Þóra Birna Ingvarsdóttir
thorab@mbl.is
Sigurbjörn Bárðarson er einn fremsti hestamaður sem Ísland hefur getið af sér. Hann sækir í dag sitt tuttugasta og sjöunda Landsmót hestamanna. Sigurbjörn varð sjötugur í febrúar en gefur ekkert eftir og stefnir á sigur í kappreiðum þetta árið á hestinum Vökul frá Tunguhálsi. Þeir félagar urðu Reykjavíkurmeistarar fyrr í vor. Sigurbjörn er í dag þjálfari íslenska landsliðsins í hestaíþróttum og hefur því þurft að draga úr þátttöku sinni á íþróttamótum, en fylgist þeim mun betur með úr brekkunni. Hann viðurkennir að það geti verið leiðinlegt að draga sig í hlé. „En það er líka svo afskaplega gaman að fylgjast með, velja í hóp og halda svo utan um þann hóp.“
Oddhólsræktunin skilar sér
Þó Sigurbjörn sé aðeins skráður til leiks á fjórum hrossum á þessu Landsmóti á hann hlut í töluvert fleiri sýningum. „Ég á barnabarn í úrslitum, hana Hildi Fríðu Steinarsdóttur, alnöfnu ömmu sinnar. Tengdasonurinn skreytir svo efsta sætið í flestöllum greinum og dæturnar eru í úrslitum.“ Dætur Sigurbjörns eru þær Sara og Sylvía, en sú síðarnefnda er trúlofuð Árna Birni Pálssyni sem virðist ætla að feta í fótspor tengdaföður síns á keppnisvellinum. Sara og Árni Björn keppa til úrslita hvort gegn öðru í fimmgangi, Sigurbjörn og Árni Björn keppa svo báðir í 150 metra skeiði. Þá bítast Sylvía og Árni Björn um besta tímann í 250 metra skeiði. Sara, Sylvía og Árni Björn kepptu öll í töltinu, en Árni Björn er þar í efsta sæti inn í úrslit, líkt og í B-flokki gæðinga.
„Þessi Oddhólsræktun er að skila sér, hún er margvísleg og skilar sér bæði í hrossum og mannfólki,“ segir Sigurbjörn léttúðlega, en Oddhóll er jörð á Rangárbökkum þar sem Sigurbjörn og eiginkona hans, Fríða, hafa aðsetur. „Þegar krakkarnir voru allir enn heima og við farin að keppa í sömu flokkum þá gat orðið spennuþrungið andrúmsloft við matarborðið,“ segir Sigurbjörn.
Baktería sem aldrei hvarf
„Máltækið er samt: megi sá besti vinna. Ef þú ert ekki sá besti þá áttu bara að óska hinum til hamingju. Það er rétti íþróttaandinn, " segir Sigurbjörn. Kappreiðar eru uppáhaldskeppnisgrein Sigurbjörns, sem hefur sett ófá tímamet í skeiði í gegnum tíðina. „Þetta er svo spennandi og gefur svo mikið adrenalínkikk. Þarna ertu aldrei að deila við neinn dómara heldur er það einfaldlega klukkan sem þú keppir við. Hún er besti dómarinn," segir Sigurbjörn. Lýsir því á þann veg að hann hafi fengið í sig kappreiðarbakteríu sem ungur strákur, og hún hafi aldrei horfið.