiðja þessara leiðtogafunda. Fundurinn í gær hófst á því að nú yrði enn hert á efnahagsþvingunum og það með því að hindra sölu Rússlands á gulli. Í umfjöllun þar um kom fram að gullsala væri önnur stærsta tekjulind Rússlands um þessar mundir, á eftir sölu á gasi og olíu sem Evrópuríkin kaupa enn í miklum mæli og fylla á ríkissjóð Rússlands á hverjum degi af slíkum ákafa að sjaldan hefur annað eins sést.

Gullviðskiptin koma auðvitað á óvart eftir að hert hefur verið á aðgerðum samfellt í rúma fjóra mánuði en þau ættu ef til vill ekki að gera það, því að Evrópuríkin seldu Rússum búnað fyrir herinn löngu eftir að þeir hófu innrásina og væru sennilega enn að, ef ekki hefði komist upp um þau.

Efnahagsþvinganirnar verða líklega til þess, þar sem Rússar geta ekki millifært inn á lán, að þeir verði í dag, eða hafi í gær eftir því hvernig á það er litið, orðið fyrir greiðslufalli í fyrsta sinn eftir byltinguna fyrir rúmri öld. Einhverjir hafa viljað líta á þetta sem mikinn viðburð, sem muni þvælast fyrir Rússum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en það er auðvitað mjög orðum aukið. Staðreyndin er sú að Rússar eiga ekki mikið erindi við fjármálamarkaði á næstunni, miðað við það sem streymir inn í ríkissjóðinn.

Þegar lagt var af stað í efnahagsþvinganirnar, vonuðust flestir eftir að árangurinn yrði meiri, en staðreyndin er sú að hann er í besta falli lítill, enn sem komið er. Almenningur í Rússlandi virðist ekki finna mikið fyrir aðgerðunum og Pútín forseti hefur ekki látið þær trufla sig. Danska viðskiptablaðið Børsen fjallaði um þessar aðgerðir í fréttaskýringu um helgina og sagði þar að Pútín gæti unnið efnahagsstríðið við Vesturlönd. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að Evrópuríkin, einkum Þýskaland, eru svo háð orku frá Rússlandi, að þau geta í raun ekki beitt sér efnahagslega og hika þess vegna einnig mjög við að beita sér hernaðarlega.

Í þessu ljósi verða ummæli Bidens forseta, um það hve vel Scholz kanslari hafi staðið sig gagnvart málefnum Úkraínu, í besta falli brosleg. Í þessu ljósi verður líka að horfa á þá hugmynd sem leiðtogarnir hafa til umfjöllunar á G7-fundinum, um að setja verðþak á orkukaup frá Rússlandi. Pútín forseti gæti snúið dæminu við og sagst hafa ákveðið að hækka verðið til Evrópu. Hvað gera Þjóðverjar þá? Rússar hafa nú tímabundið dregið úr sölu til Þýskalands og segjast vinna að viðhaldi. Hvað gera Þjóðverjar ef Rússar auka viðhaldsvinnuna eða draga hana á langinn? Hvor ætli depli auga fyrst í þeirri störukeppni, Schulz eða Pútín?

Umræður um verðþak eru því miður ekki trúverðugar og lýsa, ásamt ýmsu öðru, því að vestræn ríki séu að verða ráðþrota. Þar er ekki síst því um að kenna að þau skortir leiðtoga sem þora að taka af skarið. Á meðan er hætt við að áhugaleysi almennings fari að gera vart við sig og jafnvel alvarleg þreyta vegna ástandsins. Þetta viðurkenndi Boris Johnson forsætisráðherra í samtölum í gær.

Eitt af því sem Vesturlönd verða að gera, ætli þau að geta tekist á við þá ógn sem stafar af Rússlandi undir forystu Pútíns, er að taka til í orkumálum sínum. Þar dugar auðvitað ekkert að tala um verðþak. Það sem þarf er að þau framleiði sjálf meiri orku. Lokun kjarnorkuvera í Þýskalandi gengur þvert gegn þessu og hið sama er að segja um aðgerðir Bidens gegn orkuframleiðslu og orkuleiðslum í Bandaríkjunum. Öll umræða um orkumál er á villigötum í þessum ríkjum og jafnvel rúmir fjórir mánuðir af stríði hafa ekki dugað til að bæta þar úr. Ef til vill þarf kaldan veturinn til að menn átti sig en vonandi þarf ekki að koma til þess. Því miður eru þó litlar líkur á að Biden, Scholz eða aðrir vakni á fundum vikunnar.