Tengsl Boris Johnson og Guðlaugur Þór Þórðarson á einum af fundum sínum.
Tengsl Boris Johnson og Guðlaugur Þór Þórðarson á einum af fundum sínum. — Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Hann er hrókur alls fagnaðar. Það er sama hvaða fundi menn voru á, alltaf var athyglin á honum og það bara af jákvæðum ástæðum. Hann er mjög hress og mikill húmoristi, greindur og vel lesinn, enda maður sem dregur að sér fólk,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um kynni sín af Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, en þeir voru báðir utanríkisráðherrar á sínum tíma.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Hann er hrókur alls fagnaðar. Það er sama hvaða fundi menn voru á, alltaf var athyglin á honum og það bara af jákvæðum ástæðum. Hann er mjög hress og mikill húmoristi, greindur og vel lesinn, enda maður sem dregur að sér fólk,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um kynni sín af Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, en þeir voru báðir utanríkisráðherrar á sínum tíma.

Guðlaugur Þór segir að Boris hafi bæði mikinn karakter og mikla útgeislun, en að hann hafi alltaf verið umdeildur og náð að afla sér óvina í stjórnmálunum heima fyrir í Bretlandi. „En það sem mun standa upp úr, því að einhvern tímann fá menn eins og hann sanngjarna umfjöllun, er að hann vann tvennar kosningar, 2008 og aftur 2012, sem borgarstjóri Lundúnaborgar, sem íhaldsmenn hafa ekki náð að gera oft, og var með farsæla borgarstjóratíð þar,“ segir Guðlaugur Þór og bendir einnig á að Boris hafi náð að höggva á þann hnút sem var kominn upp í Brexit-málinu, og að hann hafi notið við það mikils stuðnings meðal bresku þjóðarinnar.

„Svo held ég að það sé óumdeilt, að sá maður sem hefur gengið harðast fram af leiðtogum stórveldanna í stuðningi sínum við Úkraínu er Boris Johnson. Ef Boris hefði ekki verið til staðar og stuðningur Breta svo skýr, þá væri allt önnur og verri staða uppi núna í Úkraínu,“ segir Guðlaugur Þór og bendir á að hann hafi nýlega verið gerður að heiðursborgara í hafnarborginni Ódessu.

„Við höfum séð hvernig forysturíki Evrópusambandsins hafa verið í besta falli tvístígandi þegar kemur að þeim stuðningi. Það er þetta sem mun standa upp úr, og það held ég að sé alveg víst, að Pútín [Rússlandsforseti] mun ekki harma þessa niðurstöðu.“

Gleymdi aldrei vináttu Íslands

Guðlaugur Þór segir því engan vafa að sagan muni dæma Boris betur en samferðamenn hans gera nú. „Hann hefur náð til fólks sem Íhaldsflokkurinn hefur átt erfitt með að ná til, og það hefur alltaf verið hans styrkur,“ segir Guðlaugur Þór og bendir á að Boris hafi aldrei verið fulltrúi „elítunnar“ innan Íhaldsflokksins, heldur hafi hann alltaf þurft að sækja stuðning sinn annars staðar frá. „Það er enginn vafi að hann er maður fólksins, og öll hans framganga hefur verið á þann veg.“Guðlaugur Þór segir að hann og Boris hafi átt saman marga góða fundi, sem lögðu grunninn að því góða samstarfi sem nú ríkir á milli Íslands og Bretlands. „Hann er einn af þeim sem gerðu það að verkum, að samstarf Íslands og Bretlands hefur ekki verið jafnnáið í langan tíma, og það styrktist og efldist á þeim tíma sem við vorum utanríkisráðherrar.“

Guðlaugur bendir á að á þeim tíma hafi verið uppi gríðarleg heift gagnvart Bretum innan Evrópusambandsins vegna fyrirhugaðrar útgöngu þeirra úr sambandinu. „Ég tók ekki þátt í því, enda var þetta ákvörðun bresku þjóðarinnar sem fengin var með lýðræðislegum hætti,“ segir Guðlaugur Þór.

„Hann sagði því eitt sinn við mig bæði í gamni og alvöru að ég væri ekki bara besti vinur hans í Evrópu, ég væri eini vinur hans í Evrópu. Ég sagði á móti að hann mætti ekki gleyma því, og það gerði hann ekki,“ segir Guðlaugur Þór.