Snæfellsbær Kristinn bæjarstjóri við hina skeinuhættu hraunnibbu sem er á mótum bílastæðis og gangstéttar.
Snæfellsbær Kristinn bæjarstjóri við hina skeinuhættu hraunnibbu sem er á mótum bílastæðis og gangstéttar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Ég tók sjálfur skellinn vegna tjónsins. Fannst hreinlega ekki hægt að senda inn skýrslu til tryggingafélags og blanda álfum og huldufólki inn í atvikalýsingu,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Grasin vaxin hraunnibba við hús bæjarskrifstofunnar þar vestra, sem stendur við götuna Klettsbúð á Hellissandi, er úti í kanti á steyptu plani fyrir framan bílskúr á húsinu. Og steinarnir tala, eins og oft er sagt.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ég tók sjálfur skellinn vegna tjónsins. Fannst hreinlega ekki hægt að senda inn skýrslu til tryggingafélags og blanda álfum og huldufólki inn í atvikalýsingu,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Grasin vaxin hraunnibba við hús bæjarskrifstofunnar þar vestra, sem stendur við götuna Klettsbúð á Hellissandi, er úti í kanti á steyptu plani fyrir framan bílskúr á húsinu. Og steinarnir tala, eins og oft er sagt.

Griðastaður í grjóti

Byggingin við Klettsbúð var reist fyrir 40 árum og þar var lengi útibú Landsbankans. Ætla má að eðlilegast hefði verið við byggingaframkvæmdir á sínum tíma að moka drýlinu burt, enda sviplíkt mörgum öðrum á þessum slóðum. Kristinn segir slíkt þó aldrei hafa komið til greina, enda sé trú Sandara – eins og íbúar á þessum slóðum eru gjarnan kallaðir – að sitthvað búi þarna í grjótinu. Huldar vættir eigi sér bústað í steini þessum á bílastæðinu sem því hafi fengið að halda sér. Röskun geti raskað ró þeirra sem eiga sér griðastað í grjótinu.

„Þegar ég kem til vinnu legg ég bílnum mínum jafnan úti við götu. Núna á dögunum var þarna plássleysi og því fór ég með bílinn inn á steypta planið, hvar hann stóð daglagt, segir Kristinn. „Svo var ég á heimleið og þá bakkaði ég bílnum utan í steininn, sem var eiginlega óskiljanlegur klaufaskapur. Stuðarinn var beyglaður eftir þetta og rispur í lakki. Við þessu var í sjálfu sér lítið að gera annað en bara brosa. Og undarlegt í þessu er að þetta var í annað af tveimur skiptum sem ég hef lagt bílnum þarna. Hitt tilvikið var fyrir sjö eða átta árum og þá lenti ég nákvæmlega í þessu sama; skemmdi bílinn. Þetta er satt að segja allt lyginni líkast; yfirskilvitlegt en þó dagsatt.“

Ósýnilegt í aðalskipulagi

Oft er sagt að duldir kraftar og kynngimagn sé við Snæfellsjökul. Þá eru til margar sagnir um álfa og huldufólk á þessum slóðum. Má þar geta þess að í aðalskipulagi sveitarfélagsins eru byggðir þessara ósýnilegu íbúa sérstaklega færðar inn. Af þessu er tekið mið í mannlífi og mannvirkjagerð.

„Hér á Hellissandi er gatan Munaðarhóll og hún endar sem botnlangi þegar kemur að hraunhólum, en þar vilja ýmsir meina að séu heimkynni huldufólks. Svona er þetta víðar hér og sjálfsagt að sýna þessu virðingu. Fólk hér lifir í sátt við umhverfi sitt,“ segir Kristinn Jónasson.