Sigurlín Hermannsdóttir skrifar í Boðnarmjöð: „Sumarið er ekki bara sól og sæla“. Enn koma upp kórónusmit, kolbrúnt er birkið á lit, vaxtamál alls ekkert vit, og virðist nú mikið um bit.

Sigurlín Hermannsdóttir skrifar í Boðnarmjöð: „Sumarið er ekki bara sól og sæla“.

Enn koma upp kórónusmit,

kolbrúnt er birkið á lit,

vaxtamál alls ekkert vit,

og virðist nú mikið um bit.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir dregur upp þessa fallegu ljóðmynd:

Fjörukambur, grasið grær,

við gamla hleðslu liggur ær

uppi á hólnum, aðeins fjær

er önnur þúst.

Þar var áður bóndabær

nú brotin rúst.

Fyrir neðan fjaran grá

full af viði, aldan blá

rekavið sem enginn á

upp að landi ber.

Mér finnst aðeins synd að sjá

sóunina hér.

Ólafur Stefánsson yrkir um líðandi stund:

Hitastigið heldur lágt,

því hækka róminn:

Fuglar eiga bara bágt

og blómin.

Seðlabankinn sýnir mátt,

sendir tóninn.

Fuglar eiga fjarska bágt

eins fylliróninn.

Samfylkingar bátar brátt

í böndin toga.

Flokkurinn á hæpinn hátt

hafnar Loga.

Sigtryggur Jónsson skrifar: „Um hásumar, rétt að loknum sumarsólstöðum, er þetta staðan“:

Sól er úti en svalur vindur,

sumartíminn napur er.

í Heljargreip er Heklutindur,

heitrar golu óska mér.

Jón Arnljótsson yrkir:

Karl þú vera í krapi skalt,

(klisjan fína)

sem að kallar ekki allt

ömmu sína.

Ingólfur Ómar Ármannsson bætir við:

Gleymist öng við gleðisvall

gamansöng og hlátur,

Öls við föng og ástarbrall

uni ég löngum kátur.

„Stef“ eftir Steingerði Guðmundsdóttur:

Til eru grös sem græða sár –

í grænum dal þau skarta.

En lyfin sem þín lækna tár

er læst í mannsins hjarta.

Það finnast orð sem angra – þjá –

orð sem vonsku hrekja.

En þagnarmálið mælir sá

er má þér ástir vekja.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is