Sigríður Oddsdóttir Malmberg var fædd í Reykjavík 10.3. 1932. Hún lést 26. júní 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðný Maren Oddsdóttir, f. 26.6. 1909, d. 1.3. 2010, og Oddur Erik Ólafsson verkstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, f. 17.3. 1905, d. 16.6. 1977.

Hinn 21.8. 1954 giftist hún Halldóri Ejner Malmberg, f. 22.2. 1928, d. 23.9. 2016, í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn. Foreldrar Halldórs voru hjónin Ingileif Malmberg, f. 4.4. 1905, d. 28.8. 1987, og Ejner Malmberg, f. 14.8. 1903, 18.9. 1963, kaupmaður í Reykjavík. Systkini Sigríðar: Magnús Oddsson, f. 17.11. 1935, d. 11.4. 2017, og Ólöf Oddsdóttir, f. 4.10. 1944.

Börn Sigríðar og Halldórs eru: Anna María, f. 1954. Oddur, f. 1962. Börn hans með Margréti Úrsúlu Ingvarsdóttur eru: a) Halldór Björn, f. 1988, maki Helga Kristín Hjartardóttir og eiga þau einn dreng, Úlf Einar, f. í janúar 2021. b) Oddur Máni, f. 1992. c) Herta Sól, f. 1993, maki Jóhann Gunnar Kristinsson, saman eiga þau einn dreng, Eyþór Jökul, fæddan í október 2000. Oddur og Margrét Úrsúla slitu samvistir. Eiginkona Odds er Susan E. Gollifer, f. 1965. Dóttir þeirra er Marina Embla, f. 2004.

Sigríður gekk í Hótel- og veitingaþjónaskóla Íslands útskrifast þaðan sem framreiðslumaður, starfaði fyrst á Röðli, svo í Glaumbæ og seinna Klúbbnum, eftir brunann í Glaumbæ. Seinna fer hún í Kennaraháskóla Íslands og útskrifast með kennsluréttindi. Er starfandi heimilisfræðikennari þar til hún verður 72 ára, fyrst í Austurbæjarskóla og síðan í Kársnesskóla Í Kópavogi.

Hún og Halldór áttu sumarbústað í Biskupstungum, nú Bláskógabyggð og dvöldu þar löngum stundum við að rækta landið.

Sigríður greindist með alzheimersjúkdóminn árið 2010 og ljóst er að fyrstu einkenni hans komu fyrst fram mörgum árum áður. Hún bjó á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu Laugarási í tæplega 12 ár og lést þar að morgni dags 26. júní sl. Útför hennar fór fram í kyrrþey.

Sigríður var systir Magnúsar eiginmanns míns, sem er látinn. Hún var eldri en hann, var alltaf kölluð Sigga og hún kallaði hann alltaf Magga. Þau voru alla tíð góðir vinir og hann mat hana mikils. Bernskuheimili þeirra var fyrst í Skerjafirði en eftir að Reykjavíkurflugvöllur var byggður fluttist fjölskyldan í Laugarneshverfið og systirin Ólöf bættist í hópinn. Það var oft brosað þegar þau systkinin rifjuðu upp bernskuárin í Skerjafirði. Móðir þeirra hafði mikinn áhuga á heilsurækt og hreyfingu og stundaði t.d. sjóböð. Hún lagði sig fram við að gefa þeim góðan og hollan mat og dýfði þeim líka oft ofan í kaldan sjóinn við litla hrifningu þeirra.

Ég kynntist Siggu fyrst þegar við bróðir hennar fórum að vera saman. Um leið kynntist ég líka eiginmanni hennar, Halldóri, sem var oftast kallaður Dóri. Að mínu mati voru þau hjónin ólíkar persónur en engu að síður voru þau mjög samstiga í lífinu og áttu farsælt og gott hjónaband í 62 ár eða þar til Halldór lést.

Eftir langa samfylgd er margs að minnast. En ferðirnar tvær til Hveravalla sem við hjónin fórum með Siggu og Dóra hafa alltaf verið sérstaklega minnisstæðar. Þessar ferðir voru farnar með nokkurra áratuga millibili en veðrið var í bæði skiptin svipað, frekar hryssingslegt. Gist var á Hveravöllum. Í fyrri ferðinni var farið í Þjófadali, gengið á Rauðkoll og við Sigga komumst meira að segja á hestbak. Í seinni ferðinni var komið við í snjónum í Kerlingarfjöllum. Í báðum ferðunum var farið á Beinahól og skoðuð bein hrossa og kinda sem voru þar og talin vera frá 18. öld.

Sigga og Dóri eignuðust tvö mannvænleg börn, Önnu Maríu og Odd. Barnabörnin eru fjögur og barnabarnabörnin orðin tvö. Þau báru mikla umhyggju fyrir börnum og barnabörnum og létu sér mjög annt um velferð þeirra. Barnabörnin voru þeim líka miklir gleðigjafar.

Mágkona mín var mikil sómakona með hlýja nærveru. Hún var gestrisin og góð heim að sækja. Þegar færi gafst saumaði hún t.d. út listaverk, fékkst við bútasaum, stundaði ræktunarstörf í sælureit þeirra hjóna í Biskupstungunum og fór í veiðiferðir.

Guðný tengdamóðir mín náði því að verða tæplega 101 árs og sinnti Sigga móður sinni af alúð og umhyggju síðustu ár hennar. Hún var líka umhyggjusöm stóra systir og fylgdist vel með börnum systkina sinna og fjölskyldum þeirra.

Fyrir um það bil áratug tók heilsu Siggu að hnigna og hún greindist með alzheimer. Þau hjónin fluttu á Hrafnistu í Laugarási og þar var heimili hennar síðan en Halldór lést árið 2016. Síðustu árin voru henni og fjölskyldu hennar erfið, sérstaklega Covid-tímabilið. En börnin, barnabörnin og Ólöf systir hennar lögðu sig fram við að reyna að létta henni lífið eftir því sem mögulegt var. Sigga andaðist á afmælisdegi móður sinnar 26. júní sl.

Ég og fjölskylda okkar Magga sendum fjölskyldu Siggu svo og Ólöfu mágkonu einlægar samúðarkveðjur. Við þökkum samfylgdina gegnum árin og minnumst Siggu með virðingu og þökk.

Minningin er ljós sem lifir.

Svandís Pétursdóttir.

Ég man alltaf eftir því þegar ég gekk upp tröppurnar á Otrateigi 6 í fyrsta skipti árið 2001. Ég var á leiðinni að hitta tvo einstaklinga sem myndu verða fastur liður í lífi mínu. Halldór og Sigríður, þið buðuð mér ást og stuðning og skilyrðislausa viðurkenningu á því hver ég var, hver ég varð og hver ég mun halda áfram að verða.

Sigga, þú ert nýfarin frá okkur og ert nú á leiðinni að hitta þá sem fóru á undan þér, þar á meðal hann Halldór þinn. Ég skrifa í dag fyrir hönd hinnar fjölskyldu þinnar, Golliferanna. Ég skrifa til að fagna lífi þínu og þakka þér fyrir að tryggja að þetta dýrmæta líf þitt auðgaði alla þá sem voru á vegi þínum.

Golliferarnir og margir vinir mínir minnast þess að hafa verið tekið vel á heimili þínu. Þú varst alltaf klædd einstaklega glæsilega, breitt blíða brosið þitt og tindrandi augu tilbúin að faðma gesti þína. Þú myndir leiða okkur öll að sporöskjulaga fjölskylduborðstofuborðinu, alltaf hlaðið pönnukökum og öðru góðgæti.

Sitjandi við borðið hvattirðu okkur alltaf til að borða á meðan þú spjallaðir við okkur öll. Það kom alltaf að því að gestir þínir spurðu seinna, hvort við hefðum verið að tala ensku eða íslensku. Niðurstaðan var alltaf sú að það skipti í raun engu máli því náttúruleg samskiptagáfa þín leiddi þig til að draga gesti þína inn í þá tilfinningu að vera velkomnir og vera heima í stofunni þinni á Otrateigi 6. Þekking á tungumáli skipti ekki máli. Það sem var mikilvægt var að hafa hæfnina til að hafa samskipti, jafnvel þótt fólk talaði sitthvort tungumálið; þú talaðir við fjölskyldu og vini frá Bretlandi, Gvæana, Singapore, Svíþjóð, Búlgaríu, Kambódíu, Portúgal og Indónesíu svo eitthvað sé nefnt.

Þú kenndir okkur öllum að mannleg samskipti snúast um fordómalausan áhuga á fólki. Þau snúast um að taka fólki eins og það er og hvaðan sem það kemur. Þú minntir okkur alltaf á að vera mannleg og að sýna öðrum manneskjum sannan áhuga og kærleika.

Sigga, við þökkum þér fyrir að láta okkur öllum líða svona einstökum; við þökkum þér fyrir að minna okkur á að lífið snýst um að lifa og læra með öðrum en líka um að vera stolt af því hver við erum og hvaðan við komum.

Farðu friðsamlega Sigga á meðan þú ferðast áfram í átt að þeim sem þú elskar. Farðu vitandi að við elskum þig. Við söknum þín en farðu vitandi að þú hefur snert okkur öll og munt alltaf vera hluti af því sem við erum.

Sue, tengdadóttir þín, og Golliferarnir og vinkonurnar sem fengu pönnukökur á Otrateigi 6.

Susan Elizabeth Gollifer.

Jæja Sigga mín. Þá er komið að leiðarlokum. Síðustu árin hafa ekki verið góð við þig, því miður, en mikið var nú alltaf gaman að hitta á þig, þú misstir aldrei þann hæfileika að koma mér til að hlæja, hátt og mikið. Ég er fegin að þú fékkst hvíldina en minningarnar hrannast inn við þessi tímamót og mig langaði í nokkrum orðum að þakka þér fyrir.

Þakka þér fyrir að taka svona vel á móti mér þegar ég hitti þig fyrir 45 árum. Þakka þér fyrir að hafa alltaf verið svona örlát á tíma þinn og gestrisni. Þakka þér fyrir allan matinn sem ég fékk að njóta hjá þér og þakka þér fyrir kærleikann í gegn um öll árin.

Þau heiðurshjónin, Halldór og Sigríður, reyndust mér svo innilega vel. Þau voru svo sannarlega aukabónus þegar ég kynntist Oddi, syni þeirra, mínum besta vini, fyrir öllum þessum árum. Og í gegn um árin hafa verið ótal veislur þar sem við hittumst, afmæli, útskriftir, fermingar, giftingar og allt það sem fjölskylda gerir saman. Og alltaf var mér vel tekið af þeim, útbreiddir faðmar og falleg bros.

Og hún Sigga var svo mikill nagli. Alltaf var þessi kona dugleg, atorkusöm og með risabein í nefinu. Það er aðdáunarvert að hafa fylgst með henni í lífinu, þetta var kona sem var óhætt að líta upp til. Hún var góð kona og það eru þau bestu meðmæli sem ég get gefið einni mannveru.

Nú eru þau bæði horfin á braut en ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar sem ég fékk að njóta með þeim. Mikið afskaplega geta Oddur og Anna María verið glöð með að hafa átt þau sem forelda, það eru ekki allir svo heppnir.

Ég votta Oddi og Önnu Maríu, börnum og barnabörnum samúð mína, þau hafa misst mikið í þessari sál.

Með aðdáun og virðingu til þín Sigga mín, hvíldu í friði.

Ragnheiður Hanson.

Vorið 1940 varð mikil breyting hér í Reykjavík vegna hernámsins. Fólk sem bjó í Skerjafirði næst fyrirhuguðu flugvallarsvæði varð að víkja með húsin sín eða án þeirra. Flest voru timburhús, sem hægt var að flytja. Foreldrar Sigríðar Oddsdóttur Malmberg, sem ég minnist nú reistu sér nýtt hús í Laugarneshverfi og vegna þess varð Sigríður að skifta um skóla og kom í Austurbæjarskólann og lenti í bekk með undirritaðri. Með okkur tókust góð kynni. Næsta haust kom Sigríður ekki í bekkinn minn og sá ég hana ekki fyrr en löngu síðar. Hún hafði þá byrjað í Laugarnesskóla; að sjálfsögðu. Eftir skólagöngu í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur kynntumst við aftur og urðum vinkonur í um það bil sjötíu og fjögur ár. Á haustmánuðum árið 1953 sigldi Sigríður út í hinn „stóra“ heim til Kaupmannahafnar til að fá sér vinnu, sem hún fékk þar. Í Kaupmannahöfn kynntist hún fljótlega íslenskum manni; skemmtilega prúðmenninu Halldóri Malmberg, sem bjó þar þá og varð lífsförunautur hennar. Þau fluttust til Íslands, giftust og byrjuðu sinn búskap í Laugarneshverfinu, fyrstu árin við Gullteig og síðar festu þau kaup á húsí við Otrateig 6, sem varð framtíðarheimili þeirra. Ótaldar eru ánægjustundirnar á fallegu menningarheimili þeirra í Laugarnesinu. Börnin þeirra tvö, Anna María og Oddur, bera prúðmennsku og reglusemi foreldra sinna fagurt vitni. Þau menntuðust, fluttu síðar úr foreldrahúsum og stofnuðu eigin heimili. Undirrituð, sem þessar línur párar saknar klúbbsins okkar, sem Sigríður hélt vel utan um. Við vorum sex vinkonur til margra ára og komum saman af og til. Þær stundir voru okkur afar dýrmætar. Sigríður var orðvör, rólynd, væn og hjálpsöm kona. Það er vert aðdáunar hve börn þeirra hjóna Anna María og Oddur ásamt tengdadóttur og afkomendum þeirra hafa sýnt foreldrunum mikinn kærleik og umhyggju er heilsu þeirra fór að hnigna, en síðustu árin áttu þau heimili við Brúnaveg 13, á Dvalarheimili Hrafnistu og þar undu þau hag sínum vel við gott atlæti. Á kveðjustund er mér þakklæti efst í huga. Innilegustu samúðarkveðjur til nánustu ættingja. Blessuð veri minning Sigríðar Oddsdóttur Malmberg. Megi hún ætíð vera á Guðs vegum.

Guðfinna Guðmundsdóttir.