Blómahaf Óslóarbúar þyrptust sorgmæddir að vettvangi ódæðisins sem framið var í höfuðborginni aðfaranótt laugardags og lögðu blóm á götuna.
Blómahaf Óslóarbúar þyrptust sorgmæddir að vettvangi ódæðisins sem framið var í höfuðborginni aðfaranótt laugardags og lögðu blóm á götuna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Óslóarbúar eru harmi slegnir eftir skotárás í Rosenkrantz gate í miðborginni aðfaranótt laugardags. Um klukkan 01:15 þá um nóttina, 23:15 að íslenskum tíma, dró 42 ára gamall norsk-íranskur maður, Zaniar Matapour, upp skammbyssu við skemmtistaðinn London Pub, sem hinsegin fólk sækir mjög, og hóf skothríð.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Óslóarbúar eru harmi slegnir eftir skotárás í Rosenkrantz gate í miðborginni aðfaranótt laugardags. Um klukkan 01:15 þá um nóttina, 23:15 að íslenskum tíma, dró 42 ára gamall norsk-íranskur maður, Zaniar Matapour, upp skammbyssu við skemmtistaðinn London Pub, sem hinsegin fólk sækir mjög, og hóf skothríð.

Mikil skelfing greip um sig og forðuðu gestir og vegfarendur sér á hlaupum í allar áttir. Lögregla var fljót á vettvang og hafði handtekið Matapour þegar klukkan 01:19. Vegfarandi hafði þá skellt honum í götuna, annar stigið ofan á skammbyssuna og lágu að lokum fjórir ofan á honum, þegar lögregla kom að og handtók hann.

Tveir menn á sextugs- og sjötugsaldri létust í atlögu Matapours og 21 særðist. Hafði Ullevål-sjúkrahúsið uppi sérstakan viðbúnað og kallaði út mannskap til að gera að sárum fórnarlambanna. Á þriðja tímanum í nótt hafði lögregla safnað um 40 vitnum á Thon Hotel Rosenkrantz og tók af þeim skýrslur.

Af hreinni illsku

Eigendur London Pub skrifa á Facebook-síðu staðarins að árásin hafi verið hörmuleg og framkvæmd af hreinni illsku. „Hugur okkar er hjá þeim sem létust og særðust og aðstandendum þeirra,“ segir þar. Þá sendi Jonas Gahr Støre forsætisráðherra aðstandendum samúðarkveðju og sagði auk þess: „Við hinsegin fólk sem nú óttast og syrgir, segi ég að við stöndum öll með ykkur.“

Helgin var lokapunkturinn í tíu daga dagskrá Oslo Pride-hátíðar hinsegin fólks og var gleðigöngunni á laugardaginn aflýst í kjölfar voðaverks Matapours. Hann er nú grunaður um manndráp, tilraun til manndráps og hryðjuverkaárás en lögregla gaf fljótlega út að málið væri rannsakað sem hryðjuverk. Hefur Matapour áður hlotið dóma fyrir hnífstunguárás og handhöfn fíkniefna og var, frá því fyrir árásina, á lista norsku öryggislögreglunnar PST yfir varhugaverða.

Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóri gaf á laugardag út þá tilskipun að allir lögreglumenn í Noregi skyldu ganga með skotvopn næstu daga. Dómkirkjan í Ósló, auk fleiri kirkna borgarinnar, opnaði syrgjendum dyr sínar í hádeginu á laugardaginn og Marianne Borgen borgarstjóri kvað marga hafa hlakkað til gleðigöngunnar sem aflýst var. „Þetta er ótrúlega sorglegt en nauðsynlegt og gert að tillögu lögreglunnar,“ sagði borgarstjóri við Avisa Oslo um helgina.

Inger Kristin Haugsevje, stjórnarformaður Oslo Pride, sagði í samtali við mbl.is á laugardaginn að hún og hennar fólk væru í áfalli og sorg en gleddust þó innilega yfir öllum sem hugsuðu til þeirra og sýndu stuðning. „Í dag eru regnbogar um alla Ósló,“ sagði Haugsevje.

„Þegar við komum inn í borgina á laugardaginn varð maður strax var við lögreglubíla og mikinn viðbúnað lögreglu,“ segir Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem var á ferð um Noreg í hópi um 40 Íslendinga og dvaldi á hóteli rétt við London Pub. „Mannmargt var á götum og þéttist hópurinn eftir því er nær dró miðborginni. Við London Pub var mikið blómahaf og var fólk þar endalaust að bæta í,“ segir Sigurður Bogi af upplifun sinni á laugardaginn.

Slegin og sorgmædd

Kveður hann geðshræringu viðstaddra hafa verið áberandi, tár glitrað á hvörmum og ungt fólk verið áberandi. „Sérsveitarmenn sátu í brynvörðum bílum við Karls Jóhannsgötuna þar sem konungshöllin er og þinghúsið. En svo var þetta mun minna í dag [í gær], lögreglan var með varðstöðu við barinn og enn bættist í blómahafið,“ lýkur Sigurður Bogi frásögn sinni.

„Við erum slegin og sorgmædd yfir að ráðist hafi verið á Pride-hátíðina sjálfa í Noregi en fyrst og fremst syrgjum við systkini okkar sem liggja í valnum,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna 78, í samtali við Morgunblaðið.

Segir hann atvik á borð við það sem varð um helgina ekki mega verða til þess að hinsegin fólk missi máttinn eða sundrist. „Við verðum mun frekar að halda þétt um hvert annað, sýna styrk í samstöðunni og styðja stolt við bakið hvert á öðru,“ segir Álfur enn fremur.

„Ég er ánægður með þau sem tóku sig til og gengu samt sínar eigin gleðigöngur í Ósló. Ég held að það sé það sem þau þurftu þennan dag. Við sendum samúðarkveðjur til aðstandenda og alls hinsegin fólks í Noregi,“ segir formaðurinn að lokum.

Ljóst að hann var að verki

Að lokum átti Morgunblaðið samtal við John Christian Elden, verjanda Matapours, í gær. „Hér er náttúrulega alveg ljóst að hann var að verki og að hann var einn,“ segir Elden. „Árásin beindist einkum að skemmtistað sem heitir Per på hjørnet, þar sem þeir tveir sem létust voru gestir. Sá staður hefur ekkert með Pride að gera. Eins og staðan er vitum við ekkert um hver ástæðan fyrir þessum manndrápum var eða hvort andlegir annmarkar séu þar kveikjan,“ heldur Elden áfram og bætir því við að sá grunaði hafi enn ekki gefið lögreglu skýringu á gjörðum sínum. Hins vegar hafi hann fallist á gæsluvarðhaldsúrskurð.

Ekki til skoðunar að auka gæslu á Kíkí queer bar

• Norðurlönd ekki jafnréttisparadís eins og margir halda Árni Grétar Jóhannsson, eigandi Kíkí queer bar, sem er vinsæll skemmtistaður meðal hinsegin fólks í miðbæ Reykjavíkur, segir í samtali við fréttastofu Morgunblaðsins að ekki sé til skoðunar að bæta við gæslu á staðnum en að skotárásin í Ósló veki upp mikinn óhug innan hinsegin samfélagsins.

Bendir hann þó á að á Kíkí hafi alltaf verið mikil öryggisgæsla. Tvöföld gæsla er á staðnum miðað við það sem skemmtanaleyfi þeirra segir til um. Segir hann það vera stefnu skemmtistaðarins að fólki líði mjög öruggu, hvort sem gestir eru hinsegin eða ekki. „Það er mikilvægt að fólk geti auðveldlega fundið dyravörð og að það sé einhver að fylgjast með því að það sé ekki verið að byrla fólki ólyfjan og fleira.“

Segir Árni að þetta veki upp mikinn óhug. Upp hafi komið atvik á staðnum sem beri vott um fordóma í garð hinsegin fólks. Segir hann atvikin þó ekki hafa verið tengd líkamlegu ofbeldi, heldur eru dæmi um að blöðungum hafi verið dreift með trúarlegum skilaboðum, sem setji út á kynhneigðir hinsegin fólks og annars konar áreiti.

Spurður hvort skotárásin sé merki þess að Norðurlönd séu ekki alveg jafn mikil jafnréttisparadís og margir lifi í trú um, svarar Árni því játandi. „Það er alveg langt því frá og því miður eru til veikar sálir alls staðar. Við getum heldur ekki gleymt áhrifum stjórnmálamanna og annarra sem stíga fram um allan heim og búa til svona „við og þau“ viðhorf og þessa aðgreiningu á milli mismunandi hópa,“ segir Árni og bætir við að besta leiðin til að koma í veg fyrir svona ofbeldisfullar atlögur sé að stöðva þá afmennskun, sem eigi sér stað gagnvart ýmsum hópum. tomasarnar@mbl.is