Brandur Jónsson fæddist í Grafardal 13. okt. 1938. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi, 17. jún. 2022.

Foreldrar hans voru Jón Böðvarsson, bóndi í Grafardal, f. 5. jún. 1901, d. 15. jan. 1963, og Salvör Brandsdóttir, f. 22. feb. 1905, d. 14. apr. 1951. Systkini Brands voru fjögur, tvö þeirra eldri og tvö yngri, Þuríður, f. 31. jan. 1933, d. 26. okt. 2005, Brandur, f. 12. maí 1937, d. 11. sep. 1938, Kristín, f. 1. des. 1939 og Böðvar, f. 20. jún. 1942.

Brandur kvæntist Guðfinnu Soffíu Sveinsdóttur frá Svarfhóli 10. júlí 1965. Guðfinna lést 25. júlí 2020. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Salvör, f. 3. jan 1966, gift Birni Þorra Viktorssyni, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 2) Sveinn, f. 8. sept 1967, giftur Olgu Grevtsovu, þau eiga þrjú börn. 3) Jón, f. 5. jún 1970, giftur Bergnýju Dögg Sophusdóttur, þau eiga þrjár dætur. 4) Heiðdís Björk, f. 15. apr. 1981, hún á tvö börn.

Brandur stundaði nám við Íþróttaskólann í Haukadal og við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði. Hann útskrifaðist síðan sem búfræðingur frá Hvanneyri 1958. Hann var kennari á Hvalfjarðarströnd 1958-1963 ásamt því að vinna í átta vertíðir í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Árið 1965 hóf hann, ásamt Guðfinnu, búskap í Katanesi á Hvalfjarðarströnd. Þar bjuggu þau til ársins 1999 er þau fluttu að Jörundarholti 24 á Akranesi.

Útför Brands fer fram frá Akraneskirkju mánudaginn 27. júní 2022 kl. 13. Hægt verður að nálgast streymi frá útförinni á vef Akraneskirkju.

Elsku afi minn.

Við höfum alltaf verið góðir vinir og átt gott samband og þótti mér sérstaklega vænt um að fá að vera mikið í kringum þig seinustu tvö ár. Þú brostir alltaf út að eyrum um leið og þú komst auga á mig, sem mér þótti mjög vænt um. Ég mun alltaf halda mikið upp á þann tíma sem ég eyddi heima hjá ykkur ömmu og allar þær minningar sem við áttum í Jöró og ferðirnar upp í Katanes. Það sem stendur mest upp úr er þegar þið amma kennduð mér að gera kjötfarsbollur, þegar þú hitaðir fiskiroð á hellunni og borðaðir það eins og tyggjó og rabbabara- og kartöflustússið í garðinum. Þú hafðir endalausa þolinmæði fyrir orkumiklu mig og varst alltaf til í að leika við okkur barnabörnin, varst í raun hinn fullkomni afi. Þú nenntir alltaf að horfa á teiknimyndir með okkur og leika við okkur, áttir alltaf ís og kókómjólk og varst í raun oft algjört barn í anda. Það má heldur ekki gleyma að minnast á eplakökuna hans Brands afa, ein af fáum eplakökum sem fara inn fyrir mínar varir.

Þó það sé sárt að geta ekki spjallað við þig lengur eða kíkt í heimsókn upp í Jörundarholt eftir skóla þá er ég þakklát fyrir það að þú hefur loksins fengið hvíldina eftir öll þessi veikindi, þó þú hafir tekið þeim með brosi á vör eins og þér einum var lagið.

Takk fyrir allt elsku hjartans afi minn, mun sakna þín endalaust.

Þín afastelpa,

Guðný Rós.

Ég er alls ekki minnug á barnæskuna en einhver talaði um að maður muni ekki alltaf hvað fólk sagði, heldur hvernig manni leið í kring um það. Það á svo sannarlega við um afa Brand. Hann hafði blíða og góða nærveru og var sjaldan að flýta sér neitt. Hann var sá fyrsti sem fékk boð með út á róló og það dró til tíðinda ef hann var ekki mættur í bláa kuldagallann á næstu mínútunum. Afi talaði alltaf til barna af mikilli virðingu og sat einhvern veginn svo rólegur í sínu eigin skinni, æsti sig aldrei og var einstaklega þolinmóður fyrir hvers kyns vitleysu sem okkur barnabörnunum datt í hug.

Hann var sá eini fullorðni sem ég þekkti sem hjólaði út um allt og það lýsir honum svo afskaplega vel. Bíllinn of hraður og lífið of stutt til að ganga þegar maður getur hjólað. Hann sá gleðina í litlu hlutunum og fannst engin ástæða til að bíða eftir hátíðardögum til að baka pönnsur eða hella vel af rjómanum út á grautinn. Ég verð ævinlega þakklát fyrir stundirnar sem ég átti með ömmu og afa í Jörundarholti, á náttfötunum með hárið út í loftið við eldhúsborðið á sunnudagsmorgnum.

Öll mættum við líkjast afa Brandi meira, leika við börnin, hugsa hlýlega til náungans og fá okkur auka sykurmola í kaffið.

Til sumarlandsins fer drengur góður,

kveður líkama gamlingjans.

Sér þar um dýr og blómlegan gróður,

brosir svo breitt, og stígur í dans.

Hvíldu í friði elsku afi minn.

Guðfinna Kristín Björnsdóttir.

Afi Brandur gekk sannarlega götuna til góðs alla tíð.

Það sem einkenndi heimsóknir til ömmu og afa var hlýja, væntumþykja og tími. Þau gáfu sér alltaf tíma til að bara vera.

Með afa fékk ég að upplifa hluti öðruvísi. Engar áhyggjur af skítugum puttum, grasgrænu í fötum, heyi í hári eða öðru subbuslubbi. Afi skoraði á okkur að hoppa í heyið, sulla í pollum, prófa að koma við alls konar í skúrnum, kasta steinum og spjalla við dýrin. Þegar amma bakaði pönnsur var afi minn bandamaður og laumaði gjarnan að mér forboðnum sykurmola úr hinum enda sykurkrúsarinnar. Það lýsir honum kannski hvað best. Allt fyrir barnanna gleði.

Afa féll aldrei verk úr hendi og var sífellt að dytta að og laga hina ýmsu hluti, nánast fram til síðasta dags. Allt sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann vel. Það unnust nú ófáir viðgerðarsigrar með límbandi, baggabandi og nokkrum skrúfum hér og þar. Svo var auðvitað engu hent og kenndi því ýmissa grasa í skúrnum.

Í seinni tíð geri ég mér betur grein fyrir því hversu duglegt, óeigingjarnt og þrautseigt fólk afi og amma í raun voru. Ég verð alltaf þakklát þeim fyrir þau tækifæri sem þau sköpuðu okkur sem á eftir komum. Minning þeirra lifir.

Glettinn var hann og barngóður,

dugandi og ráðvandur.

Um ótal margt svo ægifróður,

já það var hann afi Brandur.

Með lím- og baggaband í hendi

afi minn kunni allt að laga.

Hann útsjónarsamur með

eindæmum var

og fróður um ættir og átthaga.

Í fjörunni kenndi mér að finna

kuðunga og ígulker.

Það skorar þó hæst meðal minninga

minna

er 'ann bauð á rúntinn á LandRover.

Hvort hann sé með ömmu og horfi til

okkar glaður,

hvað tekur við og hvert hann fer,

það eitt er víst að góður maður

veginn allan genginn er.

Anna Lilja Björnsdóttir.