Reykjavíkurborg sendi í liðinni viku frá sér uppgjör fyrsta fjórðungs ársins. Þar urðu engar breytingar, enda ekki búið að gjörbreyta meirihluta borgarstjórnar, eins og nú.

Reykjavíkurborg sendi í liðinni viku frá sér uppgjör fyrsta fjórðungs ársins. Þar urðu engar breytingar, enda ekki búið að gjörbreyta meirihluta borgarstjórnar, eins og nú.

Tapið er áfram mikið og vaxandi. Það nemur 4,8 milljörðum á þessum þremur mánuðum, sem er nokkuð vel í lagt, og er tveimur milljörðum meira en áætlað hafði verið, sem er um það bil óbreytt frá því sem verið hefur og sýnir stöðugleika og festu meirihlutans.

Annað, sem hefur ekki breyst, er kynningin á niðurstöðunni. Þó verður að viðurkenna að hún kemur nokkuð á óvart, í ljósi þess að nú var það nýr og breyttur meirihluti sem stóð að kynningunni. Gott ef það var ekki glænýr og gjörbreyttur staðgengill borgarstjóra sem bar ábyrgð á hvernig þetta var kynnt.

Í kynningunni segir frá því hvað skýrir lakari rekstrarniðurstöðu en áætlað hafði verið og er þar eitt og annað tínt til sem jók kostnaðinn. Þar er hins vegar ekkert talað um þær tekjur sem borgin fékk umfram áætlun, sjö hundruð milljónir, hvað þá umfram sama tímabil í fyrra, þrír milljarðar!

Fyrir Reykvíkinga er áhyggjuefni að breytingarnar miklu skuli ekki að minnsta kosti skila breyttri og bættri upplýsingagjöf. Þó er ekki síður áhyggjuefni að skuldavandi borgarinnar varð til þess að næstum milljarði til viðbótar þurfti að verja í fjármagnsgjöld, miðað við áætlun.

Ekkert bendir til að nokkur breyting hafi orðið hvað skuldavandann snertir.