HM Hilmar Örn Jónsson úr FH tryggði sér sæti á HM í næsta mánuði þegar hann kastaði sleggjunni 75,2 metra. Íslandsmet hans er 77,1 metri.
HM Hilmar Örn Jónsson úr FH tryggði sér sæti á HM í næsta mánuði þegar hann kastaði sleggjunni 75,2 metra. Íslandsmet hans er 77,1 metri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsíþróttir Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Flest besta frjálsíþróttafólk landsins tók þátt á Meistaramóti Íslands í Kaplakrika um helgina, þar sem fjögur mótsmet féllu.

Frjálsíþróttir

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Flest besta frjálsíþróttafólk landsins tók þátt á Meistaramóti Íslands í Kaplakrika um helgina, þar sem fjögur mótsmet féllu.

Hilmar Örn Jónsson setti mótsmet í sleggjukasti á laugardaginn, er hann kastaði lengst 75,20 metra. Íslandsmetið í greininni á Hilmar Örn sjálfur, 77,10 metra, sem hann setti í ágúst árið 2020.

Með kastinu á laugardag tryggði hann sér sæti á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum. Það fer fram í Eugene í Oregon-fylki í Bandaríkjunum í næsta mánuði.

Kolbeinn og Tiana fljótust

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH setti mótsmet í 100 metra hlaupi karla, er hann kom fyrstur í mark á 10,50 sekúndum. Tiana Ósk Whitworth úr ÍR reyndist þá hlutskörpust í 100 metra hlaupi kvenna er hún kom fyrst í mark á 11,69 sekúndum. Hvorugt þeirra mætti þó til leiks í 200 metra hlaupi karla og kvenna í gær, vegna erfiðra aðstæðna.

Í 200 metra hlaupinu kom Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson úr Ármanni fyrstur í mark á 22,09 sekúndum karla megin og kvenna megin kom María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH fyrst í mark, á 25,52 sekúndum.

Náði sér ekki á strik en vann

Í gær vann Guðni Valur Guðnason nauman sigur í kringlukasti karla, þegar hann kastaði kringlunni lengst 55,96 metra. Mímir Sigurðsson var afar skammt undan í öðru sæti, með kast upp á 55,63 metra og því munaði aðeins 33 sentimetrum á þeim.

Guðni Valur var því talsvert frá sínu besta en erfiðar aðstæður voru á síðari degi Meistaramótsins, þar sem hávaðarok setti strik í reikninginn. Íslandsmet hans í greininni er 69,35 metrar, sem hann setti í september árið 2020.

Elísabet Rut setti mótsmet

Elísabet Rut Rúnarsdóttir setti, líkt og Hilmar Örn karla megin, mótsmet í sleggjukasti kvenna er hún kastaði sleggjunni 62,30 metra. Það er talsvert frá Íslandsmeti hennar í greininni, 65,37 metrum, sem hún setti í byrjun þessa mánaðar.

Yfirburðir Baldvins

Baldvin Þór Magnússon úr UFA kom þá langfyrstur í mark í 1.500 metra hlaupi karla á 4:06,60 mínútum. Hlynur Ólafsson úr FH kom í mark rúmri mínútu síðar, á 5:11,56 mínútum, og krækti þannig í annað sætið.

Í 1.500 metra hlaupi kvenna kom Íris Anna Skúladóttir úr FH fyrst í mark á 4:52,81 mínútum. Í öðru sæti var önnur Íris úr FH, Íris Dóra Snorradóttir, sem kom í mark á 5:01,05 mínútum.

Dagbjartur í sérflokki

Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR kastaði svo lengst í spjótkasti karla, 72,66 metra. Vann Dagbjartur Daði í greininni með miklum yfirburðum enda kastaði hann nærri átta metrum lengra en Örn Davíðsson úr Selfossi, sem hafnaði í öðru sæti með því að kasta 64,92 metra.

Erna Sóley bar af

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR vann með yfirburðum í kúluvarpi kvenna. Hún kastaði lengst 16,54 metra, tæplega fimm metrum lengra en María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH, sem hafnaði í öðru sæti með því að varpa kúlunni 11,71 metra.

Íslandsmet Ernu Sóleyjar í greininni er 17,29 metrar, sem hún setti á Texas Relays-mótinu í Bandaríkjunum í mars á þessu ári.

Hlynur setti mótsmet

Hlynur Andrésson úr ÍR setti mótsmet í 5.000 metra hlaupi karla þrátt fyrir vont veður á sunnudeginum. Hlynur kom langfyrstur í mark á 14:13,92 mínútum, sem er góður árangur almennt en sérstaklega miðað við erfiðar aðstæður. Samherji hans úr ÍR, Jökull Bjarkason, hafnaði í öðru sæti er hann kom í mark á 16:24,86 mínútum. Besti árangur Hlyns í greininni er 13:41,06 mínútur.

Munaði 33 sekúndubrotum

Mun meiri spenna var í 5.000 metra hlaupi kvenna, þar sem Íris Anna úr FH kom fyrst í mark, á tímanum 17:43,33 mínútum. Strax í humátt á eftir henni var Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir úr UFA í öðru sæti á 17:43,66 mínútum, einungis 33 sekúndubrotum á eftir henni. Sigþóra Brynja leiddi lengst af en Íris Anna komst naumlega fram fyrir hana á lokametrunum.

Aníta minnti á sig

Í 800 metra hlaupi kvenna kom Aníta Hinriksdóttir úr FH fyrst í mark á 2:11,46 mínútum. Skammt á eftir Anítu var liðsfélagi hennar úr FH, Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir. Kom hún í mark á 2:19,67 mínútum.